Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn í Samherjamálinu, var ómyrkur í máli í beinni vefútsendingu Pírata í dag. Honum líst ekkert á þróunina í íslensku samfélagi og telur að ofbeldi valdamikilla aðila, eins og Samherja, gegn gagnrýnendum sínum muni aðeins aukast. Ríkisstjórnin hafi algjörlega brugðist í viðbrögðum sínum við Samherjamálinu og það þurfi að skipta um kúrs ef ekki á illa að fara.
Jóhannes var gestur Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, í beinni útsendingu í dag. Þar ræddu þau Samherjamálið, afhjúpanir síðustu daga og meðvirknina með spillingu í íslensku samfélagi. Jóhannes þekkir vel til Samherja, en hann starfaði lengi fyrir fyrirtækið í Namibíu.
Stundin og Kjarninn hafa að undanförnu varpað ljósi á hegðun hinnar svokölluðu „Skæruliðadeildar“ Samherja. Meðlimir hennar beittu margvíslegum brögðum, í krafti hagnaðarins af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, til að ráðast gegn öllum þeim sem voru Samherja ekki þóknanleg- með vilja og velvild æðstu stjórnenda Samherja.
Ríkisstjórnin algjörlega brugðist
Þannig sat Skæruliðadeildin um Helga Seljan, fréttamann RÚV, og beitti sér gegn frambjóðendum í formannskjöri Blaðamannafélagsins og prófkjöri stjórnmálaflokks. Þar að auki hlutuðust Skæruliðarnir til um fréttaflutning í Færeyjum og voru í beinum samskiptum við sjávarútvegsráðherra um hvernig ætti að klekkja á mökum pólitískra andstæðinga. Þrátt fyrir þessa aðför Samherja gegn gervöllu gangverki lýðræðisins, sem Píratar hafa mótmælt af krafti frá því að Samherji var fyrst afhjúpaður haustið 2019, hefur ríkisstjórnin algjörlega brugðist að mati Jóhannesar.
„Þetta mun enda illa. Við erum komin á mjög hættulegan stað í þessu þjóðfélagi. Menn fara bara eins langt og þeir vilja. Ríkisstjórnin er ekki að leggja línurnar.“
Í því samhengi nefnir Jóhannes að Skæruliðasveitin hafi rakið ferðir Helga Seljan. Jóhannes segir að hann sé búinn að tilkynna þessar njósnir Samherja til lögregluyfirvalda í Namibíu. „Þarna er mjög alvarlegt mál í gangi og það hlýtur að verða rannsókn á þessu,“ segir Jóhannes.
Ríkisstjórnin ýti undir ofbeldið
Ríkisstjórnin hafi einnig brugðist í viðbrögðum sínum í málinu. „Það hefur margoft komið fram að sjávarútvegsráðherra er Samherjamaður inni í ríkisstjórninni. Hvað er gert? Maður myndi nú halda að forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins myndu nú kalla hann inn og láta hann segja af sér,“ segir Jóhannes. Sjávarútvegsráðherra situr hins vegar enn sem fastast. „Þetta er dæmi um það hvað fólk kemst upp með allt.“
Jóhannes segir að þetta aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar ýti undir ofbeldi. „Þetta er ekkert nema ofbeldi gegn Helga Seljan og mörgu öðru fólki hér. Það er verið að gefa fólki lausan tauminn og skotleyfi á þessa aðila,“ segir Jóhannes. „Eins og ég sagði áðan: Þetta fer ekki vel. Það verður að sýna að hér sé verið að taka á málunum – sýna að það séu einhverjir sem stjórna í landinu.“
„Þetta er komið á mjög hættulega braut. Þú veist aldrei hverju fólk tekur upp á þegar það er látið eins og þetta sé í lagi. Það er búið að „normalísera“ glæpsamlega hegðun.“
Jóhannes segist hafa miklar áhyggjur af íslenskri stjórnsýslu. Vísar hann þar til þeirra áfellisdóma sem sjá má í nýlegum úttektum OECD og GRECO: Varnir gegn spillingu og peningaþvætti eru í skötulíki á Íslandi. Ekki bæti úr skák að ríkisstjórnin hefur að undanförnu leyft mikilvægum eftirlitsstofnunum að grotna niður; eins og Umboðsmann Alþingis, Fjármálaeftirlitið og Skattrannsóknarstjóra. Fyrir vikið hefur ekki verið hægt að taka á öðrum stórum málum, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki gefið þessum stofnunum stuðninginn sem þær kalla eftir.
Upptökuna af fundi þeirra Jóhannesar og Þórhildar, þar sem hann m.a. hrósar Pírötum fyrir framgöngu sína í Samherjamálinu, má sjá hér að ofan.