Þann 14. maí verður kosið í bæjarstjórnarkosningum um allt land. Frambjóðendur fara um í sínu bæjarfélagi, kynna sig og þau málefni sem þeirra framboð stendur fyrir. Reykjanesbær er okkur bæjarbúum kær og margir flutt í bæjarfélagið enda hefur okkur fjölgað hratt sem hefur haft sína kosti og galla.
Það hefur reynt á okkar innviði og oft höfum við staðið frammi fyrir atvinnuleysi þegar atvik eins og heimsfaraldur geisar eða flugið dregst saman. Við þurfum að efla atvinnulífið og draga að okkur þjónustufyrirtæki sem glæðir atvinnulífið á svæðinu.
En við megum ekki bara stökkva á vagninn án þess að vera búin að skoða hvað hentar okkar bæjarfélagi best, hverskonar atvinnustarfsemi það er, hverjir standa í forsvari fyrir því og svo framvegis áður en stokkið er til samninga. Því við höfum aldeilis þurft að súpa seiðið af stóriðustefnunni í Helguvík og ekki viljum við endurtaka þann leik aftur.
Í reglugerð 920/2016 stendur í 5.gr.: „Halda skal loftmengun í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti.“ og aðeins neðar stendur einnig: „Sveitarfélögum er heimilt að setja sér samþykktir þar sem gerðar eru ítarlegri kröfur en reglugerð þessi segir til um í því skyni að vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum og viðhalda góðum loftgæðum.“ Þannig geta bæjaryfirvöld í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja spornað gegn því að loftgæði bæjarins rýrni vegna mengunar eða mengunarefna.
Að setja skýr skilyrði í aðalskipulag Reykjanesbæjar sem takmarka mengandi iðnað, m.a. með tilvísun í fyrrnefndar samþykktir bæjarins og í heimsmarkmiðum Sameinu þjóðanna er góður kostur. Við Píratar höfum alltaf talað á móti mengandi stóriðju í Helguvík og hefur sú skoðun ekkert breyst. Því þeir sem stjórna í bæjarfélaginu hafa þær skuldbindingar á sínum herðum að skila ómengandi atvinnustefnu áfram til komandi kynslóða.