Í lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru hér nýlega á alþingi segir í 1. grein:
„Lög þessi kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.“
Við erum ekki öll menn. Sama hversu mikið og mörg vilja svo gjarnan halda í þessa tilgangslausu málvenju þá er það einfaldlega svo að við skilgreinum okkur ekki öll sem sískynja karlmenn. Við erum öll alls konar og höfum öll rétt til þess að borin sé virðing fyrir okkar kyneinkennum, kyngervi, kynvitund, kyntjáningu og líkamlegri friðhelgi okkar.
Ákveðin mótstaða hefur verið gagnvart því að nota kynhlutlaust mál – en auðvitað á Alþingi og opinberar stofnanir að vera leiðandi í því að koma að nýjum málvenjum. Það er eðlilegt fyrir tungumál að þróast og ákveðinn elítismi fólginn í því að viðhalda tilgangslausum kynjuðum málvenjum sem útskýrist kannski af hræðslu við breytingar og tilfinningum um að verið sé að ganga á rétt hinna ráðandi sískynja kvenna og karla.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, benti nýlega á í pistli sínum:
„Mörgum finnst þessi orð hljóma undarlega og jafnvel vera kjánaleg. Það er alveg eðlilegt – ný orð verka yfirleitt framandi á okkur. Það þarf að venjast þeim, og það tekur tíma. Mörg orð sem við notum athugasemdalaust og umhugsunarlaust á hverjum degi þóttu undarleg þegar þau komu fyrst fram. Einn helsti nýyrðasmiður landsins á síðustu öld, Halldór Halldórsson prófessor, sagði að það þyrfti að segja nýtt orð 60 sinnum til að venjast því. Prófið það!“
Á vefsíðunni otila.is er að finna hugtök sem ná yfir hinsegin veruleikann og leggja grunninn að skilningi á hinsegin málefnum. Kynnum okkur málin og tökum þátt í þessari mikilvægu breytingu á málvenjunum okkar – við töpum ekkert á því!
Alþingi á að vera fyrir okkur öll. Lög eiga að vera fyrir okkur öll. Samfélagið á að vera fyrir okkur öll.
Hán, hé, hín, kvár, stálp og mön.