Home Greinar Góðverk Haraldar ætti að vera óþarft

Góðverk Haraldar ætti að vera óþarft

Góðverk Haraldar ætti að vera óþarft

Frumkvöðullinn Haraldur Þorleifsson hefur réttilega verið ausinn lofi fyrir yfirlýsingu sína á þriðjudagskvöld. Þar sagðist Haraldur ætla að greiða lögfræðikostnað allra þeirra sem kærð eru í margumræddu meiðyrðamáli Ingólfs Þórarinssonar, sem landsmenn hafa ekki farið varhluta af.

Góðverk Haraldar segir okkur margt um íslenskt samfélag. Að það teljist yfir höfuð forsíðufréttaefni á Íslandi að ríkur maður vilji styðja við bakið á fólki er þannig afhjúpandi í sjálfu sér. Að sama skapi er það óþolandi að konur þurfi að leita réttlætisins í kynferðisbrotamálum utan dómstólanna – en eru síðan dregnar fyrir þessa sömu dómstóla vegna ásakana um ærumeiðingar, með tilheyrandi kostnað og álagi.

Við ættum ekki að þurfa að fagna, en fögnum samt góðverki Haraldar. Góðverkið ætti einfaldlega að vera óþarft. Einstaklingur ættu að geta varið rétt sinn án þess að kostnaður eða flækjustig sé veruleg hindrun. Það ætti ekki aðeins að vera á færi hinna vel stæðu að fá réttlætinu fullnægt og það á ekki þurfa góðverk eða hópfjármögnun til að taka til varna.

Þess vegna hafa Píratar samþykkt stefnu sem einfaldlega ber heitið: „Stefna um aukna möguleika fólks til að leita réttar síns.“ Stefnan er í tíu liðum og miðar að því að auka aðgengi fólks að réttarkerfinu, óháð efnahag. Er þar meðal annars kveðið á um stofnun smákröfudómstóls, breytingar í forsjármálum, að auka möguleika fólks á geta staðið sameiginlega að málsókn og fá ráðgjöf um réttindi sín, stór sem smá.

Í stefnunni segir einnig að nauðsynlegt sé að auðvelda fólki að fá gjafsókn í meiðyrðamálum. Tjáningarfrelsi þess sem ekki getur varið sig í meiðyrðamáli vegna fjárskorts er verulega skert – og Píratar standa vörð um rétt fólks til að tjá sig. Þá þarf að stytta málsmeðferðartíma í meiðyrðamálum, enda eru þau í eðli sínu ekki flókin. Því er fullt tilefni til að kanna hvort meiðyrðamál eigi ekki fremur heima hjá kærunefnd en fyrir dómstólum. 

Í stefnunni er líka komið inn á nauðsyn þess að mál þolenda séu tekin fyrir. Oftar en ekki eru mál aldrei tekin til rannsóknar og því hafa þolendur ekki möguleika á að tala um sína upplifun eða lífsreynslu án þess að eiga á hættu ákæru fyrir meiðyrði. Meiðyrðaákærur eiga mun greiðari leið og þolendur oft í veikri stöðu til að verja sig. Fyrir vikið getur reynst erfitt að skila skömminni.  

Um leið og við hrósum Haraldi fyrir framtakið ættum við jafnframt að nýta tækifærið til að líta gagnrýnum augum á kerfin okkar. Getum við gert hlutina betur og auðveldað fólki að leita réttar síns, eða viljum við frekar bíða eftir næsta góðverki?

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here