Flestum íbúum Hafnarfjarðar þykir gott að búa í bænum sínum. Píratar horfa samt til þess sem bæta þarf, eru óhrædd við breytingar og taka öllum hugmyndum fagnandi hvaðan sem þær koma. Píratar vinna með öllum þeim þar sem áherslur og stefnur fara saman.
Píratar í Hafnarfirði leggja mikla áherslu að veita athygli þeim hópum sem orðið hafa útundan, með það í huga að bæta stöðu þeirra. Efla þarf skapandi greinar, smáverslun og þjónustu í bænum, Nú stefnir í töluverða íbúafjölgun sem og fjölgun ferðafólks og því er einstakt tækifæri til að efla á sama tíma þjónustu við mannlífið og skapa enn betri bæ. Þá er einnig upplagt að undirrita nýja samninga við álfana í bænum og byggja enn frekar upp víkingabæinn, svo fátt eitt sé nefnt.
Þá telja Píratar í Hafnarfirði nauðsynlegt að sinna íbúum betur hvað varðar andlega heilsu, frístundir og útivist. Frístundastyrkinn þarf að laga þannig að fleiri börn geti nýtt sér hann sem valkost, en 30% barna hafa ekki nýtt frístundastyrk sinn á síðustu árum. Ráðast þarf í bæjarátak til að takast á við margvíslegan tilfinningavanda sem bæði yngri og eldri kynslóðir glíma við. Þar eru Píratar með faglegar tillögur sem gætu skilað árangri.
Samhliða þéttingu byggðar þarf að standa vörð um græn svæði og útivistarsvæð. Þótt aðeins sé horft til lýðheilsusjónarmiða þá er afar skynsamlegt að gera útivistarsvæðin innan bæjarins og í jöðrum byggðarinnar aðgengileg öllum íbúum Hafnarfjarðar, m.a. á Ásfjalli, Hamrinum og í kringum hraunin í bænum.
Píratar í Hafnarfirði leggja þunga áherslu á að orkuskiptum verði hraðað, hleðslustöðvum fjölgað, almenningssamgöngur bættar meðan beðið er eftir Borgarlínu og sérstaklega horft til örflæðislausna og deilibíla. Horfa þarf til hringrásarhagkerfisins við alla stefnumörkun.
Haraldur R. Ingvason og Hildur Björg Vilhjálmsdóttir, frambjóðendur í 1. og 2. sæti fyrir Pírata í Hafnarfirði