Stafræn bylting
Það munar um meirihluta við stjórnvölinn í Reykjavík sem setur skilvirkni og þjónustu við borgarbúa í forgang. Við ætlum okkur stafræna byltingu. Að rafræn stjórnsýsla verði fyrsta val borgarbúa. Hröð, einföld og þægileg þjónusta. Það er Píratamál.
Við erum á fullri ferð. Nýsköpun, ný tækni og áherslur Pírata ná fram að ganga hjá borginni sem aldrei fyrr og það er sko engin tilviljun. Píratar eru í stjórn í samstarfi við flokka sem skilja mikilvægi innviða og eins og Píratar vilja fjárfesta og nútímavæða. Við erum að leggja mikið fjármagn og metnað í þá vinnu enda mikilvægt og sparar fé til lengri tíma.
Á síðasta ári varð til nýtt svið þjónustu- og nýsköpunar til að lyfta upp vinnu við nútímavæðingu þjónustu og nýsköpun. Um leið fylgdi aukinn pólitískur stuðningur málaflokksins með skýrari tengingu inn í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð.
Verið er að innleiða þjónustustefnu Reykjavíkurborgar sem er mikilvægt skref breytinga, skref í átt að stafrænni stjórnsýslu. Við færðum umsóknarferil fjárhagsaðstoðar á vefinn og endurhugsuðum alla þjónustuna þar að baki. Breytingin er risastór þar sem farið var frá því að safna saman pappírsfargani frá mismunandi stofnunum og skila inn í ferli sem tók daga, jafnvel vikur, yfir í að geta sótt um fjárhagsaðstoð í gegnum vefinn og fengið úrlausn þinna mála á 24 klukkustundum. Talandi um sparnað fyrir einstaklinginn, samfélagið og umhverfið! Kerfið að baki þessari nýjung var nýlega valið vefkerfi ársins 2019 af Samtökum vefiðnaðarins.
Við erum að gera þjónustuna aðgengilegri, skilvirkari og betri. Við erum að forgangsraða í þína þágu.