Íslenskt tjáningarfrelsi, enn og aftur

Þann 14. desember 2017 felldi hæstiréttur þrjá dóma í sambandi við hatursorðræðu og tjáningarfrelsi. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað hina ákærðu í öllum þremur dómunum. Hæstiréttur staðfesti einn dóminn (sýknu) en sneri hinsvegar tveimur þannig að sakfellt var í þeim. Málið snerist um eftirfarandi ummæli í umræðu á fréttavefum, varðandi þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að innleiða hinseginfræðslu í skólum.

Ummæli 1: „Hlutlausa kynfræðslu á að veita í skólum en ALDREI réttlæta ónáttúrulega kynhegðan fyrir saklausum börnum og kalla það sem er óeðlilegt eðlilegt!!!“

Ummæli 2: „Við hlustendur útvarps Sögu kærum okkur ekki um neinar fjandans útskýringar A á þessari kynvillu. Þetta er ógeðslegt. Að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu. A getur þess vegna setið heima hjá sér heldur en að troða sér inn á útvarp Sögu. Þvílíkt ógeð.“

Ummæli 3: „Á nú að fara eyðileggja sakleysi barnanna að foreldrum forspurðum? Ég myndi flokka þetta undir barnanýð vera troða kynvillu í saklaus börn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vinsamlegast haldið saurugu hugsunum og löngunum ykkar frá börnunum mínum.“

Frétt og tengil um dómana má finna hér: https://www.haestirettur.is/frettir/frett/2017/12/14/Domar-um-hatursordraedu/

Getur einhver giskað á hvert þessara ummæla fékk sýknudóm? Ég gæti ekki giskað fyrirfram, en það voru ummæli 1. Sakfellt var fyrir ummæli 2 og 3.

Dæmt er samkvæmt hinni stórhættulegu grein almennra hegningarlaga, 233. gr. a – sem er svohljóðandi: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Það er ýmislegt sem þarf að segja um þessa dóma og lögin sem þeir byggja á.

Í fyrsta lagi virðist munurinn á sýknudómunum og sektardómunum í meginatriðum vera hversu móðgaðir dómararnir voru yfir ummælunum. Út frá lagaprinsippum sé ég lítinn sem engan eðlismun á þessum annars ógeðfelldu ummælum, sem ákært var fyrir, og sá litli munur er einungis til staðar út frá einhverjum máltæknilegum sjónarmiðum, og þá varla.

Í öðru lagi má minnast á að Ólafur Börkur Þorvaldsson skilaði séráliti í öllum dómunum og tek ég heilshugar undir hans rökstuðning og niðurstöðu. Ég hvet fólk til að lesa rökstuðninga hans, því hann er gáfulegur og góður, enda er niðustaða hans sýkna í öllum tilfellum.

Í þriðja lagi þykir mér túlkunin á 71. gr. stjórnarskrárinnar stórfurðuleg í samhengi við þessa dóma. Ég skil reyndar ekkert í því hvers vegna dómararnir kjósa að draga hana inn í málið, því hún varðar friðhelgi einkalífs. Ég sé engum persónugögnum lekið eða á nokkurn hátt friðhelgi einkalífs raskað. Þetta voru bara ógeðsleg og heimskuleg ummæli, en í þeim kemur ekkert efnislegt fram annað en heimska, andstyggð og stórbrotin fáfræði þeirra sem létu þau falla, og að þessir einstaklingar voru vissulega á móti ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um hvað væri hæfilegt efni í kynfræðslu.

Í fjórða lagi þykja mér sektardómarnir einkennast af gildismati dómaranna og þetta veldur mér í sjálfu sér mestum áhyggjum. Til dæmis þetta: „…umræðu, sem stóð yfir á þeim tíma um það mikilvæga og um leið umdeilda málefni…“ – Ég er persónulega alveg sammála því að málefnið hafi verið mikilvægt, og hef greinilega sama persónulega gildismat og þessir dómarar gagnvart kynfræðslu, en hvernig ratar það annars ágæta persónulega gildismat inn í lagatúlkun þegar málið varðar skoðana- og tjáningarfrelsið sjálft? Hvað kemur það málinu við hvort ummælin falli í umræðu um mikilvægt málefni eða ekki? Það skiptir auðvitað máli pólitískt, en þetta á að vera lagatúlkun óháð pólitískum skoðunum dómaranna sjálfra, sér í lagi þegar dómararnir eru greinilega efnislega ósammála þeim sem dæmdir eru. Tjáningarfrelsið snýst ekki um hvort maður sé sammála því sem er sagt, né hvort manni finnist það boðlegt og geðslegt eða ekki.

Í fimmta lagi er þessi stórkostlega og fráleita lína í álitum meirihlutans: „Lýsingin í 233. gr. a. almennra hegningarlaga á háttseminni, sem refsing er þar lögð við, er orðuð á auðskiljanlegan hátt.“ – Þetta er sennilega það rangasta sem hæstiréttur hefur nokkurn tíma látið frá sér. 233. gr. a er með óskiljanlegri lagabókstöfum og er algjörlega háð gildismati lesandans. Það er fullkomlega ómögulegt fyrir hinn almenna borgara að lesa hana og átta sig á því til hvers sé ætlast af honum. Eins og Ólafur Börkur Þorvaldsson segir réttilega í séráliti sínu: „Til þess er að líta að orðalag framangreinds hegningarlagaákvæðis er einkar opið og veitir litla leiðbeiningu um það hvað löggjafinn telur flokkast undir slíka háttsemi, sem í ákæru er nefnd hatursorðræða, eða hversu langt borgararnir megi ganga í umræðu áður en til greina kemur að ríkisvaldið refsi fyrir hana sem afbrot með þeim áhrifum sem það hefur í för með sér í lýðræðislegu samfélagi.“ <- Hann hittir naglann á höfuðið, enda í algjörri mótsögn við þessa fáránlegu fullyrðingu meirihlutans.

Í sjötta lagi verður að nefna, að þótt lagarökin hans Ólafs Barkar Þorvaldssonar séu að mínu mati mun sterkari en meirihlutans, þá undirstrikar sú staðreynd, að hæstiréttur kemst ekki að sameiginlegri niðurstöðu og er í þokkabót ósammála héraðsdómi Reykjavíkur í 2/3 mála, að hér er raunverulegur vafi á túlkun ákvæðisins á ferð, sem borgarinn hefur enga kosti til að átta sig á fyrirfram. Það er ótækt þegar kemur að jafn alvarlegum hlut og skerðingum á tjáningarfrelsi, eins og Ólafur Börkur Þorvaldsson bendir á. Það eitt, hversu óskýrt ákvæðið er og hversu mikið persónulegt gildismat virðist hafa að segja um hvort menn séu sýknaðir eða sakfelldir, segir okkur að ákvæðið þarfnast gagngerrar endurskoðunar. Jafnvel þótt að nú liggi fyrir þessir hæstaréttardómar er hinn almenni borgari algjörlega ómegnugur um að átta sig á því hvar í ósköpunum þessi margumtalað „lína“ sé, sem er alltaf talað um þegar kemur að tjáningarfrelsi.

Í sjöunda lagi sýnir þetta fram á hversu hörmulega lélega vernd tjáningarfrelsið nýtur í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, og reyndar, aldrei þessu vant, er það engu skárra í tillögum stjórnlagaráðs. Íslendingar eru með kolgeggjaða hugmynd um tjáningarfrelsi og virðast upp til hópa líta á það sem eitthvað góðfúslegt leyfi frekar en grundvallarrétt sem þarf að fylgja lýðræðinu, og ekki bara þegar hlutir eru sagðir sem manni finnst geðslegir eða gáfulegir.

Í áttunda lagi eru öll þessi ummæli þannig gerð að þau kalla eftir meiri umræðu. Það er beinlínis skaðlegt að refsa fólki fyrir að segja svona hluti, vegna þess að það er mikil þörf á því að ræða þessi ógeðslegu viðhorf efnislega, við þessa einstaklinga sem hafa þau. Viðhorfin í hinum dæmdu ummælum eru vissulega ógeðsleg og nautheimskuleg, en það er akkúrat þá sem mikilvægast er að fólk njóti tjáningarfrelsis.

Síðast en ekki síst minni ég á að Píratar, einir flokka, vöruðu við þessu á þingi þegar orðalagi ákvæðisins var breytt síðast árið 2014. Þá sátum við hjá við setningu frumvarpsins vegna þess að við vorum hlynnt fyrri grein frumvarpsins sem bannaði mismunun í verslun (sem er hið besta mál), en vorum á móti seinna ákvæðinu sem gerði þetta bölvaða ákvæði enn óskýrara og verra en það þegar var, sem var í sjálfu sér ákveðið afrek.

En hvernig ætti þetta þá að vera? Vissulega eru takmarkanir á tjáningarfrelsi lögmætar undir einhverjum kringumstæðum. En slíkar skerðingar verða að afmarkast við tiltekinn rétt annarra, til dæmis réttinn til öryggis. Þannig er algjörlega réttmætt að hótanir um ofbeldi eða skemmdarverk séu bannaðar (t.d. ákalli um að brenna kirkjur/moskur/musteri eða þess háttar). Sömuleiðis er réttmætt að það sé bannað að dreifa persónugögnum um aðra, vegna þess að aðrir hafa rétt til friðhelgi einkalífs. En fólk á ekki að hafa einhvern rétt til þess að þagga niður í öðrum með því einu að vera móðgað. Móðganir eru tilfinningaleg viðbrögð sem hver og einn hefur þó nokkuð mikla stjórn yfir og það er þess vegna sem þessi „lína“ tjáningarfrelsisins er svona óskýr. Það er engin lína og á ekki að vera nein lína. Spurningin er hvort að tjáningin brjóti beinlínis á réttindum annars fólks eða ekki. Það geta komið upp vafamál í flestri lagatúlkun, en hún er verst þegar það er miðað við einhverjar óskýrar línur sem fara í meginatriðum eftir tilfinningaástandi og skapgerð ótilgreindra einstaklinga hverju sinni.

Tjáningarfrelsið sjálft skiptir engu máli nema gagnvart því sem er óvinsælt og þykir heimskulegt og ógeðslegt. Það er akkúrat í þessum málum, sem við verðum að standa vörð um tjáningarfrelsið. Þessi lagagrein (233. gr. a) þarfnast verulega endurskoðunar, eins og reyndar fjölmargt annað í almennum hegningarlögum. Meira um það síðar.

Kommentakerfi Pírata

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

On­lyFans, klám og ó­skyn­sam­legar refsingar

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það eru margir vinklar á henni...

Píratar í 10 ár og meira

Píratahreyfingin er 16 ára gömul á heimsvísu en 10 ára gömul á Íslandi. Árið 2013 tóku Píratar...

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þegar kerfið segir nei

Þegar sambandsslit ganga vel eru þau samt erfið. Þegar þau ganga illa og annar aðilinn fæst jafnvel...

Áratugur í Íslenskum stjórnmálum

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík, svo það hlýtur að teljast ágætt að...

A Decade in Icelandic Politics

There is a saying that a week is a long time in politics, so the fact that...

Manneskjan í jakkafötunum

Áður en ég byrjaði í stjórnmálum sá ég þingmenn alltaf fyrir mér sem fólk í jakkafötum og...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety is threatened, but...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

Börn í kerfinu þola enga bið

Samfélagið hefur nú heyrt hræðilegar og átakanlegar sögur af reynslu kvenna sem hlutu úrræði á Laugalandi í...

Suðvesturkjördæmi tapar þingmanni

Okkur mun ekki skorta áskoranir á nýju ári. Farsóttir, náttúruhamfarir og sveitarstjórnarkosningar auk þess sem Alþingi hefur...

Meina þingmenn það sem þeir sögðu?

Ríki heims stefna á að vinna langtum meira jarðefnaeldsneyti en óhætt er, ætli þau að ná markmiðum...

Lýðræði er miklu meira en bara kosningar

Slagorð Pírata fyrir alþingiskosningarnar er „Lýðræði - ekkert kjaftæði“ og ekki að ástæðulausu.  Píratar voru stofnaðir til þess...

Skattarnir sem þú sérð ekki

Við Píratar erum stundum gagnrýnd fyrir það að tala mikið um aðgerðir gegn spillingu. Það sé óþarfi...

Ert þú með lægri laun en þing­maður?

Píratar telja að skattkerfið eigi að vera tvennt: Stigvaxandi (á ensku: progressive) og grænt. Það þýðir annars vegar að...