Ungir Píratar lýsa yfir áhyggjum vegna fyrirhugaðrar sameiningar FÁ og Tækniskólans

Ungir Píratar hafa miklar áhyggjur af starfsháttum ráðherra varðandi áformaða sameiningu Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskólans.

Í síðustu viku kom fram í fréttum RÚV að Mennta- og menningarmálaráðuneytið hyggist sameina FÁ og Tækniskólann. Þingmenn fengu fyrst að vita af þessu í fjölmiðlum og svo virðist sem ráðherra hafi leynt þessum aðgerðum á fundi Allsherjar- og menntamálanefndar. Ráðherra heldur því fram að með þessum aðgerðum sé hann að bregðast við fækkun nemenda á framhaldsskólastigi en meðlimir ríkisstjórnarinnar hafa annars tjáð sig afar lítið um málið. Við minnumst þess að regla hafi nýlega verið sett sem takmarkar aðgang þeirra sem eru 25 ára og eldri að framhaldsskólanámi, með þeim rökum að það sé ekki nóg pláss í skólum landsins. Við viljum benda ríkisstjórninni á að þar sem þeim þykir nú vera of lítið af nemendum sé einfaldlega hægt að hleypa þessum hópi aftur inn og þar með slá tvær flugur í einu höggi.

Mikilvægt er að aðgerðir af þessu tagi séu framkvæmdar á lýðræðislegan, faglegan og gagnsæjan hátt með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Okkur þykir með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn skuli þurfa að reiða sig á slík vinnubrögð þrátt fyrir meirihluta ríkisstjórnarinnar á þingi og að hinir stjórnarflokkarnir skuli sætta sig við slíkt eftir ítrekuð loforð um bætt vinnubrögð.

Okkur þykir viðbrögð ríkisstjórnarinnar vera til skammar, en á þingfundi eftir uppljóstranir fjölmiðla deildu þingmenn þeirra engum nýjum upplýsingum og ráðherrar þögðu. Krefjumst við þess að hún rökstyðji mál sitt og verji aðgerðir sínar fyrir Alþingi og fyrir almenningi vegna þess að á Íslandi á að vera þingræði og grundvöllurinn að því er að þingið sé upplýst um starfsemi ríkisins og geti veitt ráðherrum aðhald.