Ég veit ekki hvað mér þykir verst í þessu. Er það sjálf salan á Íslandsbanka, þar sem hópur vel tengdra fær að kaupa á tilboðsverði og selja áfram? Eða eru það fáránlegar tilraunir til að reyna að skella allri skuldinni á Bankasýsluna, sem vissulega ber hluta ábyrgðar, til þess að fría ráðherra? Eða er það kannski algjör afneitun á reiði þjóðarinnar og andstaða við heildstæða úttekt þingnefndar?
Nei, sennilega er það bara hversu ótrúlega fyrirsjáanlegt þetta var allt saman.
Það getur ekki komið nokkrum sem fylgjast með íslenskri pólitík á óvart að sjá þessa atburðarás. Þetta er sama kjaftæðið og þegar kvótinn var gefinn útgerðunum og framsal leyft, sama spillingin og þegar bankarnir voru einkavæddir fyrir hrun, sama ósvífnin og þegar Borgun var seld. Svona starfar Sjálfstæðisflokkurinn, og það vitum við orðið mjög vel. Það eina sem hefur breyst er hvað þetta er orðið óforskammað.
Þau reyna varla að fela þetta lengur, fullviss um að við látum hvað sem er yfir okkur ganga. Ég hef aldrei séð augljósari pilsfaldakapítalisma á ævinni en þessa bankasölu. Þau vita að lífeyrissjóðirnir eru til í að kaupa, en setja hámark á þá. Svo er vildarvinum boðið að kaupa rest, selja lífeyrissjóðunum og hirða mismuninn. Engin skilyrði um lágmarksupphæð, engin skilyrði um lágmarkstíma áður en er selt. Sömu aðilum er boðið að vera með og keyptu í fyrra útboðinu og seldu strax, sömu aðilum boðið að vera með og arðræna Namibíu … sömu aðilum boðið að vera með og áttu bankana fyrir hrun.
Þetta er fáránlegt, og það er komið nóg.
Píratar standa fyrir upphitun fyrir mótmælin á laugardaginn á Skúla Craft bar klukkan 12, og þaðan verður gengið fylktu liði á Austurvöll til að mótmæla þegar þau hefjast klukkan 14. Mótmælin eru ekki flokkspólitísk og ég hvet öll til að mæta sem eru búin að fá nóg af spillingunni.