Home Greinar 10 ár í þjónustu þjóðar

10 ár í þjónustu þjóðar

10 ár í þjónustu þjóðar

Það var þann 24. nóvember árið 2012 sem framsýnt hugsjónafólk kom saman og stofnaði Píratapartýið. Þetta nýja afl fékk athygli og vakti mikla eftirtekt fyrir nýjar og róttækar hugmyndir. Margar þeirra eru nú orðnar að veruleika og margar okkar róttækustu hugmyndir orðnar viðurkenndar og á stefnuskrá annarra flokka.


Við buðum fram í fyrsta sinn til Alþingis árið 2013 og fengum þrjá fulltrúa. Strax árið eftir fengum við Pírata í borgarstjórn. Þetta vissi á gott þó litlir væru peningarnir og fáir fulltrúarnir.

Ferskir vindar með nýjar hugmyndir og von í hjarta spáðum við í framtíðina, netið, stafræn höfundarréttarmál, opinn hugbúnað og opin skjalasnið, uppljóstrara, tjáningar- og upplýsingafrelsi, spillingu, nýjar lausnir við fíknivanda, flóttamenn og margt fleira sem enginn annar þorði að tala um.

Grunnstefnan okkar er klassísk, stendur ávallt fyrir sínu, er og verður hornsteinn Pírata. Þess utan höfum við eflt og víkkað út stefnur og strauma félagsins í þessi tíu ár og ég er sérstaklega stolt af menntastefnunni okkar og sjávarútvegsstefnu.

Við höfum vaxið frá því að vera óskipuleg hreyfing sjálfboðaliða í skipulagða stjórnmálahreyfingu með starfsfólki og sjálfboðaliðum. Píratar eru alltaf að reyna að gera betur því við gerum okkur manna best grein fyrir því að ekkert er fullkomið. Gagnrýnin hugsun. Við megum ekki staðna. Við megum ekki verða að stofnun með úreltar hugmyndir. Það er víst nóg til af þeim. Verum áfram ferskir vindar með nýjar og róttækar hugmyndir.

Það hefur auðvitað ýmislegt gengið á eins og í bestu fjölskyldum. En við megum vera stolt af árangrinum. Við fjölgum sífellt fulltrúum okkar á Alþingi og í sveitarstjórnum. Og við megum vera afar stolt af öllum okkar kjörnu fulltrúum á þessum tíu árum, fulltrúum í okkar innra starfi, grasrótinni og starfsfólki.

Ég er svo þakklát að hafa notið þeirra forréttinda að fá að vera með í þessu ævintýri, kynnst ykkur, unnið með ykkur, hlegið og grátið með ykkur, tekist á við ykkur, eignast vini og óvini og þykir vænt um ykkur öll.

Við stofnun félagsins átti þessi texti Charles Dickens vel við og á reyndar enn betur við núna:

„It was the best of times, it was the worst of times, it was the age of wisdom, it was the age of foolishness,“

CHARLES DICKENS

Til hamingju með 10 ár af Pírötum íslenska þjóð.

Innilega til hamingju með afmælisárið Píratar.
Við erum komin til að vera! Ég er strax farin að skipuleggja tvítugsafmælið.


Álfheiður Eymarsdóttir, Pírati.

Höfundur er bæjarfulltrúi Áfram Árborgar. Áfram Árborg er listi Pírata, Viðreisnar og óháðra.

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here