Home Greinar Betri ákvarðanataka með auknu samráði

Betri ákvarðanataka með auknu samráði

Betri ákvarðanataka með auknu samráði

Píratar hafa allt frá stofnun verið óþreytandi við eflingu lýðræðis og þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Skiptir þar engu hvort um sé að ræða kröfu Pírata á Alþingi um upptöku nýrrar stjórnarskrár, eflingu lýðræðislegrar ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstigi eða innra skipulag hreyfingarinnar. Alltaf ættu þeir sem ákvörðunin hefur áhrif á hafa eitthvað um hana að segja.

Á haustmánuðum lögðu fulltrúar Pírata, BF Viðreisnar og Samfylkingar fram tillögu um að stofna stýrihóp kjörinna fulltrúa og starfsfólks sem hefði það hlutverk að móta meginreglur um íbúasamráð. Tillagan fellur mjög vel að stefnu bæjarstjórnar Kópavogs, en þar segir meðal annars:

Grunnreglur bæjarfélagsins eru skýrar og miða að því að allir hafi tækifæri til áhrifa. Kópavogur er samfélag sem byggir á lýðræðislegum ákvörðunum þar sem íbúarnir hafa áhrif á eigin mál. Við töku ákvarðana skal haft hugfast að valdið kemur fram frá íbúum bæjarins og þeir sem fara með það hverju sinni gera það aðeins í umboði íbúa.

Kópavogsbær hefur sannarlega stigið skref í átt að auknu lýðræði, til dæmis með verkefninu Okkar Kópavogur, auknu samráði við íbúa við skipulagningu nýrrar byggðar, að tillögu okkar Pírata, BF Viðreisnar og Samfylkingar, og nú nýlegast með verkefni um þátttöku grunnskólabarna í starfi bæjarins í tengslum við innleiðingu barnasáttmálans.

Á síðasta fundi bæjarráðs samþykkti bæjarráð tillögu okkar um að hefja vinnu við að betrumbæta íbúasamráð í Kópavogi. Allir bæjarfulltrúar munu koma að þeirri vinnu, ásamt verkefnastjóra íbúatengsla hjá bænum. 

Lýðræði er ekki sjálfsagt og höggið er að því ýmsum áttum. En með þessu stígum við mikilvægt skref í rétta átt hér í Kópavogi. Baráttunni er hvergi nærri lokið, en við skulum fagna áfangasigrum og halda svo ótrauð áfram að auknu lýðræði.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir

Bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi

Previous article Að­gengi fyrir börn af er­lendum upp­runa
Next article Píratar bjóða Andrés Inga velkominn með erfiðum spurningum!
Ég heiti Sigurbjörg Erla og ég bæjarfulltrúi og oddviti Pírata í Kópavogi. Ég er 35 ára gömul þriggja barna móðir, sálfræðingur og með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu. Ég er í pólitík vegna þess að mig langar að stuðla að auknu lýðræði og að stjórnvöld taki vel upplýstar ákvarðanir. Ég vil sjá Kópavog með mannvænt og lifandi skipulag sem tekur mið af algildri hönnun og aðgengi fyrir öll, þar sem vistvænir ferðamátar og gróður eru í forgrunni og húsnæði á viðráðanlegu verði. Tryggjum jafnrétti milli núverandi og komandi kynslóða.