Við erum framtíðin

evagunnar

Nú, þegar er einungis rúm vika til kosninga, eru stjórnmál í brennidepli í fjölmiðlum. Stjórnmálaflokkarnir keppast við að ná til sem flestra kjósenda og fylla huga þeirra loforðum sem staðið verður við eftir kosningar – mögulega kannski, ef ekki þá er alltaf hægt að bera fyrir sig pólitískan ómöguleika. Þetta virðist hafa verið viðurkenndur leikvöllur stjórnmálamanna hingað til. Núna viljum við hins vegar breyta leikreglunum og, í framhaldinu, leikvellinum í heild sinni. Píratar eru flokkur sem boðar nýja nálgun á stjórnmál þar sem gagnsæi og upplýst ákvörðunartaka eru í fyrirrúmi. Við viljum efla borgararéttindi og færa valdið aftur til fólksins. Því er mikilvægt að fólkið kjósi sér fulltrúa inn á þing sem munu hlusta á það sem almenningur hefur að segja. Þetta er sérstaklega mikilvægt á landsbyggðinni, sem hefur oft á tíðum vantað talsmenn. Landsbyggðin er vissulega fámennari heldur en höfuðborgarsvæðið en hefur að geyma gríðarleg verðmæti fyrir land og þjóð. Það er mjög mikilvægt að styðja vel við byggðarlög á landsbyggðinni og sporna við þeim gífurlega fólksflótta sem hefur orðið þaðan. Oft á tíðum er ungt fólk tilneytt til þess að leita til höfuðborgarinnar ef það vill sækja sér sérhæfðar menntunar en myndi gjarnan vilja, að námi loknu, snúa aftur til heimabyggðar og setjast þar að til framtíðar með fjölskyldur sínar. Hins vegar getur lélegt aðgengi að grunnþjónustu og störfum haft mikil áhrif á þá ákvörðun.

Við sem skipum baráttusæti Pírata í Norðvesturkjördæmi erum þessu kunnug af eigin raun.

Eva Pandora Baldursdóttir skipar 1. sæti listans en hún er fædd og uppalin í Skagafirði og hefur búið þar stærstan hluta ævi sinnar að frátöldu einu ári erlendis og sex árum í Reykjavík til þess að sækja sér háskólamenntunar. Að námi lokni snéri hún aftur í heimabyggð og hefur nú stofnað þar fjölskyldu. Þó svo að yndislegt sé að hafa snúið aftur heim er ýmislegt sem mætti vera betra. Heilbrigðiþjónustu er verulega ábótavant þar sem heilsugæslur hafa of lengi verið fjársveltar og geta þar af leiðandi ekki sinnt grunnþjónustu sem ætti að vera til staðar í þéttbýli. Oft á tíðum hafa þessar heilsugæslur góða aðstöðu og jafnvel starfsfólk á staðnum til þess að sinna þessum verkefnum sem vantar en skortir einungis fjármagnið. Ef ungt fólk þarf að sækja langt til þess að verða sér úti um aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu á borð við aðgang að fæðingardeild, ungbarnavernd o.fl. er eðlilegt að hugsa sig tvisvar um áður en festar eru rætur. Ef ekki er hægt að stofna og ala upp fjölskyldu í byggðarlagi án þess að þurfa að fara í langar, og oft hættulegar, ferðir yfir fjöll og firnindi í öllum veðrum hefur eitt af skilyrðum öruggrar búsetu á landsbyggðinni brostið.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson skipar 2. sæti listans en hann er búsettur á Ísafirði ásamt unnustu sinni en þau eiga von á barni í vetur. Gunnar er menntaður vél- og skipstjórnarmaður og hefur hann starfað seinustu þrjú ár í strandveiðikerfinu með sína eigin útgerð. Hann þekkir því af eigin raun hversu erfitt er að stunda þessa atvinnu sér til lífsviðurværis í núverandi sjávarútvegskerfi. Hægt er að líta á það sem ákveðinn erfðarétt Íslendinga að geta stundað sjó sér og sínum til lífsviðurværis og með því að festa þennan rétt í sessi breytum við vaxtarskilyrðum smærri þéttbýliskjarna við strendur landsins. Þegar einstaklingum er aftur gert mögulegt að nýta þennan erfðarétt sinn og stunda sjó eflir það og glæðir byggðarlagið og stuðlar að aukinni atvinnuuppbyggingu og þar af leiðandi verður fýsilegra fyrir ungt fólk að snúa aftur heim.

Við erum ungt fólk af landsbyggðinni sem stefnum á Alþingi til þess að breyta stjórnkerfinu til hins betra og stuðla að uppbyggingu landsbyggðarinnar. Við þurfum ekki að spyrja okkur hvað unga fólkið myndi mögulega vilja til þess að snúa aftur heim. Við erum unga fólkið. Við erum framtíðin.