Á uppvaxtarárum okkar kemur kynhneigðin, kynímyndin og spurningin hver er ég hjá flest öllum ungmennum og tilfinningin að fá að tilheyra, fá að vera og upplifa sig örugg í umhverfi sínu. Fyrir flest ungmenni er það mögulegt og næga fræðslu að sækja víðsvegar og félagsstarf í mörgum hornum að líta eftir, hvar þú vilt vera, hvernig þú sérð sjálfan þig og hverju þú vilt tilheyra. En hjá hinsegin ungmennum eru valmöguleikarnir og jafningjagrundvöllurinn ekki eins fjölbreyttur. Hann er í raun frekar lítill ef eitthvað er en eina félagsstarf þeirra á öllum Suðurnesjum er Hinsegin Plútó sem unnið er í 100% sjálfboðastarfi og er næsta félagsstarf alla leið til miðbæ Reykjavíkur að sækja í félagsmiðstöð Samtakanna 78.
En af hverju er félagsstarf hingsegin ungmenna málaflokkur sem þarf að sinna og hlúa betur að? Því þar er þeirra jafningjagrundvöllur, þar sem þessi ungmenni fá að vera, tilheyra og upplifa sig með þeim sem þau tengja sig við, án hræðslu um að vera dæmd eða útskúfuð.
Rannsóknir hafa sýnt að hluti hinsegin ungmenna í grunn og framhaldsskólum hér á landi upplifa óöryggi í skólanum vegna kynhneigðar sinnar, kyns og kyntjáningar. 40% þáttakanda í könnun sem Samtökin 78, í samstarfi við Teachers College, Columbia University og GLSEN (Gay, Lesbian, & Straigt Education Network) stóðu fyrir, sögðust forðast búningsklefa, 33% forðuðust leikfimitíma og 23% voru fjarverandi í einn eða fleiri daga á mánuði vegna óöryggis í skóla (Samtökin 78, 2020).
Þetta eru tölur sem við ættum ekki að vilja sjá og getum heldur ekki litið undan sem samfélag. Ábyrgð okkar sem samfélags liggur gagnvart öllum ungmennum en ekki einungis meirihlutanum. Að fá að vera til eins og þú ert í öllu því umhverfi sem þú stundar vegna áhuga eða skyldu, er skrýtin setning að þurfa að segja árið 2022, því þó Ísland sé langt komið með margt sem snertir hinsegin málefni, þá eru margir þættir sem enn þarf að halda vel utan um og enn aðrir þættir sem bæjarfélagið í heild sinni þarf að vinna enn betur í. Það þarf að bæta enn meiri fræðslu um fjölbreytileika lífsins, réttinn á að fá að vera til og vera eins og við öll viljum vera, án hættu á útskúfun, hunsun eða fjandsamlegrar framkomu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru öll ungmenninn okkar framtíðarfjárfesting okkar. Höldum saman utan um heildina.
Ragnar Birkir Bjarkason er í 6.sæti á framboðslista Pírata og óháðra í Reykjanesbæ 2022.
Heimildir
Íslensk hinsegin ungmenni upplifa óöryggi í skóla | RÚV (ruv.is)
Samtokin 78. (2020) Könnun á liðan hinsegin ungmenna í skólakerfi.