Það er ekki vandamál að 3. orkupakkinn svipti Íslendinga sjálfsákvörðunarrétti yfir auðlindum eða til ákvörðunar um lagningu sæstrengs, vegna þess að hann gerir það ekki.
Það er ekki heldur vandamál að 3. orkupakkinn brjóti í bága við stjórnarskrá, þótt álitamál geti komið upp ef (og aðeins ef) ákvörðun verður tekin í framtíðinni um lagningu sæstrengs. (Jafnvel þá finnst mér rökin fyrir því að hann brjóti í bága við stjórnarskrá mjög ósannfærandi, en það eru ekki allir lögfræðingar sammála um það.)
En það er hinsvegar raunverulegt vandamál að fólk hafi áhyggjur af þessum atriðum. Fólk á ekkert að þurfa að hafa áhyggjur af svona hlutum, jafnvel þegar bábiljunum er dreift af þvílíkru áfergju og raun ber vitni.
Það er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur þegar allir þessir vondu hlutir virðast trúverðugir. Það er líka sjálfsagt að reyna að sýna fram á að þessar áhyggjur séu óþarfar. En það er líka erfitt, og það eru nokkrar ástæðar fyrir því.
1. Traust til stjórnmálamanna er í ræsinu. Eðlilega.
2. Stjórnarskráin er þögul um framsal valds, sem þýðir að engin skýr lína er til staðar og engin leið að útkljá stjórnarskrárlegt samhæfi í alþjóðasamvinnu. Þetta er sennilega einn pínlegasti (og misskildasti) galli stjórnarskrárinnar.
3. Stjórnarskráin er þögul um náttúruauðlindir og eignarhald yfir þeim.
4. Stjórnarskráin býður ekki upp á neina aðkomu almennings að ákvarðanatökunni ef Alþingi ákveður eitthvað sem er í hróplegu ósamræmi við vilja almennings.
Öllu þessu er tekið á með nýrri stjórnarskrá.
Það er í góðu lagi að álasa þeim sem meðvitað afvegaleiða og dreifa rangfærslum, eins og suma þingmenn Miðflokksins. En það er ekki hægt að álasa hinn almenna borgara sem finnst þessar áhyggjur trúverðugar, vegna þess að þær ríma óþægilega vel við áhugaleysi meirihluta stjórnmálamanna á því að koma þessum grundvallaratriðum fyrir þar sem þau eiga heima; í stjórnarskrá.
Við sem höfum haft tækifærið til að kynna okkur 3. orkupakkann nógu vel til að losna við allar áhyggjur af honum verðum að bera virðingu fyrir því að hinn almenni borgari og flokksmeðlimur er ekki endilega í sömu stöðu. Það er eðlilegt að fólk komist að rangri niðurstöðu þegar það fær rangar upplýsingar, og þess vegna skiptir máli að upplýsingarnar séu réttar. Þegar þvílíkt flóð af röngum upplýsingum nær yfirhöndinni verðum við að passa að gera skýran greinarmun á þeim sem dreifa vísvitandi ósannindum (eins og sumir þingmenn Miðflokksins) og þeim sem verða fyrir barðinu á téðum ósannindum. Þetta er ekki sama fólkið og það er ekki í sama liði.