Home Greinar Kæran á kjararáð er tilbúin

Kæran á kjararáð er tilbúin

Kæran á kjararáð er tilbúin

Það er góð regla að ráðamenn fái aðeins kjarabætur ef landsmenn hafa fengið þær fyrst. Sú regla er bundin í lögin um kjararáð. Samt hækkaði kjararáð laun ráðamanna tvöfalt meira en þær hóflegu hækkanir sem 70% launafólks í yfir 100 kjarasamningum hefur sætt sig við síðustu ár. Þetta lögbrot kjararáðs á kjördag í fyrra hefur síðan þá ógnað stöðuleika á vinnumarkaði og hagkerfisins í heild.

Óstöðuleiki þar til lögbrotið er leiðrétt

Stærstu heildarsamtök bæði verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, ASÍ og SA, lýstu því strax yfir að með ákvörðun sinni hafi kjararáð stuðlað að upplausn á vinnumarkaði. Stærsta verkalýðsfélag landsins VR ályktaði jafnframt að „Ef þessi hækkun á að standa óbreytt er hið opinbera að [bjóða] upp í dans endalauss höfrungahlaups launahækkana og óðaverðbólgu.“ Í sumar staðfesti svo OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, í skýrslu um efnahagshorfur á Íslandi 2017 að ósætti á vinnumarkaði sé það sem einna helst ógnar efnahagsstöðuleika á Íslandi, með ábendingu um að: „fóstra traust [og að] aukin samræming launa myndi gera samningaviðræður árangursríkari.“

Öll úrræði fullreynd nema kæran

Fyrir ári skrifaði ég grein í Fréttablaðið um hverjir gætu snúið við ákvörðun kjararáðs og ef þeir bregðast allir þá myndi ég kæra kjararáð. kjararáð hefur neitað að svara. Forsætisráðherra sagði: „Alveg gjörsamlega óþolandi“ að þurfa að taka umræðu um launahækkanir þingmanna. Forsætisnefnd lækkað lítillega kjör þingmanna en frumvarp Pírata um að kjararáð leiðrétti launahækkunina í samræmi við lög var svæft í þingnefnd í vor. Öll úrræði á Alþingi eru því fullreynd.

Allt er tilbúið til að kæra Kjararáð

Sumarið fór því í að vinna kæruna og haustið í að leita að verkalýðsfélagi því lögfræðingur minn segir mestar líkur á að dómsstólar verði að taka við kærunni (stefnunni) ef verkalýðsfélag kæri með mér. Ef verkalýðsfélag er ekki aðili málsins til að sinna hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn svo vinnumarkaðurinn fari ekki út í höfrungahlaup og hagkerfið í óðaverðbólgu; þá er það engin. Það verkalýðsfélag sem sér hættuna sem það veldur hagsmunum félagsmanna sinna að láta hækkun kjararáðs standa óbreytta, það þarf aðeins að segja já og við kærum. Allt er tilbúið.

Höfundur þingmaður Pírata og í 1. sæti í Suðvesturkjördæmi.