
Friðsamleg og lýðræðisleg skipti valdhafa er grundvöllur okkar samfélags og í raun allra vestrænna og margra annarra samfélaga. Þetta framsal fer fram í kjölfar kosninga þar sem öllum með kosningarétt býðst að greiða atkvæði um niðurstöðuna.
Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að rétt hafi verið að málum staðið. Það er alveg ljóst að svo var ekki haustið 2021 í Norðvesturkjördæmi. Nokkrir aðilar hafa kært ólöglega framkvæmd þingkosninganna til kjörbréfanefndar Alþingis og auk þess kærði Karl Gauti Hjaltason framkvæmdina til lögreglu.
Fjöldi illa, eða ólöglega, framkvæmdra þátta var hins vegar ekki kærður til lögreglu. Í ljósi þess að lögregla tók þá ekki til rannsóknar að eigin frumkvæði tók ég þá ákvörðun að kæra. Kæran var lögð fram hjá Lögreglustjóranum á Vesturlandi sem vísaði henni áfram til Héraðssaksóknara. Þann 20. júní barst mér svo tilkynning um að Héraðssaksóknari teldi ekki grundvöll til að hefja rannsókn.
Hvað skal bóka í gerðabók?
Héraðssaksóknari taldi ekki skýrt í lögunum hvað skyldi bóka í gerðabók fyrir utan að bóka skuli:
- Viðtöku framboða, afgreiðslu þeirra til landskjörstjórnar og viðtöku á ný.
- Útsendingu og viðtöku kjörseðla og bréfa.
- Hvers konar úrskurði, talningu atkvæða, úrslit kosninga og annað þess háttar.
- Hversu margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess.
Á þessu grundvallast sú ákvörðun að rannsaka ekki mögulegar rangfærslur.
Þó segir í lögunum að allar kjörstjórnir skuli halda gerðabækur og bóka gerðir sínar. Það þykir mér nokkuð skýrt þýða að listinn sem talinn er upp í kosningalögum sé ekki tæmandi og því skuli bóka um framkvæmd kosninganna svo hægt sé, út frá gerðabókinni, að rekja hvernig staðið var að kosningunum, sem getur verið mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni og á hverjum stað.
Mögulegar breytingar atkvæðaseðla ekki rannsakaðar
Ljóst er af gögnum málsins og myndbandsupptökum að oddviti og fleiri meðlimir yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis voru einir í rýminu þar sem atkvæðin voru geymd óinnsigluð.
Það hvort átt hafi verið við atkvæðin er eitthvað sem hefði átt að rannsaka. Þá rannsókn verður stjórnvald með rannsóknarheimildir að framkvæma. Sú staðreynd að atkvæðatölur allra framboða, fjöldi ógildra atkvæða, auðra atkvæða og jafnvel fjöldi greiddra atkvæða breyttist, hefði átt að kalla á rannsókn.
Endurtalning án heimildar eða óskar
Einnig er þekkt að 26. september 2021 hóf yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis endurtalningu án þess að nokkur hefði óskað eftir því, án nokkurrar heimildar í lögum, án þess að hún hefði verið auglýst, án þess að gefa kjósendum tækifæri til að vera viðstaddir talninguna, án þess að umboðsmönnum framboðslista hefði verið gefinn kostur á að vera viðstaddir talninguna, án þess að reynt hefði verið að kalla til staðgengla umboðsmanna og þrátt fyrir mótmæli umboðsmanna Pírata.
Hvert og eitt þessara atriða gengur gegn þágildandi kosningalögum og því er erfitt að átta sig á því hvernig hefði mátt ráðast í endurtalninguna.
Ekki grundvöllur fyrir rannsókn á endurtalningunni
Til að hafna því að hefja rannsókn vísar Héraðssaksóknari til þess að þetta falli ekki undir sértæk refsiákvæði laganna en horfir algjörlega fram hjá því að í lögunum eru jafnframt almenn refsiákvæði um að það varði sektum ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður hagar fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara, vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækir hana.
Ákvörðun Héraðssaksóknara um að hafna því að hefja rannsókn á þessum hluta framkvæmdarinnar er því óskiljanleg.
Framkvæmd alþingiskosninga 2021 ekki einsdæmi
Það kom fram í máli oddvita Yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis að svona hefði framkvæmdin verið í síðustu skipti, væntanlega að ólöglegu endurtalningunni undanskilinni. Í því ljósi blasir við að innra gæðaeftirlit kosningaframkvæmdarinnar var lítið sem ekkert.
Þegar koma fram brot á lögum við framkvæmd kosninga hefði maður búist við að lögregla, að eigin frumkvæði, myndi hefja rannsókn og taka alvarlega kærur sem henni bárust. Af þessu má ráða að hlutverk umboðsmanna framboðslista og almennings er mikið og nauðsynlegt til að tryggja heilindi kosninga.
Enginn skortur á mistökum í sveitarstjórnarkosningum 2021
Við framkvæmd síðustu sveitarstjórnarkosninga þurfti ég sem umboðsmaður lista að gera ítrekaðar athugasemdir við framkvæmd utankjörfundar vegna áróðurs á kjörstað, skorts á nauðsynlegum upplýsingum fyrir kjósendur um frambjóðendur og lista, laga sem var skyndilega breytt þannig að möguleikar námsmanna erlendis til að kjósa voru skertir, og vegna brota á persónuverndarlögum og lögum um áróður á kjörstað vegna skilríkja umboðsmanna.
Þessi listi er langt í frá tæmandi og því virðast mistökin í Norðvesturkjördæmi ekki hafa haft tilfinnanleg áhrif á metnað við framkvæmd kosninga hér á landi. Það gekk afar illa að fá lögreglu, landskjörstjórn og aðra til að bregðast við athugasemdum umboðsmanna. Ég sendi þó jafnframt kærur til lögreglu og Persónuverndar sem bíða afgreiðslu.
Hlutverk fjölmiðla
Ef frá eru talin Vísir og Fréttablaðið sýndu fjölmiðlar ítrekuðum ábendingum um brot á lögum og reglugerðum við framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna engan áhuga. Afar fáir fjölmiðlar virtust sjá nokkra ástæðu til að fjalla um vandkvæði við framkvæmd kosninga. Slíkt vekur óneitanlega vonbrigði.
Kært til Ríkissaksóknara
Í ljósi allra ofangreindra hluta tók ég þá ákvörðun að vísa ákvörðun Héraðssaksóknara til Ríkissaksóknara. En vitanlega ætti það ekki að þurfa, lögreglan gæti vel tekið málin upp og Héraðssaksóknari hefði átt að horfa til almennra refsiákvæða en ekki sértækra. Spurningunni hvort brjóta megi kosningalög er ósvarað en miðað við fyrstu viðbrögð er svarið já.
Þangað til stjórnvöld taka brot á kosningalögum alvarlega verða aðrir að gera sitt til að tryggja framkvæmdina og þangað til munum við Píratar standa vaktina.