Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu þá, þegar við erum hrædd, sem við getum verið hugrökk. Það er þá sem við fáum tækifæri til að standast freistinguna að fórna frelsi annarra fyrir okkar.
Rannsóknarheimildir lögreglu
Það er engum blöðum um það að fletta að aðgerðir sem beinast gegn stjórn landsins, lögreglu og Alþingi, kalla á viðbrögð. Nú þegar eru farnar að heyrast raddir um að lögreglan eigi að fá forvirkar rannsóknarheimildir. Í því samhengi er rétt að skoða að engin merki eru um að lögreglu gangi illa að fá heimildir til eftirlits í gegnum dómstóla, né eru ummerki um að í þessu samhengi hafi lögregluna skort heimildir.
Aðgerðir sérsveitar
Í samhengi við þetta var einn mannanna sem handtekinn var beittur harðræði við handtöku aðeins 12 ára gamall með leikfangabyssu. Í nýlegum fréttum sat drengur nánast í stofufangelsi á eigin heimili þar sem hann varð ítrekað fyrir afskiptum sérsveitarinnar vegna líkinda við allt annan mann. Vitanlega þarf að starfa sveit innan lögreglunnar sem tekst á við erfið mál. Við þurfum engu að síður að hafa í huga að afleiðingar þess þegar fólk að ósekju verður fyrir þessum aðgerðum eru raunverulegar og geta verið varanlegar.
Hjólahvíslarinn
Það er líka rétt að hafa í huga að lögreglan bregst ekki við öllum glæpum. Þangað til nýlega beitti hjólahvíslarinn sér fyrir því að endurheimta stolin hjól fyrir eigendur. Þrátt fyrir að lögreglunni væri gert viðvart hafði það engin áhrif og fólk varð sjálft að endurheimta sín hjól án nokkurrar aðstoðar lögreglu. Þessi einstaklingur hafði engar rannsóknarheimildir en varð samt mikið ágengt við að endurheimta hjól, en lögreglunni með sínar heimildir ekki.
Öryggi hjólreiðafólks
Í umferðarlögum er ökutækjum sem ætla að taka fram úr reiðhjólum gert að gera það með 1,5 metra millibili. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar, myndskeið og fleira, hefur lögreglan ekki aðhafst neitt í slíkum brotum. Þrátt fyrir að um sé að ræða aðstæður sem skapa stórhættu fyrir hjólreiðafólk sem samkvæmt umferðarlögum á að nota akbrautir.
Brot á kosningalögum
Fyrir þau sem telja hjólaþjófnað og hættulegan framúrakstur vera minniháttar afbrot, má líka benda á að við tvennar síðustu kosningar hafa komið upp atvik sem ég tel að geti varðað við kosningalög. Lögregla hefur sýnt því afar lítinn áhuga og almennt vísað öllum kærum frá og það sama á við um héraðssaksóknara án þess að færa fyrir því fullnægjandi rök. Það á ekki að vera til umræðu annað en að fara eftir kosningalögum í einu og öllu, en lögregla hefur ekki neitt frumkvæði hvað varðar hugsanleg brot á kosningalögum sem eru þó grundvöllur alls okkar samfélags og varla hægt að taka brot á þeim of alvarlega.
Varsla neysluskammta
Lögreglan telur sig svo ekki hafa neinn valkost annan en að beita sér af fullum þunga í afbrotum sem tengjast neysluskömmtum á fíkniefnum og geti ekki tekið neitt tillit til þeirrar erfiðu stöðu sem fólk með fíknivanda stendur frammi fyrir, hversu íþyngjandi fyrir það fólk aðgerðir lögreglu eru og hversu mikið sem slíkar aðgerðir kosta. Þegar sá kostnaður er tekinn saman verður hann oft nokkur og til eru dæmi um það að slíkar aðgerðir beinist að fólki sem tengist þeim ekki á neinn hátt. Hér má líka benda á að öfugt við flesta aðra glæpi er í þessum tilfellum þolandi og gerandi sami aðili.
Samherjamálið
Svo er nýlegt dæmi um mjög skrítið mál þar sem blaðamenn fá réttarstöðu sakbornings á grundvelli refsiheimilda, sem beinlínis eiga ekki við um blaðamenn, vegna starfa sinna og þolendur í málinu hafa að því er virðist fengið fullan aðgang að gögnum málsins, nokkuð sem þolendur kynferðisbrota hafa ítrekað kallað eftir en orðið lítið ágengt.
Undirfjármögnun sálgæslu
Á sama tíma starfar hér ríkisstjórn sem fjármagnar ekki ýmiss konar heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega sálfræðiþjónustu. Sálfræðiþjónustu sem gæti skilað sér margfalt til baka í bættum lífsgæðum þeirra sem á þurfa að halda, sem og þátttöku þeirra í samfélaginu sem annars væru jaðarsett. Við erum hér líka með mýmörg dæmi um stofnanir og yfirvald sem hafa borið ábyrgð á velferð barna en hafa algerlega brugðist því hlutverki með gríðarlegum persónulegum kostnaði þeirra sem verða fyrir.
Lögreglan á að hafa greiðan aðgang að dómurum sem geta metið hvort eftirlit eigi rétt á sér og ekki er að sjá að neitt skorti á þar. Að sama skapi þarf líka að vera til eftirlit með störfum lögreglu og við skulum hafa hugrekki til þess að standa í lappirnar gegn viðleitni til að koma á ólögum sem fórna frelsi annarra fyrir öryggi okkar.
Svo slæm brot og misneyting lögreglu í aðgangshörku og hörku eru sjaldnast til umræðu. Ī minu tilviki var lífi mīnu rústað með uppdiktuðum sögum, fölsuðum skyrslum og skilaboðum, en ég var beigður en ekki brotinn.
Aðgerðir lögreglu og brot å reglum, samtrygging í dómskerfinu og lygaþvættingur var alger.
Lögreglan komst upp með þetta allt saman.