Með tilkomu mikilla tækniframfara og samfélagsmiðla þar sem samskiptin hafa færst frá augliti til auglits bak við tölvuskjá hefur svo margt breyst. Nágrannar hafa mikið til umbreyst í ókunnugt fólk, áhrifin erlendis frá eru meiri en nokkru sinni fyrr í síminnkandi heimi – og það er ekkert óeðlilegt að finna fyrir óöryggi.
Þetta hefur raðað fólki í fylkingar. Jafnvel óháð staðreyndunum og rökum með og á móti. Stundum er þörfin til að tilheyra einfaldlega yfirsterkari staðreyndum.
Þetta eru eðlilegar tilfinningar og þörfin er raunveruleg. En þetta getur reynst lýðræðinu hættulegt. Aukin pólarisering er ekki til þess fallin að ýta undir efnislega og málefnalega umræðu sem grundvöll ákvarðanatöku.
Mér finnst brýn ástæða til að reyna að bjóða annan valkost sem grefur ekki undan málefnalegri umræðu. Við þurfum að brúa gjánna. Hér er samtalið lykilatriði. Styrking lýðræðis skiptir öllu máli, að styðja við að stjórnmálafólk leggi við hlustir, að öll hafi tækifæri til að hafa áhrif. Við kjörnir fulltrúar vitum ekki allt best og þurfum á þér að halda til að vita hvernig okkar ákvarðanir móta þitt líf.
Þess vegna erum við í Reykjavíkurborg að vinna að okkar fyrstu lýðræðisstefnu til að efla samtalið milli fulltrúa borgarinnar og íbúa. Þess vegna höfum við verið að þróa áfram íbúaráðin í hverfum borgarinnar, til að styrkja þann vettvang fyrir raddir íbúa. Við viljum heyra frá þér. Í dag 1. september er frestur til að skila umsögnum um bæði mál inni á Betri Reykjavík!
Við þurfum að standa upp frá tölvuskjánum og horfast í augu við hvort annað. Taka samtalið. Muna að við erum bara fólk að gera okkar besta. Sýnum hvort öðru skilning, samkennd. Hlustum. Þannig getum við fetað veginn saman – sem skartar öllu litrófinu í stað störukeppni hins svarta og hvíta.
Höfundur er formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur.