Ný stjórnarsrká væri frábær lausn á vandanum við þriðja orkupakkann, sem ætti að róa áhyggjur allra.
NÝ STJÓRNARSKRÁ.
1. Þar sem kveðið er á um auðlindir í þjóðareign og nýtingu á þeim.
2. Þar sem framsal ríkisvalds er ekki háð duttlungum Alþingis samkvæmt ósýnilegri, fræðilegri línu sem enginn getur afmarkað endanlega, heldur er skýrt, afmarkað, afturkallanlegt og með lýðræðislegu umboði.
3. Þar sem kjósendur geta kallað til sín ákvarðanir yfir málum sem Alþingi hefur samþykkt, án tillits til þess hvort Alþingi góðfúslega „virði niðurstöðuna“. Niðurstaðan einfaldlega gildi.
Það er þó þess virði að hafa nokkra hluti í huga.
1. Þriðji orkupakkinn varðar hvorki eignarhald yfir auðlindum eða nýtingu, né nýtingarrétt yfir þeim. En áhyggjur fólks af því að svo sé, eru tilkomnar vegna þeirrar vitneskju að stjórnarskráin sé þögul um efnið. Hið eðlilega vantraust til Alþingis hjálpar ekki til við að róa þær áhyggjur.
2. Þriðji orkupakkinn framselur ekki vald umfram heimildir stjórnarskrár samkvæmt jafnvel íhaldsömustu fræðimönnum. En bæði spurningin um hvort eitthvað gangi of langt gagnvart stjórnarskrá, sem og hvernig það skuli útkljáð, er í dag ekki háð neinu sem stendur í stjórnarskránni sjálfri, heldur er fyrst og fremst fræðileg spurning, sem er á endanum einfaldlega útkljáð með atkvæðum þingmanna í þingsal. Með öðrum orðum eru það á endanum þingmenn sjálfir, en ekki stjórnarskrá eða jafnvel dómstólar, sem ákveða hvar línan liggur um framsal valds. (Þetta snertir á þeim mikivæga punkti að framsalsákvæði í stjórnarskrá þýðir ekki endilega auknar heimildir til framsals, heldur er þvert á móti til að hafa hemil á því. Framsal valds er þegar heimilt – línan er bara óskýr og háð þingmönnum en ekki rituðum texta og dómstólum.)
3. Í nýrri stjórnarskrá er ekki hægt að senda *hvað sem er* í þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum 10% kjósenda, heldur eru undanskilin t.d. fjárlög, ríkisborgararéttur og *mál til að framfylgja þjóðréttarlegum skuldbindingum*. Þótt það sé ekki 100% ljóst hvort þriðji orkupakkinn sé til að framfylgja þjóðréttarlegum skuldbindingum, þá er í dag engin leið til að útkljá það endanlega, en ný stjórnarskrá myndi láta dómstóla skera úr um það. Í dag er einungis hægt að framkvæma ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu (sem er í raun bara vel gerð skoðanakönnun) sem er háð því að stjórnmálamenn virði niðurstöðuna og dómstólar hafa ekkert um að segja.
Ef við værum nú þegar komin með nýja stjórnarskrár væri efnisinnihald þriðja orkupakkans hið sama og áhrif hans hin sömu, af þeirri einföldu ástæðu að hann framselur ekki of mikið vald og varðar ekki eignarhald eða nýtingarrétt yfir auðlindum. En umræðan væri jarðbundnari vegna þess að fólk myndi vita að ef þingmenn framseldu of mikið vald, að þá væri ákvörðunin einfaldlega ekki gild, og að þeir hefðu einfaldlega enga heimild til að framselja eignarhald yfir auðlindum.
Þótt lýsa megi gjörvallri umræðunni um þriðja orkupakkann með einu orði, „misskilningur“, þá er því miður ákveðinn málefnalegur fótur fyrir þeim misskilningi, sem er sú staðreynd að við höfum trassað að koma á nýrri stjórnarskrá frá upphafi lýðveldisins.