Átta ára meinsemd

Það var augljóst löngu fyrir heimsfaraldur að heilbrigðisþjónustan í heild var í klípu. Mönnunarvandi, fjársvelti, plássleysi, mygla og gamaldags skipulag stóð þjónustunni fyrir þrifum. Þetta eru ekki nýjar upplýsingar, þvert á það sem sum halda fram.

Fjármálaráðherra segist hafa aukið fjárframlög heilmikið til heilbrigðismála og vill ekki setja meiri fjármuni í kerfið án þess að vita hvað fæst fyrir þá. Hann hefur verið í fjármálaráðuneytinu nær óslitið frá árinu 2013, með stuttri viðkomu í forsætisráðuneytinu, og því haft næstum átta ár til þess að greina hvernig þessir fjármunir eru nýttir.

Heilbrigðisráðherra, sem ávítti lækna fyrir að gagnrýna heilbrigðiskerfið fyrir faraldurinn, segist enn fremur hafa aukið fjárframlög verulega til heilbrigðiskerfisins. Þannig stærir hún sig af því að hafa styrkt heilsugæsluna til muna og tryggt að hún sé fyrsti viðkomustaður notenda. 

Suðurland hefur allt aðra sögu að segja. Heilsugæslan á Suðurnesjum annar ekki íbúum svæðisins og hefur ekki gert í áratugi. Heilsugæslan á Suðurlandi er skárri en þar er yfirleitt 2ja-3ja vikna bið eftir tíma hjá heimilislækni. Heilsugæslan á Klaustri er opin þrjá klukkutíma á dag. Á Vík í fjóra tíma á dag. Heilsugæslan á Hellu hefur verið lokuð í allt sumar. Á Höfn hefur verið læknaskortur af og til í gegnum árin. En það kemur heimilislæknir reglulega til að sinna þjónustu við íbúa. Sömu sögu er að segja um Eyjar.

Tímaeyðsla er peningaeyðsla

Flestir íbúar Suðurkjördæmis fá ekki heimilislækni. Ég gafst upp eftir að hafa þurft að skipta þrisvar um heimilislækni á 4 árum. Nú fer ég bara til næsta lausa heimilislæknis. Það skapar óöryggi hjá langveiku fólki, eldra fólki ofl. að hafa ekki fastan heimilislækni.

Hugmyndin um heimilislækni er sú að læknirinn þekki sína skjólstæðinga og heilsufarssögu og sjái um heilsugæslu heimilisins. Þetta er liðin tíð. Nú er staðan sú að ef þú ert svo heppinn að fá tíma hjá heimilislækni þá eru allar líkur á því að þú hafir aldrei hitt viðkomandi áður, þurfir að endurtaka í þúsundasta skipti heilsufarssögu þína og gefa viðkomandi lækni tíma til að grafa sig í sjúkrasöguna þína. Þetta er tímaeyðsla. Og tímaeyðsla er peningaeyðsla.AUGLÝSINGMargar breytingar hafa verið gerðar innan heilsugæslunnar. Hver kannast ekki við að þurfa að hringja kl. 8 að morgni til að panta tíma. Þá hringja allir í einu, allir lenda á bið og tímarnir uppurnir kl. 8:15. Þá er brugðið á það ráð að vera með opnar vaktir. Þarna er bara verið að skjóta sig í fótinn. Það enda allir á opnu vöktunum. Þá var brugðið á það ráð sums staðar að loka vöktunum, þ.e. þú þarft að panta tíma á vaktina. Aftur varðstu að hringja á ákveðnum tíma (allir á bið, stöðugt á tali) og vaktin fullbókuð þegar þú loksins kemst að. 

Þá er nýtilkomin sú tæknibreyting að allir eigi að panta tíma hjá heimilislækni í gegnum Heilsuveru. Þá er búið að útiloka þá sem ekki eru nægilega tæknilæsir eða eru ekki með rafræn skilríki. Ef ég vel að panta tíma hjá heimilislækni þá koma skilaboð um að engir tímar séu lausir. Þegar þarna er komið sögu eru flestar dyr lokaðar og fólk endar með því að panta hjá sérfræðingi ellegar dúkkar upp á bráðamóttöku, Læknavaktinni eða í öðrum dýrari úrræðum. Þetta kalla ég ekki styrkingu heilsugæslunnar.

Hvað segja tölurnar?

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og fulltrúi okkar í fjárlaganefnd þingsins, reiknaði út að þessi stórauknu útgjöld til heilbrigðisþjónustu sem ráðherrar tala mikið um fari að mestu í byggingu nýs sjúkrahúss, lagfæringar á mygluvanda, sérstaka viðbót vegna Covid, fjölgunar landsmanna og ferðamanna, sjálfsagt viðhald á tækjum og tækjakaup ofl. Það getur ekki talist stórefling heilbrigðiskerfisins sem við búum við í dag. Niðurstaða Björns er að raunveruleg fjárhæð á kjörtímabilinu til eflingar reksturs heilbrigðiskerfisins sé í raun einungis um milljarður. Ég vitna hér beint í grein Björns Leví sem birtist í Kjarnanum:

„Án covid erum við þá að tala um rétt rúman milljarð á fjórum árum til þess að efla sjúkrahúsþjónustu. Það bætist við rétt um 1% af heildarfjárframlögum til þess að efla rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana.“ 

Þessi vandi heilbrigðiskerfisins (sem mörg hafa greinilega nýuppgötvað) var til umræðu á Sprengisandi á sunnudaginn var. Þar dró Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG og læknir, niðurstöður Björns Leví um raunveruleg aukin útgjöld í rekstur í efa og sagði að það væri hægt að reikna sig að hvaða niðurstöðu sem er.

Nei, Ólafur Þór, það er ekki hægt að reikna sig að hvaða niðurstöðu sem er. Það er hins vegar hægt að halda blaðamannafund í Hörpunni og matreiða tölur á ýmsa vegu, ég tek undir það. Þessi undarlega staðhæfing vekur ekki beinlínis traust á þeim tölum sem nú berast frá VG – ef þeir reikna sig að ákjósanlegum niðurstöðum þá vil ég fá að vita hvort þau notast við aðra stærðfræði en við hin. Tölur eru tölur. Matreiðsla á gögnum, tölum og tölfræði er allt annar handleggur.

Þetta er ekki ómögulegt

En þá að kjarna málsins. Hvernig leysum við bráðavandann og svo þann vanda sem hefur lengi legið fyrir?

Við verðum að gera heilbrigðisáætlun til langs tíma og hefja endurskipulagningu heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst í takti við hækkandi lífaldur. Finnum skynsamlegar lausnir, nýtum betur þær heilbrigðisstofnanir sem við eigum, fjórðungssjúkrahúsin og sjúkrahúsin í kringum höfuðborgarsvæðið. Leysum mönnunarvandann og greiðum heilbrigðisstarfsfólki betri laun, tryggjum viðunandi starfsaðstæður og mátulegt álag. Hið opinbera á að vera fyrirmyndaratvinnurekandi, en spyrjið stéttarfélög hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, sjúkraliða, lífeindatækna ofl. hvernig er að semja við hið opinbera. Það endar yfirleitt fyrir gerðardómi eða með verkföllum.

Það er ekki ómögulegt að skipuleggja heilbrigðisþjónustu og hanna hagkvæm og fjölbreytt úrræði sem virka. Kostnaðargreina, meta gæði, tryggja eftirlit, líta til framtíðar og breyttrar íbúasamsetningar. Það er ekki ómögulegt að meta árangur af viðbótarfjármagni, sérstaklega ekki þegar ráðherrar hafa átta ár til þess. Það er ekki ómögulegt að tryggja öllum Íslendingum viðunandi heilbrigðisþjónustu burtséð frá efnahag eða búsetu. Mér sýnist vilji núverandi stjórnvalda hins vegar standa til að láta áfram reka á reiðanum. Bjóða upp á sömu ríkisstjórn áfram, heil átta ár af ómöguleika.

Höfundur er oddviti á lista Pírata í Suðurkjördæmi

Upprunaleg birtingKjarninn

Kommentakerfi Pírata

Skrifa ummæli við þessa grein

Skrifaðu athugasemdina þína
Vinsamlegast sláðu inn nafnið þitt hér

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

On­lyFans, klám og ó­skyn­sam­legar refsingar

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það eru margir vinklar á henni...

Píratar í 10 ár og meira

Píratahreyfingin er 16 ára gömul á heimsvísu en 10 ára gömul á Íslandi. Árið 2013 tóku Píratar...

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þegar kerfið segir nei

Þegar sambandsslit ganga vel eru þau samt erfið. Þegar þau ganga illa og annar aðilinn fæst jafnvel...

Áratugur í Íslenskum stjórnmálum

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík, svo það hlýtur að teljast ágætt að...

A Decade in Icelandic Politics

There is a saying that a week is a long time in politics, so the fact that...

Rasismi á Íslandi

Rasismi er vandamál á Íslandi eins og annars staðar í veröldinni. Íslenska lögreglan er þar ekki undanskilin....

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety is threatened, but...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

Börn í kerfinu þola enga bið

Samfélagið hefur nú heyrt hræðilegar og átakanlegar sögur af reynslu kvenna sem hlutu úrræði á Laugalandi í...

Suðvesturkjördæmi tapar þingmanni

Okkur mun ekki skorta áskoranir á nýju ári. Farsóttir, náttúruhamfarir og sveitarstjórnarkosningar auk þess sem Alþingi hefur...

Meina þingmenn það sem þeir sögðu?

Ríki heims stefna á að vinna langtum meira jarðefnaeldsneyti en óhætt er, ætli þau að ná markmiðum...

Lýðræði er miklu meira en bara kosningar

Slagorð Pírata fyrir alþingiskosningarnar er „Lýðræði - ekkert kjaftæði“ og ekki að ástæðulausu.  Píratar voru stofnaðir til þess...

Skattarnir sem þú sérð ekki

Við Píratar erum stundum gagnrýnd fyrir það að tala mikið um aðgerðir gegn spillingu. Það sé óþarfi...

Ert þú með lægri laun en þing­maður?

Píratar telja að skattkerfið eigi að vera tvennt: Stigvaxandi (á ensku: progressive) og grænt. Það þýðir annars vegar að...