Píratar XP

Borgaralaun útskýrð

Árið 1928 spáði breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes því að tækniþróunin yrði slík að vélar ættu eftir að gera vinnuframlag mannfólks óþarft. Eftir hundrað ár þyrfti enginn að vinna fyrir afkomu sinni.

Keynes sá fyrir sér að maðurinn myndi losna undan þrúgandi efnahagslegum áhyggjum. Stóra viðfangsefni komandi kynslóða yrði að nýta frítímann sem tæknin og vísindin ættu eftir að færa þeim til að njóta lífsins skynsamlega og í sátt og samlyndi.

Spádómar Keynes hafa meira og minna gengið eftir. Vélmenni og tölvubúnaður hafa í stórum stíl útrýmt erfiðum og einhæfum verksmiðjustörfum. Þróunin mun halda áfram. Í skýrslu Oxfordháskóla frá 2013:„The Future of Employment: How Susceptible are Jobs to Computerisation?“ er því spáð að ný tækni muni leysa 47 prósent starfa í Bandaríkjunum af hólmi á næstu árum. Fyrirsjáanlegt sé að nýjungar í samgöngum og flutningum, stjórnsýslu- og skrifstofuvinnu og hvers kyns framleiðslu umbylta heilum starfsgreinum.

Það eru ekki bara iðnaðar- og verkamannastörf sem úreldast heldur mun gervigreind og nýr hugbúnaður ógna störfum sem áður voru talin ónæm fyrir sjálfvirknivæðingunni, t.d. störf á sviði lögfræði, blaðamennsku, fjármála og fl.

Ef við ímyndum okkur að meðalgreind manneskja gæti fundið út úr því hvernig hún ætti að sinna starfinu okkar eftir að hafa fylgst með okkur vinna í einhvern tíma, þá eru allar líkur á því að reiknirit (reiknigreind) geti það sömuleiðis. Með þessar upplýsingar að leiðarljósi getum við vel ályktað að atvinnuöryggi flestra stétta í framtíðinni standi höllum fæti gagnvart þessari þróun.

Áskorunin felst í því að snúa þessu okkur í hag. Það gæti orðið mörgum til blessunar og mögulega samfélaginu öllu – ef vélmennin tækju við störfum okkar. Vandamálið er að laun eru eingöngu tengd við vinnu. Launuð störf keyra áfram neyslu og neyslan keyrir áfram hagkerfið. Við erum í raun verslandi vinnuaflið sem drífur áfram hagkerfið. Án okkar þátttöku fellur þetta allt um sjálft sig.

Með sjálfvirkni starfa dreifast tekjur ekki á sama hátt og þær hafa gert. Þegar vélarnar taka við störfum nokkur hundruð manna í verksmiðju verður öll veltan eftir hjá eigandanum en dreifist ekki til starfsmanna. Að óbreyttu útilokar þessi þróun fleiri og fleiri frá þátttöku í hagkerfinu.

Við höfum skýrt dæmi fyrir framan okkur. Tekjur General Motors, Ford og Chrysler voru 36 milljarðar dollara árið 1990 og starfsmennirnir ein milljón. Aldarfjórðungi síðar eru Apple, Facebook, Google með þúsund milljarða dollara í tekjur og um 137.000 manns í vinnu.

Þetta dæmi lýsir hættulegri þróun. Það endurpseglar þá staðreynd, að sífellt meira fé rennur til  afmarkaðs hluta samfélagsins. Ójöfnuðurinn leiðir til félagslegrar ólgu og kyndir undir óróa, sem gæti endað með byltingu.

Keynes sá tækniframfarirnar fyrir. Við horfum fram á að uppfinningar eins og þrívíddarprentarar, sjálfkeyrandi bílar, flygildi (e. „drones“), vélmenni, vitvélar og  reiknigreindir af ýmsu tagi gjörbylti samfélögum okkar. En Keynes gaf engar leiðbeiningar um hvernig við ættum að dreifa hagnaðinum af þessum stórkostlegu, iðjusömu vitvélum þannig að við höfum öll efni á því að nýta okkur þann frítíma sem uppfinningarnar skapa okkur.

Borgaralaun

Skilyrðislaus grunnframfærsla – eða borgaralaun – greiðist af ríkinu til allra borgara óháð búsetu, stöðu heimilis, aldri, tekjum og án kröfu um að einstaklingur hafi verið í vinnu eða sé viljugur að taka þá vinnu sem býðst. Þessi hugmynd gjörbyltir þeirri félagslegu stefnu sem viðtekin er í velferðarríkjum þar sem grunnframfærsla er bundin ákveðnum, misströngum skilyrðum sem þarf að hafa virkt og afar kostnaðarsamt eftirlit með.

Undirstaða hugmyndafræðinnar um borgaralaun á rót sína að rekja í rit Thomas Paine frá 1797 sem nefnist „Agrarian Justice“ . Meginhugmyndin er  að verðmæti náttúruauðlinda, sem ekki hafa verið framleidd af neinum, en sem fámennur hópur hefur sölsað undir sig ætti að dreifast jafnt til allra. Arðurinn af þessum auðlindum sem er í raun sameiginleg eign allra samfélagsþegna ætti að skattleggja og deila.   

Einn helsti talsmaður borgaralauna er heimspekingurinn Philippe Van Parijs. Van Parijs sér marga áhugverða fleti á málinu, þar á meðal réttlætið. Hann leggur sérstaka áherslu á „raunverulegt frelsi“. Það snýst ekki einungis um jöfn réttindi heldur einnig jöfn tækifæri; og þar sem ólíkar aðstæður hafa áhrif á tækifæri einstaklinga til að fullnýta réttindi sín megi færa rök fyrir því að án jafnra tækifæra búum við í raun við eins konar sýndarfrelsi.  Van Parijs telur borgaralaun færa okkur nær upphaflegu jafnrétti með jöfnum tækifærum fyrir alla óháð samfélags- og efnahagsstöðu.

Ókeypis peningar

Í London árið 2009 var gerð tilraun með 13 heimilislausa einstaklinga. Sumir höfðu sofið á götum borgarinnar í 40 ár. Löggæsla, lögfræðiþjónusta og heilbrigðisþjónusta vegna þessara manna hafði kostað skattgreiðendur þúsundir punda á hverju ári. Tilraunin snerist um að skoða hvort peningagjöf myndi reynast ódýrari og skilvirkari lausn heldur en hefðbundnari leiðir sem felast í því að gefa matarmiða og útvega tímabundna gistingu. Mennirnir fengu því staðgreitt 3000 pund, algjörlega skilyrðislaust og svo var fylgst með útkomunni.

Hver þátttakandi var með mjög ákveðnar skoðanir um hvernig best væri að verja peningum sínum. Hlutir sem voru keyptir komu á óvart eins og t.d. sími, vegabréf, orðabók. Enginn sóaði peningunum í áfengi, fíkniefni eða fjárhættuspil. Eftir eitt ár voru 11 af þessum 13 mönnum komnir með þak yfir höfuðið. Þeir skráðu sig á námskeið til að læra m.a. eldamennsku, garðyrkju, fóru í meðferð vegna fíknar og skipulögðu framtíð sína.

Eftir áratuga átök löggæsluaðila við að þröngva, þrýsta, neyða, sekta og ofsækja þessa menn voru loksins 11 þeirra komnir af götunni og það á gjafaprís, en tilraunin kostaði 50.000 pund að meðtöldum launum starfsmanna sem stóðu að tilrauninni. Magnað. Meira að segja The Economist, eitt virtasta hagfræðirit heims, komst að þeirri niðurstöðu að „skilvirkasta leiðin til að verja peningum í heimilislausa er liklegast að gefa þeim þá.“

Fjölmargar rannsóknir á þróunaraðstoð hafa leitt í ljós fylgni milli peningagjafa og fækkunar glæpa, aukins jöfnuðar, minni vannæringar, minni barnadauða, færri ótímabærra þungana táningsstúlkna og minna brottfalls úr skóla. Það er líka fylgni við aukna skólagöngu, bættan námsárangur, aukinn hagvöxt og batnandi aðstæður kvenna.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um sögu borgaralauna og tilraunir sem hafa verið gerðar víðs vegar um heiminn í þingsályktunartillögu Pírata um skilyrðislausa grunnframfærslu.

Fátækt og tækifæri

Líf fátækra einkennist af miklu andlegu álagi, vanlíðan og niðurlægingu sem leiðir til skertrar sjálfsvirðingar, sorgar, kvíða og niðurbrots á andlegu og líkamlegu heilsufari. Fátækt stuðlar að því að einstaklingar, þar á meðal börn, heltast úr samfélagslestinni, glata samkeppnisfærni og njóta þar af leiðandi ekki þeirra tækifæra og gæða sem teljast sjálfsögð og eðlileg í samfélaginu. Fyrir utan kostnaðinn sem hlýst af þessum vítahring sem virðist nær ómögulegt að komast út úr.

Kjarni málsins – að mínu mati – er þessi birtingarmynd fátæktar, hvernig litið er á einstaklinga í lægstu stigum samfélagsins og hvernig þeir upplifa sjálfa sig.

Samfélagsumræðan hefur átt það til að lita fátæka og bótaþega sem letingja eða afætur sem skorti það sem til þarf til að lifa góðu lífi, og þess vegna séu þeir svona illa staddir. Það er mikið talað um að við búum við jafnrétti og þess vegna ættu allir að hafa sömu tækifæri, en eins og við sjáum þá er það alls ekki raunin. Það er ekki hægt að „hysja upp um sig buxurnar“ ef að fólk á ekki buxur til að hysja upp um sig.

Hagfræðingurinn Charles Kenny orðaði þetta svo vel þegar að hann skrifaði; „stóra ástæðan fyrir því að fátækt fólk er fátækt er að það á ekki nægilega mikla peninga, það ætti þvi ekki að koma neinum sérstaklega á óvart að góð leið til að draga úr þessu vandamáli er að gefa þessu fólki peninga.“

Útrýmum fátækt

Undafarna áratugi hefur almannatryggingakerfið afmyndast í kerfi félagslegra forræðishyggju, þunglamalegt og óskilvirkt stjórnunartól. Embættismenn njósna um lífeyrisþega til að tryggja að ekki sé verið að sólunda fé ríkisins. Þjónustufulltrúar eyða vinnudeginum í að leiðbeina fólki hvernig má ná utan um alla þá pappírsvinnu sem þykir nauðsynleg og þúsundir embættismanna er haldið uppteknum við að fylgjast með þessu kerfi sem er svo auðveldlega misnotað af almenningi sem og valdhöfum. Almannatryggingakerfið sem var komið á fót til að veita stöðugleika og öryggi hefur úrkynjast í kerfi sem einkennist af vantrausti og skömm.

Markmið almannatryggingakerfis ætti ekki að vera ölmusa eða skammtímaaðstoð með ströngum skilyrðum, heldur útrýming fátæktar og þeirrar frelsisskerðingar sem henni fylgir. Það er óþarft að fátækt skuli fyrirfinnast í jafn miklum mæli í nútíma tæknivæddu samfélagi sem er jafn ríkt af náttúruauðlindum og Ísland er. Útrýming fátæktar er fjárfesting til framtíðar. Við höfum ekki efni á því lengur að dvelja í þessari úrkynjuðu hugmyndafræði um að samfélagið þurfi endalaust að fjármagna og styðja við þá ríku og valdamiklu með þá von í brjósti að auður þeirra seytli einhverntímann niður til hins almenna borgara. Við þurfum að byggja frá botninum og upp.

Það má vel vera að sumum finnist þetta heldur útópísk hugmynd með fáar stoðir í raunveruleikanum, en skoðum það aðeins. Útópíur hafa nefnilega tilhneigingu til að rætast. Endalok þrælahalds, jafnræði kynjanna og lýðræði voru allt taldar mjög útópískar hugmyndir á sínum tíma. En svona er þróunin; það sem telst ómögulegt einn daginn telst sjálfsagt þann næsta.

Það sem ákvarðar hvort viss þróun sé neikvæð eða jákvæð fyrir samfélag er geta okkar til að sjá hvert við stefnum og horfast í augu við óhjákvæmilega þróun og undirbúa okkur. Möguleikinn á stórkostlegum breytingum er ljós en til þess að tryggja samfélaginu þann möguleika að lenda á betri stað er mikilvægt að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum og rannsaka alla valkosti.

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þetta vilja Píratar gera fyrir yngstu íbúa Kópavogs

Barn sem fæðist í dag á rétt á 12 mánaða fæðingarorlofi með forsjáraðilum sínum (gefum okkur að...

Kosningaframkvæmd 2022

Á laugardaginn er kjördagur og því utankjörfundi að ljúka. Því er ekki úr vegi að líta til...

Nóg komið

Ég veit ekki hvað mér þykir verst í þessu. Er það sjálf salan á Íslandsbanka, þar sem...

Hús­næðiskrísa!

Það er mikill skortur á húsnæði, það dylst engum. Það er ólíðandi ástand, ekki síst vegna þess...

Óheiðarleg stjórnmál

Oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, Kolbrún Baldursdóttir, sat nýverið í oddvitaspjalli á Bylgjunni þar sem hlustendur gátu...

Þess vegna bjóðum við okkur fram

Við Píratar erum stundum sögð vera óvenjulegur stjórnmálaflokkur. Við stundum öðruvísi stjórnmál, til dæmis tökum við ekki...

Rasismi á Íslandi

Rasismi er vandamál á Íslandi eins og annars staðar í veröldinni. Íslenska lögreglan er þar ekki undanskilin....

Hversu löng eru fjögur ár?

Mig langar að stunda stjórnmál þar sem íbúar bæjarins fá að segja skoðun sína oftar en á...

Eru 4.300 í­búar Kópa­vogs hunsaðir?

Fjölmenningarráð hafa verið sett á fót í mörgum stórum og smáum bæjarfélögum. Þar má nefna Reykjavík, Hafnarfjörð,...
X
X
X