Ég átti satt best að segja ekki von á því að vera vasast í stjórnmálum, en ef ég lít yfir farinn veg, þá er ætti það kannski ekkert að koma á óvart… Ég vil aukin borgararéttindi og friðhelgi einkalífsins, skaðaminnkunnarhugsun í hverri taug, persónufrelsi, og styð regluvæðingu allra vímuefna, tjáningarfrelsið, valfrelsi til að ákveða sjálf hvað ég mínir nánustu þurfa, komin með nóg af umhverfisógnunum, aukin mannréttindi og bara betra og réttláta samfélag en það sem var í boði.
Eftir að Guð þurfti að blessa Ísland, þá var jú heilmikil reiði í samfélaginu okkar. Ég var einmitt reið, maðurinn minn var reiður, foreldrar mínir og bara allir og amma þeirra voru brjál.
Ég vildi hætta vera reið og röfla í sundi og við eldhúsborðið, svo ég ákvað að sjá hvort ég gæti gert eitthvað af viti.
Tveir fýsilegir valkostir voru í boði, Dögun og Píratar. Eiginlega var það bara tilviljun að ég fór með Dögun, en ég var líka mjög skotin í þessum Pírötum. Eftir frumraun mína á þessum vettvangi var ég ekki til í meira. Ég var líka þreytt, með lítið barn sem svaf ekki á nóttunni, var í sjúkraþjálfun eftir erfiða meðgöngu og gjörgæslulegu í kjölfar fæðingarinnar. Ég var frekar vonlaus, eitthvað að paufast við að vera í enn einu háskólanáminu, og aðganga í gegnum sorg í kjölfarið af móðurmissi og bara já… eiginlega allt í fokki. En var samt alltaf eitthvað skotin í þessum Pírötum…
Núna um helgina höldum við Píratar aðalfund á 10 ára afmæli okkar. Mitt upphaf sem Pírati hófst einmitt á aðalfundi Pírata sumarið 2016. Þá kom ákall inn á Pírataspjallið, því það vantaði fleiri konur í framboð fyrir Framkvæmdaráð Pírata. Ég spurði í rælni: “hvað þarf kona að gera til að bjóða sig fram?” Það næsta sem ég vissi var að ég var orðin ein af 27 sem sóttust eftir því að komast í ráðið. Ég mætti skjálfandi í gömlu Rúgbrauðsgerðina, á fallega hjólinu mínu og vissi bara ekkert hvað ég var að koma mér í.
Þessi Píratar… hvaða fólk er þetta? Ég þekkti minnir mig tvær manneskjur þarna… Þarna var svo þáverandi þingflokkur, með Birgittu, Helga Hrafni og Jóni Þóri. Ég varð bara feimin og kjánaleg, lét ekki fara neitt fyrir mér, sat bara og faldi mig bak við tölvuna. Innan um allt þetta reynda og klára fólk sem virtist vita allt upp á tíu. Ég átti að halda framboðsræðu. Þegar ég fór upp í pontu sat Birgitta beint fyrir framan mig og ég þornaði bara upp í munninum. Flutti samt ræðu og uppskar lófatak fyrir. Ég talaði eitthvað um að stjórnmálafólk væri í þjónustustarfi og að ég væri kona að svara ákallinu. Ég endaði í 4.sæti, sem var í mínum huga stórfurðulegt. Var svo ný þarna innan hreyfingarinnar að ég náði ekki einu sinni að kjósa mig sjálf! Þrátt fyrir feimni mína og óröryggi, vantaði nú ekki mótttökurnar. Ég minnist ýmissa samtala við fjölda Pírata sem sýndu mér áhuga og tóku vel á móti mér. Partýið um kvöldið var líka mjög skemmtilegt og ég var byrjuð að tengjast fólki og eignaðist fljótt marga vini.
Ég fékk í hendurnar það hlutverk innan ráðsins að vera ritari. Almáttugur, hvað gerir ritari??? Öll þessi kerfi líka og allt þetta nýja umhverfi og forrit og bara… hjálp ég er að drukkna! Hvað er ég búin að koma mér útí?Ég var satt best að segja eins og dádýrið fyrir framan framljósin. Ég hef sjaldan upplifað annað eins imposter syndrome og á þessum tímapunkti.
Nýtt framkvæmdaráð með alla nýja í stjórninni, fékk strax það verkefni að hendast í sögulegar kosningar, þar sem við náðum metfjölda þingfólks, eða níu kjörna fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Kosningavakan er eitt það merkilegasta sem ég hef upplifað, þegar Birgitta gekk inn í salinn og fjölmiðlar alls staðar að úr heiminum flykktust inn til okkar. Það voru næstum því fleiri fjölmiðlar en Píratar þarna inni. Og þarna var ég, bara einhver þreytt úthverfamamma búin að álpast inn í einhverja alþjóðlega hreyfingu Pírata. Síðan þá hef ég gengið í gegnum ansi margt með Pírötunum. Margt fallegt og gott, en líka margt sárt.
Ég hef sinnt hlutverki ritara, varaformans og svo formans framkvæmdaráðs. Verið í framboði nokkrum sinnum og undanfarin fjögur ár verið í borgarpólitíkinni. Ég veit ekki hvað af þessu hefur verið mesta lærdómsreynslan, en ég er langt frá því að vera sama konan og ég var fyrir sex árum síðan. Ég gerði alls konar mistök en fékk líka fullt af stuðningi og ráleggingum. Við fluttum úr Fiskislóðinni og upp í Síðumúla og hófum þá vegferð að verða formlegri og faglegri sem stjórnmálaafl. Það var töff pönk að vera með handahófskennd húsgögn héðan og þaðan, en það kom að því að við urðum að fullorðnast aðeins og sýna það útá við. En pönkið er alltaf í Píratahjartanu.
Píratar fagna nú 10 ára afmæli sínu og eru orðin rótgróinn flokkur. Ég hef fengið að tilheyra Pírötum í rúmlega helming tímans og ég er svo stolt af því. Við erum ekki lengur bara einhver furðuleg pönkuð hreyfing sem hægt er að reyna gera lítið úr og saka um að ekki sé hægt að taka okkur alvarlega. Það hefur sýnt sig með öllum okkar kjörnu fulltrúum, sem hafa komið úr ýmsum áttum síðastliðin áratug. Þá sérstaklega með árangri okkar í Reykjavík, þar sem við höfum heldur betur sýnt að við erum meira en fullfær um að taka við stjórninni. Ímyndið ykkur bara hvað við gætum gert ef við kæmumst í ríkisstjórn!
En elsku Píratar, við eigum enn eftir að græða aftur upp grasrótina okkar. Klára að slíta barnaskónum og vera duglegri að sýna það í verki hversu dýrmætt það er þegar við fáum fólk í stjórnirnar okkar, hvort sem það eru Ungir Píratar eða Píratar í NA. Það er þar sem við sem flokkur þurfum að fara í naflaskoðun svo að við getum byggt aftur upp öfluga og töff grasrót. Það má vera bæði pönkuð og nærandi á sama tíma og það er við hæfi að við séum þar eftir 10 ára starf.
Ég er sjálf ekki sama manneskja og ég var fyrir hálfu ári, ári, eða fyrir fjórum árum, hvað þá fyrir sex árum síðan. En ég er Pírati og hef líklega verið það alla ævi. Ég get ekki ímyndað mér annað en að það verði ég alltaf, hvort sem er sem almenn félagsmanneskja eða kjörinn fulltrúi.
Ég segi alltaf “Píratarnir mínir”, því þannig sé okkur, þið eruð minn hópur og minn tebolli.
Til hamingju með 10 ára afmælið, ég hlakka til næstu áratuga með ykkur.
Yarrr!
Höfundur er varaborgarfulltrúi Pírata