Ábyrgðin er yfirvalda

Til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins þarf meira til en orkuskipti og rafbílavæðingu. Við þurfum að draga úr akstri bíla á höfuðborgarsvæðinu um 15 til 50%. Þetta vitum við eftir að sérfræðingahópur HR og HÍ skilaði af sér útreikningum um mat á losun gróðurhúsalofttegunda á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2030. Undirrituð setti þessa vinnu af stað og voru niðurstöðurnar því fyrst lagðar fram í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur. Þær sýna að ofuráhersla á rafbílavæðingu þjóðar er ekki rétt forgangsröðun. Til þess að ná þeim lífsnauðsynlegu markmiðum sem við höfum sett okkur þarf fyrst og fremst að breyta ferðavenjum og rafvæða samgöngur.

Í ljósi þess að að fjöldi bíla á landinu hefur aldrei verið meiri en nú og að umferð á höfuðborgarsvæðinu er meiri en hún hefur nokkru sinni áður verið virðist það í fyrstu óklífanlegt fjall að ætla að snúa þeirri þróun við. Þess vegna er þörf á metnaðarfullum aðgerðum sem gera fólki það kleift að breyta ferðavenjum. Rafhjólaverkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem íbúum býðst að fá rafhjól til láns hefur gefið niðurstöður sem vert er að gefa gaum. Á síðasta ári voru 100 rafhjól í boði og sóttu meira en eitt þúsund manns um, Í ár stefnir í að umsóknir verði fleiri en tvö þúsund. Þátttakendur notuðu rafhjólin mest til og frá vinnu, 90% sögðust nota það tvo daga eða fleiri og rúmlega 90% sögðust nota rafhjólið í staðinn fyrir einkabílinn. Niðurstöður þessa verkefnis sýna að hér er stórt sóknartækifæri.

Hjólahraðbrautir sem tengja saman öll helstu hverfin og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geta orðið eitt af framtíðar-samgöngukerfunum. Í nágrannalöndum okkar fá íbúar styrk frá ríkinu til þess að fjárfesta í rafhjóli. Þar eru líka í boði fjölbreyttar deililausnir fyrir almenning þar sem aðgengi að rafhjólum og öðrum rafvæddum samgöngutækjum er tryggður.

Ábyrgðin er okkar og árið 2030 er einungis í 11 ára fjarlægð. Við höfum ekki efni á að bíða. Okkur liggur lífið á.

Greinar eftir sama Píratann

X
X