Ímyndum okkur sveitarfélag þar sem ákvarðanir eru byggðar á gögnum og þekkingu í stað pólitískra skoðana. Ímyndum okkur að þessar ákvarðanir séu teknar í samráði við bæjarbúa sem séu vel upplýstir á öllum stigum máls. Ímyndum okkur að ákvarðanir séu rökstuddar og að um þær ríki gegnsæi, þannig að bæjarbúar viti hvers vegna ákvarðanir eru teknar og hafi vettvang til að tjá skoðanir sínar á þeim. Ímyndum okkur jafnvel að sveitarfélagið hafi þá stefnu að taka ekki ákvarðanir nema að höfðu samráði við íbúana og að niðurstöðum samráðsins sé komið í framkvæmd. Ímyndum okkur að bæjaryfirvöld hlusti á raddir allra bæjarbúa.
Ímyndum okkur að í þessu sveitarfélagi sé bókhaldið opið svo skattgreiðendur sjái í hvað útsvarskrónunum er varið, við hverja sveitarfélagið semji og versli og hvað það greiði fyrir vörur og þjónustu. Ímyndum okkur líka að bæjarbúar geti komið athugasemdum á framfæri telji þeir að eitthvað megi betur fara og hlustað sé á þá, þeim svarað og málum komið í farveg. Ímyndum okkur að bæjaryfirvöld og bæjarbúar séu sammála um að rekstur sveitarfélagsins eigi að vera sjálfbær.
Ímyndum okkur að viðhorfin sem stjórnsýslan í sveitarfélaginu byggir á endurspeglist í skólakerfinu í bænum, að leik- og grunnskólar efli gagnrýna hugsun nemenda sem og læsi á breiðum grundvelli, þar með talið upplýsingalæsi, fjármálalæsi og fjölmiðlalæsi. Þar séu í boði fjölbreytt námstækifæri sem höfði til ólíkra áhugasviða nemenda, áhersla sé á samvinnu frekar en samkeppni í náminu og að velferð og öryggi nemenda sé grundvöllur alls skólastarfs. Komið sé til móts við ólíkar þarfir nemenda með sveigjanleikann að leiðarljósi, bæði hvað varðar skólatíma og skil skólastiga.
Ímyndum okkur að sveitarfélaginu sé stjórnað af fólki sem hefur sett sér skýrar siðareglur og tamið sér að forðast hvers konar hagsmunaárekstra. Ímyndum okkur að öll gögn sem ekki snerta persónugreinanlega hagsmuni einstaklinga séu opin, aðgengileg og ókeypis, svo bæjarbúar geti treyst því að stjórnsýslan taki ávallt mið af almannahagsmunum.
Væri ekki dálítið gott að búa í þannig sveitarfélagi?
Björn Gunnlaugsson
Aðstoðarskólastjóri, skólanefndarfulltrúi og frambjóðandi á A-lista
Framtíðarinnar