Varðhundarnir gelta

Einar Brynjólfsson og Guðrún Ágústa Þórdísardóttir skrifa:

gudrunagustaÓhætt er að segja að aukinnar hræðslu við Pírata sé farið að gæta í herbúðum gamalgróinna stjórnarflokka, nú þegar kosningar til Alþingis eru á næsta leiti. Óttaslegnir varðhundar kerfisins geysast fram á ritvöllinn og finna Píratahreyfingunni allt til foráttu. Rök á borð við litla þátttöku í prófkjörum Pírata, að fáir séu á bakvið hin snautlegu stefnumál þeirra, að þeir séu eins máls flokkur og að þeir séu á móti höfundarrétti eru tínd til, svo eitthvað sé nefnt.

 

 

 

Þeir sem nenna að kynna sér málin sjá ansi fljótt í gegnum þessi rök. Píratar eru lítill flokkur en einar-frambá honum hvíla miklar væntingar. Það er alveg sama hvað nafni minn Kárason hamast, innblásinn af æsingi Sturlungaaldar, þá eru Píratar ekki á móti höfundarrétti. Það þarf bara að breyta honum með afgerandi hætti í samræmi við nýja tíma. Vonandi skilur hann, þegar honum er runninn móðurinn, að friðhelgi einkalífs er ein af grunnstoðum borgararéttinda sem ekki má hrófla við.

Píratar hafa svo sannarlega mörg stefnumál, mismikið útfærð. Píratar setja nýja stjórnarskrá í öndvegi, stjórnarskrá sem 62,4 % kjósenda vildu að yrði tekin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Á grundvelli nýrrar stjórnarskrár vilja Píratar innleiða ýmis nýmæli á borð við beint lýðræði, varnagla gegn spillingu stjórnmálamanna, breytingar á gjaldi fyrir auðlindirnar, sem mætir andstöðu útvalins hóps við kjötkatlana, og svo mætti lengi telja. Varðhundarnir geta kynnt sér þau, ef þeir hafa áhuga, og þeir geta líka sleppt því og haldið áfram að gelta.

Það sem skilur Pírata frá öðrum stjórnmálaflokkum, litlum sem stórum, eru lýðræðisleg vinnubrögð. Atkvæði allra gilda jafnt, sama hvort um er að ræða þingmenn eða óbreytta félagsmenn. Gaman væri að vita hvernig þau mál standa hjá þeim flokkum, sem fjármagna starfsemi sína með styrkjum hagsmunaaðlila, t.d. í sjávarútvegi. Hjá Pírötum er engin miðstjórn eða landsfundur elítunnar, sem tekur mikilvægustu ákvarðanirnar. Grasrótin gerir það alltaf, hvort sem um er að ræða stefnumál, lagabreytingar eða prófkjör, jafnvel þótt fáir taki þátt. Lýðræðið er þeirra sem taka þátt.

Rétt eins og hundar í sveit gelta þegar fólk ber að garði, gelta varðhundar kerfisins hátt og snjallt þegar Pírata ber að garði. Varðhundarnir skynja, rétt eins og þeir sem etja þeim fram, að breytingar eru í aðsigi. Ef Íslendingar bera gæfu til að kjósa Pírata til forystu í næstu Alþingiskosningum mun hrikta í feysknum og fúnum stoðum gamla spillingarkerfisins. Gæðingar valdhafanna munu þurfa að taka föggur sínar, kerfum verður kollvarpað og hagsmunaöflum verður úthýst.

Já, þeir hafa fulla ástæðu til að gelta, varðhundar kerfisins.

Höfundar skipa efstu sæti á framboðslista Pírata í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar, sem eru fyrirhugaðar 29. október næstkomandi.