Píratar XP

Yfirlýsing frá Stjórn Ungra Pírata – Rafrettur

Yfirlýsing frá stjórn Ungra Pírata vegna forgangsröðunar heilbrigðisráðherra í heilbrigðismálum og fráleitra tillagna um rafrettur:

Stjórn Ungra Pírata lýsir yfir miklum áhyggjum af forgangsröðun og áherslum heilbrigðisráðherra í heilbrigðismálum. Þá kemur það okkur algjörlega í opna skjöldu að heilbrigðisráðherra vilji að rafrettur heyri undir sömu lög og almennt tóbak.

Það er af mörgum stórum málum að taka í heilbrigðiskerfinu, en frá árinu 2003 hefur fjársvelti og niðurskurður verið lýsandi fyrir stefnu stjórnvalda. Yfirlýsingar Óttarrs Proppé um að engar stefnubreytingar verði frá þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað veldur stjórn Ungra Pírata áhyggjum og við skorum á ráðherra að einbeita sér að því að auka gæði heilbrigðisþjónustunnar, tryggja velferð sjúklinga og ánægju heilbrigðisstarfsfólks, eins og Píratar lögðu til í aðdraganda alþingiskosninga 2016.

Því miður virðist ráðherrann hafa kosið að eyða tíma sínum í önnur mál og eru rafrettur dæmi um slíkt. Þrátt fyrir að rannsóknir bendi til þess að svokallaðar rafrettur séu mun áhættuminni kostur heldur en venjulegar sígarettur hefur ráðherrann lýst því yfir að hann vilji flokka þær með hefðbundnu tóbaki. Við fordæmum þessa vanhugsuðu forræðishyggju, sem mun væntanlega leiða til þess að færri láti af reykingum en ella og mun því ekki draga úr krabbameinstilfellum. Læknar hafa kallað eftir skýrum reglum, en ekki því að eitt helsta hjálpartæki fólks sem vill hætta að reykja verði hækkað í verði, gert óaðgengilegra og úthýst úr almannarými á svipaðan hátt og hefur verið gert með sígarettur sem þátt í tóbaksvörnum.

Ungum Pírötum þykir þessi tillaga heilbrigðisráðherra bera vott um slaka forgangsröðun í heilbrigðismálum og dómgreindarleysi þegar kemur að skaðminni valkostum í stað tóbaks.

Við fordæmum þessa tillögu og skorum á ráðherra að kynna sér rannsóknir í tóbaksvarnarmálum betur og forgangsraða rétt í heilbrigðismálum.

Stjórn Ungra Pírata
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Ásmundur Guðjónsson
Jóhanna Gísladóttir
Karl Héðinn Kristjánsson
Viktor Orri Valgarðsson

Sýnum sam­stöðu fyrir bæinn okkar!

Þá eru kosningar afstaðnar, við Píratar og óháðir þökkum þeim sem studdu okkur kærlega...

Mótaðu framtíðina með þínu atkvæði

Hugsjónin hefur fært mig á lendur borgarpólitíkur eftir að hafa unnið undanfarin fimm ár...

Þegar spennan trompar sann­leikann

Kosningabarátta getur tekið á taugarnar. Frambjóðendur þjóta um allan bæ á hina ýmsu viðburði,...

Innviðauppbygging fyrir rafbíla

Nýskráðir bílar á árinu eru um 4.000 á Íslandi og þar af eru 37%...

Eru 4.300 í­búar Kópa­vogs hunsaðir?

Fjölmenningarráð hafa verið sett á fót í mörgum stórum og smáum bæjarfélögum. Þar má...
X
X
X