Píratar XP

Fátækt á Suðurnesjum

Enn og aftur kreppir að hjá Suðurnesjabúum og mörg heimili berjast við að halda sér á floti fjárhagslega sem endað gæti í fátækt eða fátæktargildru. Árið 2002 birtist spurning í Víkurfréttum um hvort fátækt væri að finna í Reykjanesbæ. Fátt var um svör en nokkrum mánuðum síðar birtist önnur grein í sama blaði um að fólk væri að leita til félagsþjónustunnar, Rauða krossins, Þjóðkirkjunnar og fleiri samtaka til að fá aðstoð.

Haustið 2020 sóttu yfir 200 fjölskyldur á Suðurnesjum mataraðstoð frá hjálparsamtökum þar sem félagslegar bætur og framfærsla sveitarfélags dugðu ekki til að framfleyta þeim út mánuðinn. Árið 2017 þáðu 73 fjölskyldur slíka aðstoð, þannig að aukningin er veruleg. Alls konar fólk sækir um þessa aðstoð; atvinnulausir, láglaunafólk, öryrkjar og þeir sem orðið hafa utanveltu í samfélaginu af ýmsum ástæðum.

Um helmingur atvinnulausra árið 2020 eru Íslendingar sem hafa misst vinnuna eða orðið undir í samfélaginu. Hinn helmingur atvinnulausra eru innflytjendur sem hafa m.a. komið til Íslands til að taka þátt í efnahagsbólunni sem ferðaþjónustan skapaði. Við tókum þeim fagnandi þá og erum skuldbundin til að taka opnum örmum við öllum Evrópubúum sem kjósa að flytja til Íslands rétt eins og hin Evrópuríkin verða að taka á móti okkur.

Síðustu áratugi hafa ríki og sveitarfélög leitað ýmissa leiða til að draga úr fátækt en leiðirnar henta einfaldlega ekki og sífellt er dregið úr frelsi fólks til að gera það besta úr sínum aðstæðum, miðað við getu, kunnáttu og þor. Atvinnuleysisbætur eru skertar, ellilífeyrir er skilyrtur og örorkubætur eru minnkaðar í hvert skipti sem fólk sýnir smá dugnað eða frumkvæði sem leiðir til fjárhagslegs ávinnings.

Í því ástandi sem ríkir í dag og stefnir í yfir 20% atvinnuleysi á Suðurnesjum koma fréttir í fjölmiðlum um að oft sé hagstæðara fyrir atvinnulausa að vera á bótum en að mæta aftur til vinnu. Það vantar sem sagt hvata fyrir atvinnulausa til að koma aftur til vinnu til að raðir í matargjafir haldi ekki áfram að lengjast. En útrýming fátæktar er fyrsta sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna sem Reykjanesbær hefur ákveðið að framfylgja.

Hvað er til ráða?

Það eru til leiðir til að draga úr fátækt fyrir þá sem minna mega sín og fjölskyldur þeirra. Þær felast í því að draga úr skerðingum bóta og afskiptum stofnana af því hvað fólk gerir við laun sín. Ef fólk á sem á rétt á bótum vill fara í nám sem gæti komið þeim aftur út á atvinnumarkað þá er slíkt hagur allra. Þannig verður fólk frjálst til að velja atvinnu við hæfi.

Einnig er mikilvægt að persónuafsláttur sé greiddur út til þeirra sem ekki eru að nýta hann sem frítekjumark, eins og  t.d. námsfólk. Síðan má skoða hækkun persónuafsláttar skref fyrir skref þar til framfærsluviðmiðum ríkisins er náð. Til þess að útrýma fátækt þarf því bæði að útrýma krónuskerðingum og að gera persónuafslátt útgreiðanlegan. Skerðing bóta og persónuafsláttar viðhalda því miður fátækgargildrum samfélagsins.

En bæjarfélögin á Suðurnesjum geta hækkað fjárhagsaðstoð þar sem árið 2019 fengu einstaklingar í Reykjanesbæ 25% lægra framlag til grunnframfærslu frá sveitarfélaginu en þeir sem búa í höfuðborginni. Í krónum talið er fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins tæplega 150 þúsund krónur á mánuði en 240 þúsund fyrir hjón eða sambúðarfólk.

Píratar í Reykjanesbæ halda opið vef-málþing um fátækt á Suðurnesjum laugardaginn 14. nóvember þar sem aðilar frá Fjölskylduhjálp, Rauða krossinum, Háskóla Íslands og samtökunum Grunninnkoma fyrir alla (GIFA) ræða málin.

Baráttukveðja,
stjórn Pírata í Reykjanesbæ.

Upprunaleg birtingVíkurfréttir

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þetta vilja Píratar gera fyrir yngstu íbúa Kópavogs

Barn sem fæðist í dag á rétt á 12 mánaða fæðingarorlofi með forsjáraðilum sínum (gefum okkur að...

Kosningaframkvæmd 2022

Á laugardaginn er kjördagur og því utankjörfundi að ljúka. Því er ekki úr vegi að líta til...

Nóg komið

Ég veit ekki hvað mér þykir verst í þessu. Er það sjálf salan á Íslandsbanka, þar sem...

Hús­næðiskrísa!

Það er mikill skortur á húsnæði, það dylst engum. Það er ólíðandi ástand, ekki síst vegna þess...

Óheiðarleg stjórnmál

Oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, Kolbrún Baldursdóttir, sat nýverið í oddvitaspjalli á Bylgjunni þar sem hlustendur gátu...

Þess vegna bjóðum við okkur fram

Við Píratar erum stundum sögð vera óvenjulegur stjórnmálaflokkur. Við stundum öðruvísi stjórnmál, til dæmis tökum við ekki...

Hversu löng eru fjögur ár?

Mig langar að stunda stjórnmál þar sem íbúar bæjarins fá að segja skoðun sína oftar en á...

Rasismi á Íslandi

Rasismi er vandamál á Íslandi eins og annars staðar í veröldinni. Íslenska lögreglan er þar ekki undanskilin....

Eru 4.300 í­búar Kópa­vogs hunsaðir?

Fjölmenningarráð hafa verið sett á fót í mörgum stórum og smáum bæjarfélögum. Þar má nefna Reykjavík, Hafnarfjörð,...
X
X
X