Friðhelgi hvað?

Hvenær má lögreglan banka upp á hjá þér og biðja um að fá að skoða sig um í húsinu þínu? Róta í gegnum allar eigur þínar? Hvað gerist ef þú neitar að verða við þeirri bón? Hvað ef lögreglan biður þig um að fá að leita á þér? Hvað gerist ef þú kærir þig ekki um það? Hvað þarf til að lögreglan geti neytt þig til að sæta líkamsleit eða húsleit? Máttu segja nei við lögregluna? Hvernig berðu þig að ef þú telur lögregluna hafa leitað á þér í heimildarleysi?

Þessar spurningar eru ekki meðal þeirra „algengu spurninga“ sem lögreglan svarar á vef sínum:

Algengar spurningar lögreglu

Þó svo að mér þyki afskaplega gott að vita að ég megi fara út í myrkri án endurskinsmerkja þá varð ég fyrir töluverðum vonbrigðum að finna engin svör við ofangreindum spurningum mínum á vef lögreglunnar. Hvergi. Þó er full ástæða fyrir almenning að vita rétt sinn gagnvart lögreglunni. Að vita til dæmis að lögreglan má ekki biðja þig um að fá að leita á þér – eða um að fá að leita í húsinu þínu – án þess að hún hafi fyrir því málefnalegar og efnislegar ástæður.

Ástæðan fyrir þessu skilyrði er meðal annars þau réttindi sem allir á Íslandi njóta, er kallast friðhelgi einkalífs og lögreglan má ekki þrengja að nema að vel athuguðu máli og með vísan í sönnunargögn. Það er því ekki nóg að lögreglunni finnist þú líta út eins og glæpamaður. Eða að Gróa á leiti hafi sagt þeim að þú værir það. Það er heldur ekki nóg að þú sért góðkunningi lögreglunnar til þess að lögreglan geti beðið um að fá að leita á þér eða í húsinu þínu þegar hún hittir þig á förnum vegi eða bankar upp á.

Hvað er nóg?

Þessari spurningu er erfitt að svara þar sem starfsreglur lögreglunnar eru leyndarmál og dómafordæmi óskýr. Þó er ljóst að ríkir hagsmunir þurfa að vera fyrir hendi til þess að lögreglan geti rofið friðhelgi einkalifs manneskju með þessum hætti.

Samkvæmt Mannréttindadómstól Evrópu verður heimild lögreglu til líkams- eða húsleita að vera skráð í lögum og hún verður að vera orðuð á skýran og afmarkaðan hátt til þess að forðast misbeitingu. Þá telur Mannréttindadómstóllinn það lykilatriði að virkt ytra eftirlit sé haft með slíkum aðgerðum. Þannig er málum því miður ekki háttað á Íslandi þar sem lögreglan virðist hafa nánast óskorað vald til líkams- og húsleita án minnsta aðhalds eða eftirlits af neinu viti.

Hvar er eftirlitið?

Ríkissaksóknari tekur við kærum og kvörtunum á hendur lögreglu og hefði maður því haldið að almenningur gæti snúið sér þangað í leit að upplýsingum um valdheimildir lögreglu. Þó er engar aðgengilegar leiðbeiningar að finna á vef Ríkissaksóknara um þessar spurningar mínar. Þessi litla málsgrein inniheldur einu upplýsingarnar sem Ríkissaksóknari veitir almenningi á heimasíðu sinni um kærur á hendur lögreglu.

Kæra á hendur lögreglu

Þá vitum við það. Viljirðu leggja fram kæru á hendur lögreglu ber þér að snúa þér til lögreglu. Ennfremur kemur fram í fyrirmælum Ríkissaksóknara til lögreglumanna sem taka á móti kvörtunum eða kærum borgara gegn lögreglumönnum að leitast skuli við að skýrslutaka fari fram í sama umdæmi og meint brot átti sér stað. Það leiðir af sér að alla jafna skuli starfsfélagi hins kærða lögreglumanns taka skýrslu af brotaþola.

Semsagt, almenningur veit ekki hverjar starfsreglur lögreglu eru í málum sem þessum. Engar upplýsingar eru veittar um rétt leitarþola á vef lögreglu né Ríkissaksóknara. Skyldi maður samt ákvæða að kæra lögreglu fyrir brot í starfi þá á að leggja kæruna fram hjá starfsfélögum hins kærða lögreglumanns. Síðan tekur við ferli sem hvergi er auglýst eða kynnt af yfirvöldum. Það er ekki að furða að margir hafi ekki hugmynd um hvernig skuli bera sig að í svona málum.

Hvað með fjölmiðla?

Aðhald fjölmiðla með lögreglu og störfum hennar virðist afar takmarkað, svo ekki sé meira sagt. Lítið er um að fjölmiðlar spyrji lögregluna gagnrýnna spurninga um störf hennar og hafa þeir reyndar löngum birt fréttatilkynningar lögreglunnar svo gott sem orðrétt. Má þar til að mynda nefna reglulegan dálk í Morgunblaðinu sem ber heitið „Úr dagbók lögreglu“ þar sem störf lögreglu eru tíunduð af lögreglunni sjálfri.

Nýverið virðist þó hafa orðið sú breyting að fréttatilkynningar lögreglunnar eru birtar sem fréttir án þess þó að þess sé sérstaklega getið að höfundur fréttanna sé úr röðum lögreglunnar fremur en fréttamaður. Þetta er slæm þróun, þar sem lögreglan getur vart talist hlutlaus aðili til þess fallinn að skrifa fréttir um sjálfa sig. Málið verður síðan flóknara þegar tillit er tekið til þess að óljóst er að lögreglan sé í raun höfundur umræddra frétta. Svona „fréttamennska“ er engum fjölmiðli til sóma og almenningi, sem þeir eiga að upplýsa og þjóna, ekki til gagns.

Kvennablaðið fékk ábendingu um nýlegt dæmi um slíkan fréttaflutning, þar sem tilkynning lögreglunnar var birt sem frétt á tveimur miðlum. Þrátt fyrir að innihald umræddrar tilkynningar hafi verið afskaplega rýrt og hafi vakið fleiri spurningar hjá greinarhöfundi en hún í raun svaraði þá er hún birt sem frétt að því er virðist án nokkurrar athugunar eða athugasemda frá miðlunum.

Fréttirnar sem um ræðir birtust með mínútu millibili á vef mbl.is og visir.is og báru báðar titilinn „Fíkniefni fundust í bílskúr.“  Á vef Vísis er fréttamaður Vísis skráður höfundur fréttarinnar. Í kjölfrar ábendingarinnar um umræddar tvíburafréttir hafði undirrituð upp á upprunalegu fréttatilkynningunni á vef lögreglu en hún hljóðar svona:

Fíkniefni fundust í bílskúr

Höfundi lék strax forvitni á því að vita hvers vegna lögreglan hafði umræddan mann grunaðan um refsivert athæfi og hvers vegna hún hafði ekki leitarheimild þegar hún bankaði uppá hjá honum. Ef rökstuddur grunur sem um ræðir dugar ekki fyrir húsleitarheimild ætti það ekki að þýða að lögreglan geti bara kíkt í heimsókn og beðið um að fá að leita hjá fólki, eða hvað? Hvernig stóð á því að lögreglan aflaði sér ekki leitarheimildar áður en hún heimsótti manninn?

Fátt um svör hjá Lögreglunni

Ég hafði samband við lögregluna á Suðurnesjum í leit að frekari upplýsingum um þetta mál en hún hefur ekki séð sér fært að veita þær hingað til. Reyndar vakti það furðu talsmanns lögreglunnar að ég hefði áhuga á að vita nokkuð um þetta mál og fannst ekkert sérstaklega fréttnæmt við fréttina sem umdæmið hans birti á vef lögreglunnar (og fékk endurbirta á Vísi og Mbl). Það er kannski ekkert skrýtið, þetta eru alvanalegar fréttir frá lögreglunni og eru oftast gleyptar hráar af fjölmiðlum. Ef marka má viðbrögð fyrrnefnds lögreglumanns virðist heldur enginn sérstakur vilji til þess að svara spurningum fjölmiðla um verkferla lögreglu í svona málum.

Að framansögðu má ráða að lögreglan telur sig mega leita á og heima hjá hverjum sem er svo framarlega sem hún telur sig hafa grun um að sá hinn sami hafi brotið eitthvað af sér. Óljóst er hvað þarf að liggja þeim grun til grundvallar eða hvaða val fólk hefur þegar lögreglan ákveður að það sé líklega glæpamaður og því leyfilegt að brjóta á friðhelgi einkalífs þess í þágu óljósra rannsóknarhagsmuna.

Starfsreglur lögreglu í þessum efnum eins og ýmsum öðrum eru af óútskýrðum ástæðum leyndarmál og því engar upplýsingar um það að fá hvenær lögreglan getur talist hafa rökstuddan grun í raun. Gruni þig að grunur hennar hafi hreint ekki verið rökstuddur þegar hún leitaði á þér þá er eina leiðin til að fá úr því skorið þar af leiðandi sú, að leita til lögreglunnar með þann grun þinn – þessi hundur bítur stöðugt í eigið skott og kallar gott.

Betri tímar framundan?
Í kjölfar Hraunbæjarmálsins svokallaða sendi Ríkissaksóknari bréf til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, þess efnis að rétt væri að skoða hvernig best mætti koma á ytra eftirliti með störfum lögreglu. Í bréfinu bendir Ríkissaksóknari réttilega á að alþjóðlegar stofnanir væru ósáttar við að hér fyrirfyndist ekkert slíkt sjálfstætt ytra eftirlit. Þá benti hún sérstaklega á hversu óaðgengilegt og óskýrt núverandi kerfi væri og að slíkt fyrirkomulag væri ósamrýnanlegt alþjóðalögum um gagnsæja stjórnsýslu og virkt eftirlit með lögreglu. Í umræðum um sama mál var einnig bent á að reglur um valdbeitingarheimildir lögreglu væru ríkisleyndarmál rétt eins og starfsreglur lögreglu almennt.

Innanríkisráðherra tók vel í tillögur ríkissaksóknara og setti á fót starfshóp sem skoða ætti mögleika til þess að koma á fót ytra eftirliti með störfum lögreglu. Nú berst frá Alþingi það fagnaðarefni að umræddur starfshópur eigi að ljúka störfum sínum um mitt árið og verður spennandi að sjá hvort vinna þeirra verði grunnur að raunverulegu ytra eftirliti með störfum lögreglu.

Þá virtist núverandi innanríkisráðherra, Ólöf Nordal vera að gefa því rækilega undir fótinn að birta opinberlega reglur um valdbeitingarheimildir lögreglu. Undirrituð vonar að það þýði að starfsreglur lögreglu varðandi líkams- og húsleitir verði einnig gerðar opinberar svo hægt verði að glöggva sig á hvenær það má og hvenær ekki, því eins og staðan er í dag, er ekki nokkur lifandi leið að komast að því. Og á meðan svo er, á meðan fólk þekkir ekki og getur ekki kynnt sér sinn rétt þegar laganna verðir krefjast þess óforvarendis að fá að leita á því og hjá því er hætt við því að það ákveði að láta slíkt brot gegn friðhelgi einkalfís síns yfir sig ganga frekar en „að vera með leiðindi“ – því ekki viljum við vera með leiðindi við lögguna, er það nokkuð?

Kommentakerfi Pírata

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

On­lyFans, klám og ó­skyn­sam­legar refsingar

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það eru margir vinklar á henni...

Píratar í 10 ár og meira

Píratahreyfingin er 16 ára gömul á heimsvísu en 10 ára gömul á Íslandi. Árið 2013 tóku Píratar...

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þegar kerfið segir nei

Þegar sambandsslit ganga vel eru þau samt erfið. Þegar þau ganga illa og annar aðilinn fæst jafnvel...

Áratugur í Íslenskum stjórnmálum

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík, svo það hlýtur að teljast ágætt að...

A Decade in Icelandic Politics

There is a saying that a week is a long time in politics, so the fact that...

Manneskjan í jakkafötunum

Áður en ég byrjaði í stjórnmálum sá ég þingmenn alltaf fyrir mér sem fólk í jakkafötum og...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety is threatened, but...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

Börn í kerfinu þola enga bið

Samfélagið hefur nú heyrt hræðilegar og átakanlegar sögur af reynslu kvenna sem hlutu úrræði á Laugalandi í...

Suðvesturkjördæmi tapar þingmanni

Okkur mun ekki skorta áskoranir á nýju ári. Farsóttir, náttúruhamfarir og sveitarstjórnarkosningar auk þess sem Alþingi hefur...

Meina þingmenn það sem þeir sögðu?

Ríki heims stefna á að vinna langtum meira jarðefnaeldsneyti en óhætt er, ætli þau að ná markmiðum...

Lýðræði er miklu meira en bara kosningar

Slagorð Pírata fyrir alþingiskosningarnar er „Lýðræði - ekkert kjaftæði“ og ekki að ástæðulausu.  Píratar voru stofnaðir til þess...

Skattarnir sem þú sérð ekki

Við Píratar erum stundum gagnrýnd fyrir það að tala mikið um aðgerðir gegn spillingu. Það sé óþarfi...

Ert þú með lægri laun en þing­maður?

Píratar telja að skattkerfið eigi að vera tvennt: Stigvaxandi (á ensku: progressive) og grænt. Það þýðir annars vegar að...