Baptistaprestur, uppistandarar og gjörningar verða í opinni vísindaferð Ungra Pírata föstudaginn langa næstkomandi, 14. apríl. „Ungir Píratar telja það tímaskekkju að ríkið segi fólki til um hvað það geri í frítíma sínum. Það er í góðu lagi að lögvernda frí, við viljum frí og helst fleiri frídaga, og það er ekkert að því að hafa þá um páska, en að segja fólki að það megi ekki hittast og skemmta sér á föstudaginn langa er eins og að segja að ekki megi borða á Ramadan.“ segir Ásmundur Guðjónsson varaformaður Ungra Pírata. „Við teljum tímabært að breyta íslenskum lögum um helgidaga, leyfa skemmtanahald, bingó og þess háttar á helgidögum.“
Viðburðurinn stendur frá klukkan 20:30 til 22:30 á föstudagskvöldið í höfuðstöðvum Pírata að Síðumúla 23. Ungir Píratar vilja með þessu hjálpa fólki að komast í gírinn fyrir djammið um leið og það verður leyfilegt. Ungir uppistandarar og prestar munu vera með erindi, en viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Vantrú. Vantrú lýsir með þessu ekki yfir stuðningi við Pírata heldur fylgir þeirri stefnu sinni að vera í samstarfi með öllum félagasamtökum sem vilja stuðla að afnámi laga sem banna skemmtanahald á helgidögum.
Í yfirlýsingu frá Ungum Pírötum kemur í fram að öllum er frjálst að koma og taka þátt. Bjór verður í boði svo lengi sem birgðir endast en fólk hvatt til að koma með sínar eigin veigar, áfengar eða óáfengar. Þeir sem vilja vera með erindi geta verið í samband við Unga Pírata, hvort sem það er hugvekja um trúfrelsi eða bara gott grín.
Frekari upplýsingar um viðburðinn má finna á Facebook: https://www.facebook.com/events/203612363475481/