Home Greinar Áratugur í Íslenskum stjórnmálum

Áratugur í Íslenskum stjórnmálum

0
Áratugur í Íslenskum stjórnmálum

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík, svo það hlýtur að teljast ágætt að Píratar séu að verða tíu ára núna í nóvember.

Reyndar finnst mér það merkilegt að þessi róttæki umbótaflokkur sé fimmta elsta stjórnmálaafl landsins, en löngum þótti það hálfgerður ógjörningur fyrir fimmta flokk að komast inn í þetta kerfi.

En þessi tíu ár hafa auðvitað ekki verið eðlilegur tími í íslenskum stjórnmálum.

Píratar voru stofnaðir 24. nóvember 2012, það var réttum mánuði eftir að kosið var um það hvort ætti að innleiða nýja stjórnarskrá byggt á tillögum Stjórnlagaráðs og flokkurinn bauð fyrst fram í Alþingiskosningum 2013 ásamt fjölda annarra nýrra framboða, en flokkurinn fékk þrjá þingmenn kjörna.

Fyrir mér eru kosningarnar 2013  mjög minnisstæðar. Ég hafði verið virk með Lýðræðisvaktinni, einum hinna flokkanna sem börðust fyrir stjórnarskrárfrumvarpinu, en ég var mjög reið yfir því að  stjórnarskrárfrumvarp hafi ekki verið afgreitt á fráfarandi þingi   Ég tók eftir því í kosningabaráttunni hvað það virtist vera mikið meiri orka og fjör hjá Pírötum, meiri jákvæðni. Ég get kannski viðurkennt það í dag að ég fór og eyddi kosninganótt með Pírötum, þó ég hafi verið í kosningabaráttunni með öðrum flokki.

Ég fór svo í skráði mig í Pírata skömmu síðar og fór að taka þátt í innra starfi og hef aldrei séð eftir því.

Það kom fljótt í ljós að þingmennirnir voru öflugir og grasrótarstarfið líflegt og spennandi, en líka sérstakt fyrir flatan strúktúr og hversu auðvelt var fyrir nýtt fólk að slást í hópinn, þetta var gífurlega skemmtilegur tími og gróskan og hitinn í málefnastarfinu eitthvað sem ég mun seint gleyma, en á þessum tíma var auðvitað ennþá í mótun nákvæmlega hvar við myndum taka okkur stöðu í ýmsum málum og mikið rætt og tekist á um það.

Ég gleymi aldrei tímanum milli þess að Panamaskjölunum var lekið og þangað til gengið var til kosninga 2016. Þá blossaði aftur upp orkan, krafan um breytingar sem íhaldsöflum hafði tekist að afstýra 2013. Þá var ég á lista fyrir Pírata í fyrsta skipti og var virk í kosninga- baráttunni, en ég var þá komin í stjórn Pírata í Reykjavík.

Við stækkuðum mikið, en náðum ekki að mynda öðruvísi meirihluta á þingi, en sú stjórn sem þá var mynduð varð ekki langlíf, en eftir illa ígrundaða uppreisn æru, og enn verr ígrundaðan feluleik með þá ákvörðun, var aftur boðað til kosninga, í þetta skiptið með stysta mögulega fresti.

Þá gekk í garð brjálaðasta tímabil ævi minnar. Ég var búin að ákveða að gefa kost á mér í borgarstjórn 2018, og var því ein af fáum virkum pírötum í grasrót sem var ekki í prófkjörinu 2017, svo þá var heppilegt að fela mér að halda utan um prófkjörið og svo taka sæti í kosningastjórn flokksins. Ég gat ekki fengið frí úr vinnu nema síðustu tvær vikur fyrir kosningar, svo ég vann þarna rétt rúmlega tvöfaldan vinnudag, en þó það hafi tekið á var það líka spennandi og gefandi. Ég fann það líka að það átti ágætlega við mig að vinna í pólitísku starfi. 

Ekki tókst heldur að ná saman um ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins eftir þær kosningar, en ég sneri mér þá að borgarmálunum.

Árin 2018 til 2022 voru vaxtarskeið fyrir flokkinn, við stækkuðum í borginni og komumst að í Kópavogi. Mitt líf tók miklum breytingum á þessum tíma, en ég tók sæti í borgarstjórn, fyrst sem varafulltrúi, en svo sem aðalmaður. Ég er alveg gífurlega stolt og þakklát að hafa verið treyst fyrir því af grasrót flokksins, og svo af kjósendum. Það er alveg ótrúlega mögnuð tilfinning að fá færi til þess að sjá hugsjónir og hugmyndir verða að veruleika. En allt hófst það með því að lauma sér í kosningavöku og byrja svo bara að mæta á fundi í kjölfarið.

Við erum stærri og við höfum þroskast og breyst, við erum ennþá með orkuna og hugsjónina. Við trúum því ennþá að við getum breytt Íslandi til hins betra. Grasrótarstarf og málefnastarf er ennþá opið, strúktúrinn er enn flatur. Við gefumst aldrei upp.

Píratar eru komnir til að vera og ég hlakka til að halda upp á tíu ára afmæli flokksins á aðalfundi flokksins núna um helgina.

Höfundur er borgarfulltrúi Pírata

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here