Ungir Píratar mótmæla ólýðræðislegum vinnubrögðum við sameiningu FÁ og Tækniskólans

Ungir Píratar, Ungir Jafnaðarmenn, Ung vinstri græn, Jæja-hópurinn, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Nemendafélag FÁ stóðu í dag fyrir mótmælum gegn ólýðræðislegu vinnubrögðum menntamálaráðherra við fyrirhugaða sameiningu FÁ og Tækniskólans.

Opin umræða um mikilvægar breytingar á samfélagi okkar er grunnstoð lýðræðisins. Menntakerfið þarf alvöru stefnumótun og fyrirsjáanleika. Samráð þarf að hafa við stórar breytingar.

Mótmælendur kröfðust þess að einkavæðingaráform, eins og hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarið um sameiningu FÁ og Tækniskólans, fari í gegnum lýðræðislega ferla til að tryggja gæði menntakerfisins og hag nemenda og kennara. Óásættanlegt þykir að það sé reynt að koma svo stórum breytingum í gegn án almennilegrar umræðu, samráðs við nemendur og starfsfólk skólans og meðhöndlun þings.

Margmenni hittist á Austurvelli kl. 15. Ávörp voru flutt af nefndarmönnum allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, þeim Birni Leví Gunnarssyni þingmanni Pírata og Andrési Inga Jónssyni þingmanni VG. Aðrir sem héldu ávörp voru Róbert Örvar Ferdinandsson, kennari í FÁ, Ísabella Ýrr Hallgrímsdóttir og Magnús Friðrik Guðrúnarson, fulltrúar nemenda FÁ. Fundarstjórn var í höndum Söru Oskarsson formanni Jæja-hópsins og varaþingmanns Pírata og Dagný Halla Ágústsdóttir, tónlistarkona og formaður Ungra Pírata á Suðurnesjum, flutti tónlist.

Hér eru fleiri myndir frá mótmælunum.