Array

Virkar varnir gegn spillingu

Virkjum varnir gegn spillingu

Spilling á hvorki að líðast í stjórnkerfinu né annars staðar í samfélaginu. Í fámennu samfélagi eins og Íslandi er mikil hætta á frændhygli, hagsmunaárekstrum og greiðasemi sem er þjóðhagslega mikilvægt að girða fyrir. Spilling kostar samfélagið háar fjárhæðir á hverju ári og leiðir til þess að almannagæði eru færð úr sameiginlegum sjóðum í vasa hinna fáu. Á undanförnum árum hefur íslenskum stjórnvöldum ítrekað verið bent á fjölmarga galla í stjórnkerfi og löggjöf landsins og að ekki hafi verið gert nóg til að koma í veg fyrir spillingu og efla heilindi hjá æðstu valdhöfum. Við Píratar viljum grípa til fjölþættra og tafarlausra aðgerða til að efla varnir og berjast gegn spillingu.

Varnir gegn hagsmunaárekstrum

Píratar ætla að endurskoða siðareglur ráðherra og starfsfólks stjórnarráðsins, setja á fót sjálfstætt eftirlit með þeim og innleiða viðurlög við alvarlegum brotum. Samræma þarf reglur um hagsmunaárekstra opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa, bæði á þingi og í sveitarstjórnum, til að koma í veg fyrir óæskileg áhrif hagsmunaaðila á opinbera ákvarðanatöku. Við ætlum að taka lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds til heildarendurskoðunar og stoppa í þau göt sem núverandi stjórnarmeirihluti skildi eftir.

Tengslin upp á borð

Við munum tryggja að hagsmunaskrár valdhafa séu réttar, tæmandi og aðgengilegar og viljum setja viðurlög við rangri hagsmunaskráningu, auk þess að útvíkka skilgreiningu hugtaksins hagsmunavörður. Við viljum einnig lækka lágmarks andvirði gjafa sem skrá þarf í opinbera hagsmunaskrá og samræma reglur sem gilda um gjafir til þingmanna og æðstu stjórnenda innan stjórnarráðsins.

Endurskoðum reglur um útboð

Innleiða þarf skýrar og samræmdar reglur um framkvæmd útboða. Setjum hámark á hversu mikið má versla við einstaka aðila án útboðs og komum þannig í veg fyrir ítrekuð viðskipti rétt undir útboðsmörkum.

Eftirlit og rannsóknir

Eftirlitsstofnanir eiga að hafa valdheimildir, mannskap og fjármagn til að taka á valdníðslu og spillingu, jafnt hjá hinu opinbera sem og í einkageiranum. Við munum byggja upp eftirlitsstofnanir eftir markvisst niðurrif undanfarinna ríkisstjórna, með sérstaka áherslu á stofnanir sem rannsaka spillingu, efnahagsbrot, skattsvik, samkeppnisbrot og peningaþvætti. Við viljum auka fjárveitingar til héraðssaksóknara og efla einnig stofnanir á borð við Samkeppniseftirlitið, Ríkisendurskoðanda, Fiskistofu, umboðsmann Alþingis, Persónuvernd, Skattinn, Neytendastofu og endurreisa Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins og sjálfstæðan skattrannsóknarstjóra.

Rannsóknir á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og spillingu í íslenskum sjávarútvegi, hérlendis og erlendis, geta ekki beðið lengur. 

Uppljóstranir

Við ætlum að efla vernd uppljóstrara með endurskoðun á núgildandi lögum, þar sem íþyngjandi skilyrði gagnvart uppljóstrurum eru felld úr gildi. Við ætlum að koma í veg fyrir að þau sem ljúka störfum hjá eftirlitsstofnunum fari beint til starfa fyrir þær stofnanir og fyrirtæki sem þau höfðu eftirlit með.

Gagnsæi

Píratar vilja heildstæða stefnu um aukið gagnsæi í opinberri stjórnsýslu, þar sem m.a. verði kveðið á um skipan embættis gagnsæisfulltrúa. Öll gögn hins opinbera sem snerta ekki persónugreinanlega hagsmuni einstaklinga ættu að vera aðgengileg og ókeypis hverjum sem er.

Upplýsingagjöf hins opinbera

Innleiðum upplýsingahyggju í stað leyndarhyggju hjá hinu opinbera. Stjórnvöld eiga að svara spurningum samkvæmt upplýsingalögum og leggja áherslu á meira gagnsæi en minna. Stjórnvöld eiga að útvega fjölmiðlum þær upplýsingar sem þeir kalla eftir, þegar þeir kalla eftir þeim. Endurskoðum og samræmum starfsreglur upplýsingafulltrúa hins opinbera í þá vegu.

Gjaldfrjálsar upplýsingar

Höldum áfram að auka aðgengi að opinberum skrám ríkisins, t.d. fyrirtækjaskrá og hluthafaskrá, og gerum þær aðgengilegar öllum án endurgjalds. Aðgangur að Stjórnartíðindum og Lögbirtingarblaði á að vera án endurgjalds.

Eftirlitshlutverk Alþingis

Festa þarf  í lög sannleiksskyldu ráðherra og setja viðurlög við því að ljúga að þinginu eða að halda frá því upplýsingum og skýrslum af ásettu ráði. Við viljum gera nefndarfundi Alþingis opna að jafnaði og gefa fastanefndum þingsins heimild til að kveða fólk til skýrslugjafar. Fjölga þarf aðhaldsverkfærum Alþingis með störfum ráðherra. Við viljum tryggja fjármagn til umboðsmanns Alþingis fyrir frumkvæðisrannsóknir, aukum vægi eftirlitsheimilda umboðsmanns og gefa honum heimild til að beina fyrirmælum til stjórnvalda.

Aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds

Ráðherrar ættu ekki sitja á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Við Píratar ætlum að sjá til þess að samskipti ráðherra, eins og símtöl og fundir, séu skráð og að fundardagbækur ráðherra séu uppfærðar í rauntíma. Snúa þarf við þróun undanfarinna ára þar sem Alþingi hefur í auknum mæli starfað sem stimpilstofnun ríkisstjórnarinnar, frekar en sjálfstæður handhafi löggjafarvalds. Við ætlum einnig að vinna að því að brot ráðherra í starfi sæti rannsókn frá handhöfum ákæru- eða lögregluvalds.

Einkaaðilar

Koma þarf í veg fyrir spillandi áhrif fjársterkra einkafyrirtækja á valdhafa. Við Píratar viljum auka eftirlit og efla spillingarvarnir til að stöðva mútubrot og tryggja að til staðar séu skýr viðurlög fyrir greiðasemi í þágu einstakra fyrirtækja. Við leggjum til auknar gagnsæiskröfur á fyrirtæki utan markaðar sem ná ákveðinni skilgreindri lágmarksstærð. Auka skal gagnsæi um samninga einkafyrirtækja við íslenska ríkið með því að setja á fót óháð endurskoðunarferli.

Löggæsla

Píratar vilja  nægjanlegt og fyrirsjáanlegt fjármagn til lögreglu. Einnig þarf nægjanlegt fjármagn til varnar spillingu og hagsmunaárekstrum innan lögregluembætta. Stöðva skal pólitísk afskipti af störfum lögreglu og auglýsa allar stöður innan lögreglu og ráðið sé í stöður byggt á hæfni. Við viljum setja gagnsæja ferla í kringum endurráðningar og innleiðum reglur gagnvart lögreglumönnum sem koma í veg fyrir að lögreglumenn verði strax ráðnir til starfa hjá aðilum þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....