Rétturinn til að hafna vinnu

Halldór Auðar Svansson skrifar um freistnivanda SAF og SA.

Ein af stærstu áskorunum í því að ná okkur eftir Covid-faraldurinn er aukið og langvarandi atvinnuleysi. Þrátt fyrir að mikilvægt sé að vinna bug á atvinnuleysinu þá er líka ástæða til að vara við þeim þankagangi að það skipti eiginlega engu máli hvernig leysist úr atvinnuleysinu, svo lengi sem það gerist hratt.

Orðræðan um vanþakklátu atvinnuleysingjana

Nokkuð hefur borið á orðræðu um hvað það sé mikið vandamál að sumt fólk sem er á atvinnuleysisskrá gerist það rosalega vanþakklátt að hreinlega hafna vinnu. Þetta er áberandi til dæmis hjá hluta þeirra vinnuveitenda sem eru að reyna að koma ferðaþjónustunni aftur af stað hratt. Aðilar eins og talsmenn Vinnumálastofnunar hafa eiginlega tekið undir þessa orðræðu að hluta. Þegar skoðaðar eru reglur Vinnumálastofnunar eru þær síðan ansi stífar – samkvæmt þeim þá verður fólk að vera tilbúið til að taka eiginlega hvaða vinnu sem er til að teljast í virkri atvinnuleit. Stofnunin hefur reyndar gefið út ákveðnar áréttingar á því að sumum reglum á borð við að fólk verði að vera til í að taka vinnu hvar sem er á landinu sé ekki fylgt stíft eftir. Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar vilja hins vegar bersýnilega að það sé tekið stíft á þessu, en í sameiginlegu minnisblaði þeirra til fjárlaganefndar Alþingis segir: „Fjöldi atvinnuleitenda hefur hafnað störfum samkvæmt atvinnurekendum víðs vegar um land eða með öðrum hætti sýnt áhugaleysi á störfum. Hafa atvinnurekendur í einhverjum tilfellum tilkynnt um atvikin og viðkomandi atvinnuleitendur verið felldir af atvinnuleysisskrá. Þetta virðist vera almennur vandi og fjölmörg dæmi frá atvinnurekendum þess efnis, til SA og SAF sem og í fjölmiðlum. SA og SAF hvetja til þess að tilkynnt sé um slík atvik.“

Freistnivandinn

Hér er á ferðinni freistnivandi sem er miður að samtökin tvö virðast vera að falla í. Með fjölmennum hópi atvinnulausra sem hægt er að þvinga til að taka ákveðin störf myndast freisting fyrir atvinnuleitendur að beita þessari svipu frekar en gulrótum á borð við kjör og annan aðbúnað sem gerir störfin aðlaðandi. Þetta dregur að sjálfsögðu úr frelsi einstaklingsins til að velja sér starf við hæfi, þvingar hann til að taka lélegra starfi og/eða lélegri kjörum en myndu kannski standa til boða ef hann hefði sterkan rétt á því að hafna störfum sem honum líkar ekki. Markmiðið er nefnilega ekki endilega bara það að draga úr atvinnuleysinu heldur líka það að góð störf skapist á góðum kjörum. Það er án efa mikið af fyrirtækjum sem vilja fyrst og fremst fá starfsfólk sem er sátt við að vinna hjá þeim og hugnast það ekkert sérstaklega vel að moka inn starfsfólki fyrst og fremst á þeim forsendum að það er eiginlega þvingað til að vinna hjá þeim. Það hljóta eiginlega að vera fyrst og fremst svörtu sauðirnir sem eiga erfitt með að laða að fólk út frá eigin verðleikum og það er óþarfi að hampa þeim eitthvað sérstaklega og gera þeirra orðræðu og óskir að hinu almenna.

Réttur og frelsi einstaklingsins

Fyrst og fremst er þetta spurning um hvort við höfum trú á einstaklingnum eða ekki, hvort við viljum veita honum rétt á því að fóta sig sjálfur eða hvort við teljum að hann muni eiginlega bara fara sér að voða og skaða einhverja stærri hagsmuni á borð við þörf vinnuveitenda fyrir vinnuafl. Þetta er smættuð útgáfa af hinni stærri umræðu um borgaralaun, sem róttækar hreyfingar á borð við Pírata eru hrifnar af út frá hugmyndafræðilegum ástæðum, ákveðinni sýn á frelsi einstaklingsins. Í tilfelli atvinnuleysisbóta er augljóst að þetta frelsi er best tryggt með því að hafa sem minnstar kvaðir á því hvað einstaklingurinn þarf að gera til að þiggja bætur, með því að hafa kvaðirnar bara almennar (sæktu reglulega um störf, sýndu fram á að þú hafir skýra sýn á hvað þú vilt og fylgdu þeirri sýn markvisst eftir). Ef – sem er stórt ef – það er virkilega það stórt vandamál að fólk sé að hafna störfum að taka þurfi á því, þá er hægt að huga að því að herða skrúfurnar kannski þegar fólk er búið að vera atvinnulaust í ákveðinn tíma, búið að hafna ákveðið mörgum störfum eða að einhverju öðru leyti farið að sýna þess merki að sannanlega hafa meiri áhuga á því að vera á bótum en að sækja sér vinnu. En almennu reglurnar framan af mega alveg vera léttar og lausar.

Veðjum af alvöru á einstaklinginn og treystum því að hann spili vel úr því veðmáli. Það hljóta öll að græða á því.

Upprunaleg BirtingFréttablaðið

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....