Dóra Björt í Sprengisandi á Bylgjunni
„Það er algjörlega ljóst að við viljum hækka lægstu laun og stytta vinnuvikuna. Því hefur verið rækilega komið til skila til samninganefndarinnar sem situr í okkar umboði. Við teljum óboðlegt að fólk í fullri vinnu geti ekki lifað af laununum sínum,“
sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík og formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, í Sprengisandi á Bylgjunni í gær.
Dóra Björt var gestur umræðuþáttarins ásamt Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, og Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumanni hjá Samtökum atvinnulífsins. Umræðuefnið var kjarabarátta verkalýðsfélaga og þá með áherslu á baráttu stéttarfélagsins Eflingar gegn Reykjavíkurborg.
Fagnar upprisu láglaunastéttarinnar!
Dóra bætti því við að störf þyrftu að vera metin að verðleikum og Íslendingar þyrftu að breyta verðmætamati sínu.
Hún sagðist standa með láglaunafólki og fagnaði því að fá að verða vitni að upprisu láglaunastéttarinnar á Íslandi. Hún nefndi það þó að henni fyndist að Efling væri að gera Reykjavíkurborg að burðarlið í sinni kjarabaráttu með öllum þeim hita og þunga sem því fylgir. Spurð hvort henni fyndist það ósanngjarnt neitaði hún því og sagði það klókt því borgin væri líklegasti aðilinn til að hlusta á kröfur Eflingar.
Dóra Björt skrifar ennfremur á Facebook síðu sinni “Ég fagna öflugri verkalýðshreyfingu, upprisa láglaunafólks var orðin tímabær.”
Hægt er að hlusta á allan Sprengisandsþáttinn hér: https://www.visir.is/k/9df1bb9f-a050-49ea-afe0-7f5c252ab5d1-1581245395601