Einstakt mál eða einstök mál?

Dómsmálaráðherra hefur síðustu mánuði ítrekað að ráðuneyti hennar geti ekki hlutast til um einstaka mál. Bara alls ekki! Það er eins og hugmyndin um að hlutast um einstaka mál sé svo fjarri raunveruleika dómsmálaráðherra að það sé fullkomin fásinna að ýja að því.

Þetta á þó yfirleitt bara við um það þegar senda á einstaka fólk í hættulegar aðstæður; hvort sem það eru börn, þolendur mansals, fólk sem óttast um líf sitt vegna kynhneigðar sinnar eða bara fólk sem er almennt í viðkvæmri stöðu. Þá er sko alls ekki hægt að hlutast til um einstaka mál. Ekki hægt að eiga samtal við Útlendingastofnun. Ekki hægt að mynda mannúðlegri stefnu í málefnum hælisleitenda. Ekki hægt að halda utan um fólk og veita því aðstoð meðan það bíður í allt að 18 mánuði eftir því einu að vera hafnað um vernd hér á landi. Bless bless! Ekki pláss, ekki peningur, ekkert sem dómsmálaráðherra getur gert. Þetta eru einstaka mál og þá getur ráðherra ekkert gert.

En svo eru það hin einstöku málin, sem snúast oft um einstaka ráðherra. Merkilegt hvað ráðherrar á þessu landi geta verið einstakir. Þeir taka aldrei ábyrgð á sínum einstöku málum, það virðist alltaf vera hægt að hringja í vin. Stundum hringja ráðherrar í vini sína til þess að athuga hvort það sé ekki í lagi með þá og börnin þeirra. Stundum hringja ráðherrar í lögreglustjóra á aðfangadag til þess að athuga hvort að einstakt mál einstaks ráðherra verði nokkuð mál. Stundum hringja ráðherrar í lögreglustjóra þegar aðstoðarmenn þeirra eru komnir í klandur. Við megum ekki gleyma að þetta fólk á börn og fjölskyldur! Sýnum virðingu og verum ekki með þetta vesen. Mega einstakir ráðherrar ekki hlutast til um einstök mál án þess að almenningur krefjist þess að ráðherra hlutist ekki til um einstök mál einstakra ráðherra?

Sumir eru jafnari en aðrir og sum mál eru einstakari en önnur. Í einstaka einstökum málum taka ráðherrar upp tólið og beita áhrifum sínum. Þó aldrei þegar einstaka fólk á í hlut, bara einstakir ráðherrar.

Höfundur er þingmaður Pírata.

Upprunaleg birtingVísir

Greinar eftir sama Píratann

X
X