Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum í lífi barna. Atvinnulífið, hagkerfið og tekjuþörfin toga foreldrana í eina átt á meðan börnin hafa aðrar og ólíkar þarfir sem toga í gagnstæða átt. Leikskólarnir eru undirmannaðir og húsnæðismálin eru víða í ólagi.
Rannsóknir sýna að tengslamyndun og atlæti fyrstu árin mynda taugabrautir í heila barna sem leggja grunn að tilfinningalífi og heilsu okkar það sem eftir lifir ævinnar. Því er mjög mikilvægt að samfélagið styðji sómasamlega við foreldra svo að þau geti hlúð vel að börnum sínum fyrstu árin, að börnin upplifi öryggi og þörfum þeirra sé mætt.
Til að fræðast og skyggnast betur inn í þennan mikilvæga málaflokk fengum við hjá Pírötum í Reykjavík til okkar félagið Fyrstu fimm, Lilju Sif sálfræðing hjá Heilshugar, og Rannveigu Ernudóttur, varaborgarfulltrúa Pírata, til að halda erindi þann 11. mars síðastliðinn. Að loknum erindum var tekið á móti spurningum og spjallað um málefnið.
Dagskráin var þessi:
Ákall um barn- og fjölskylduvænna samfélag
Fyrstu fimm er félag foreldra og fagaðila sem leggur áherslu á mikilvægi fyrstu fimm áranna í lífi barna. Stefna félagsins er að Ísland verði barn- og fjölskylduvænt til jafns við önnur Evrópulönd, að uppeldisskilyrði barna verði bætt og stuðla að því að íslensk börn eigi sömu möguleika á að hámarka eiginleika sína og börn í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Lengi býr að fyrstu gerð
Lilja Sif er sálfræðingur sem aðhyllist heildræna nálgun á manneskjuna. Hún sérhæfir sig í endurhæfingu eftir áföll, heilsubrest og fíknivanda. Fyrstu ár einstaklingsins eru lykilþáttur í því að byggja sterkan grunn að góðu lífi en að sama skapi getur ótraust byrjun lífs ýtt undir mörg vandamál síðar meir. Lilja fræðir okkur um mikilvægi fyrstu áranna þegar kemur að þróun fíknivanda með skaðaminnkunargleraugunum: ACE (adverse childhood experiences), þroska barnsheilans og tengingar þeirra við lífsgæði hjá fullorðnu fólki.
Borgarvinkillinn
Stefna Pírata í Reykjavík fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var sú að fjölbreyttar leiðir þurfi til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Píratar í Reykjavík vildu að áfram yrðu í boði ungbarnaleikskólar en einnig að svokallaðar tengslagreiðslur (heimgreiðslur) yrðu settar á fót. Skiptar skoðanir urðu í meirihlutaviðræðum um þessar greiðslur en að lokum endaði þessi setning í meirihlutasáttmálanum “Við ætlum að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum aðferðum. Við ætlum að innleiða systkinaforgang og stafræna innritun á leikskólum.” Borgarfulltrúi Pírata fer yfir hvað er verið að gera í borginni til að brúa bilið.
Glærur
Það var margt merkilegt sem koma fram á fundinum og þar sem erindin voru ekki tekin upp ætlum við að deila með ykkur efni frá þeim á samfélagsmiðlum næstu daga og vikur.