Píratar XP

Lýðræði er miklu meira en bara kosningar

Halldóra og Þórhildur Sunna útskýra hvað raunverulegt lýðræði þýðir.

Slagorð Pírata fyrir alþingiskosningarnar er „Lýðræði – ekkert kjaftæði“ og ekki að ástæðulausu. 

Píratar voru stofnaðir til þess að innleiða virkt lýðræði á Íslandi. Grunnstefna flokksins hvílir á lýðræði og það hefur haft áhrif á öll vinnubrögð Pírata frá upphafi. Við segjumst ekki vera lýðræðissinnar en greiðum síðan atkvæði gegn jöfnu atkvæðavægi landsmanna í þingsal. Við stærum okkur ekki af lýðræðisveislum einn daginn en rífum í okkur niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu hinn daginn. Píratar eru eini flokkurinn á Íslandi sem markvisst vinnur í því að takmarka eigin völd – í þágu lýðræðis.

Hvers vegna hafa ekki orðið neinar alvöru breytingar á kvótakerfinu – þrátt fyrir skýran vilja þjóðarinnar? Hvers vegna horfum við upp á vanfjármagnað heilbrigðiskerfi árum saman – þrátt fyrir að þjóðin krefjist fjármagns til spítalanna ár eftir ár? Hvers vegna erum við ekki komin með nýja stjórnarskrá? Jú, af því að lýðræðið líður fyrir kjaftæðið.

Lýðræði er lykillinn

En lýðræði er ekki bara kosningar, prófkjör og þjóðaratkvæðagreiðslur. Lýðræði er líka nálgun á stjórnmál. Áhersla á fólk – hugmyndir þess, velferð og valdeflingu – og það er algjört grundvallaratriði ef við ætlum að takast á við margar af stærstu áskorunum samtímans.

Lýðræðið og valdefling fólks þarf þannig að vera leiðarstef í viðbrögðum okkar við loftslagsbreytingum ef vel á að takast. Við þurfum að færa ábyrgðina á samdrætti í losun yfir á þá sem bera langmesta ábyrgð á henni sem eru stjórnvöld og stóriðja og taka hana af herðum almennings. Samtímis verðum við að gera almenningi kleift að taka virkan þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með því að auðvelda fólki að vera ábyrgir neytendur og veita því virk aðhaldstæki gagnvart stjórnvöldum og fyrirtækjum. 

Fjórða iðnbyltingin er hafin og sjálfvirknivæðingin er komin á flug en þessar breytingar verða að eiga sér stað á forsendum fólks – ekki fjármagns. Áherslan á lýðræðið og valdeflingu almennings leiðir okkur í réttlát umskipti þar sem allir njóta góðs af sjálfvirknivæðingunni því við megum ekki leyfa því að gerast að afmarkaður hópur njóti allra ávaxtanna af tækninni. Það yrði katastrófa sem myndi leiða til gríðarlegs valdaójafnvægis, misskiptingar og um leið grafa undan lýðræðinu.

Við áréttum, þetta eru áskoranir samtímans – ekki framtíðar. Við erum komin á þann tímapunkt í sögunni að það þýðir ekki fyrir stjórnmálamenn að tala um framtíðin hitt, framtíðin þetta eða að hún ráðist á miðjunni. Loftslagsbreytingar eru farnar að hafa mikil áhrif. Sjálfvirknivæðingin er hafin. Ef ekki á illa fara þá þurfum við aðgerðir, núna. 

Lýðræði þrífst ekki í myrkrinu

Fyrir þessar kosningar settum við Píratar okkur markmið. Við ætluðum að teikna upp sýn Pírata á það hvernig Ísland getur tekist á við þessar áskoranir.

Niðurstaðan var kosningastefna í 25 köflum þar sem lýðræðið og valdefling fólks er sem rauður þráður í gegnum alla stefnuna. Stefnan miðar að því að skapa á Íslandi sjálfbært velsældarsamfélag sem hvílir á nýrri stjórnarskrá, hagkerfi framtíðarinnar, sanngjörnum leikreglum og virðingu við náttúru og fólk. Samfélag þar sem fólk hefur raunverulega getu til að taka þátt í lýðræðinu og rödd þess skiptir einhverju máli.

Píratar hafa frá upphafi verið öðruvísi stjórnmálaflokkur. Öll okkar sýn snýst um lýðræði í víðum skilningi, að valdefla venjulegt fólk til að taka þátt í samfélaginu. Við leggjum mikla áherslu á gagnsæi og baráttuna gegn spillingu því að án upplýsinga og tryggingar fyrir því að við séum öll að leika eftir sömu leikreglum getum við ekki talað um heilbrigt lýðræði. Við spyrjum spurninga, köllum eftir svörum og bendum á að keisarinn sé nakinn því að lýðræðið getur ekki þrifist í þögninni, myrkrinu og meðvirkninni.

Lýðræði er meira en samtal

Stjórnmálamenn segjast vilja tala við fólk sem er ósammála sér. Hlusta á bergmálshellinn til að draga úr reiðinni í samfélaginu. Píratar eru með miklu betri lausn. Hleypum fólki að borðinu. Gefum fólki svigrúm til taka þátt í lýðræðinu. Þetta er ekki bara spurning um að hlusta, þetta er líka spurning um að gefa rödd fólks eitthvert vægi. 

Því ef að stjórnmálin bera ekki virðingu fyrir þjóðinni – hvernig á þjóðin þá að bera virðingu fyrir stjórnmálunum?

Þess vegna leggjum við Píratar svona mikla áherslu á lýðræðið. 

Þannig eflum við traust til Alþingis. Þannig drögum við úr reiðinni í samfélaginu. Ekki bara með því að hlusta – heldur með því að hafa lýðræði að leiðarljósi í öllum okkar störfum.                        

Grundvöllurinn að lýðræðislegu samfélagi er að almenningur geti tekið þátt í samfélaginu. Þangað stefna Píratar. Það er líka ástæðan fyrir því að við berjumst fyrir styttingu vinnuvikunnar, afnámi ósanngjarnra skerðinga og félagslegu réttlæti, því til að vera þátttakendur þarf fólk að hafa tækifæri og tíma.Tækifæri til þátttöku verða ekki raunveruleg fyrr en grunnþörfum fólks er mætt og þau tryggð. Á meðan fjöldi fólks þarf daglega að hafa áhyggjur af því að fæða, klæða og hýsa sig og sína nánustu þá hefur fólk mjög takmarkaða getu til að taka þátt í lýðræðinu.

Lýðræði er trúin á fólk

Lýðræði er nefnilega ekkert kjaftæði. Lýðræði er ekki bara kosningar á fjögurra ára fresti og stinga hausnum í sandinn þess á milli. Lýðræði er trúin á fólk. Sannfæringin um það að samfélaginu farnist betur ef við styðjum við fólk, hugmyndir þess og ástríðu – í stað þess að hunsa það. Þannig fyrst sköpum við verðmæti.

Nú gefst okkur tækifæri til að setja lýðræðið í fyrsta sætið. Tækifæri til að láta valdeflingu fólks og möguleika þess á virkri þátttöku í samfélaginu í forgrunn. Við höfum möguleika á að láta þessa sýn móta viðbrögð okkar við stærstu áskorunum samtímans og möguleikann á að hafa lýðræðið að leiðarljósi. Lýðræði – ekkert kjaftæði, þann 25. september.

Skrifa ummæli við þessa grein

Skrifaðu athugasemdina þína
Vinsamlegast sláðu inn nafnið þitt hér

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þetta vilja Píratar gera fyrir yngstu íbúa Kópavogs

Barn sem fæðist í dag á rétt á 12 mánaða fæðingarorlofi með forsjáraðilum sínum (gefum okkur að...

Kosningaframkvæmd 2022

Á laugardaginn er kjördagur og því utankjörfundi að ljúka. Því er ekki úr vegi að líta til...

Nóg komið

Ég veit ekki hvað mér þykir verst í þessu. Er það sjálf salan á Íslandsbanka, þar sem...

Hús­næðiskrísa!

Það er mikill skortur á húsnæði, það dylst engum. Það er ólíðandi ástand, ekki síst vegna þess...

Óheiðarleg stjórnmál

Oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, Kolbrún Baldursdóttir, sat nýverið í oddvitaspjalli á Bylgjunni þar sem hlustendur gátu...

Þess vegna bjóðum við okkur fram

Við Píratar erum stundum sögð vera óvenjulegur stjórnmálaflokkur. Við stundum öðruvísi stjórnmál, til dæmis tökum við ekki...

Rasismi á Íslandi

Rasismi er vandamál á Íslandi eins og annars staðar í veröldinni. Íslenska lögreglan er þar ekki undanskilin....

Hversu löng eru fjögur ár?

Mig langar að stunda stjórnmál þar sem íbúar bæjarins fá að segja skoðun sína oftar en á...

Eru 4.300 í­búar Kópa­vogs hunsaðir?

Fjölmenningarráð hafa verið sett á fót í mörgum stórum og smáum bæjarfélögum. Þar má nefna Reykjavík, Hafnarfjörð,...
X
X
X