„Þetta eru ánægjuleg tíðindi og marka tímamót í samgöngumálum í Reykjavik,” segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fyrr í dag samþykkti borgarstjórn tillögu meirihlutans í borginni um að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja vinnu sem tryggir framgöngu borgarlínu sem hágæða almenningssamgangna í Reykjavík. Borgarlína er samgöngukerfi með hraðvögnum sem fara um sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
Píratar lögðu mikla áherslu á borgarlínu fyrir kosningarnar í vor, sögðu það algjört lykilatriði að efla almenningssamgöngur og í því skyni yrði að byggja upp borgarlínu. Öflugur hópur úr grasrót flokksins á höfuðborgarsvæðinu tók þátt í að vinna nýja samgöngustefnu þar sem tilgreint var að auka þurfi þjónustu Strætó, tengja strætisvagnakerfið við Borgarlínu og stytta ferðatíma fólks sem notar strætó.
„Þar er Borgarlína hryggjarstykkið í framtíðarþróun samgangna og húsnæðisuppbyggingu í borginni. Hún er grundvallarforsenda þess að breyta ferðavenjum og jafna möguleika allra á aðgengi að öruggum, ódýrum og vistvænum samgöngum,” segir í greinargerð með samgöngustefnu Pírata í Reykjavík.
Þau verkefni sem nú liggja fyrir umhverfis- og skipulagssviði eru samkvæmt samþykktinni eru:
- Klára breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 með samgöngu- og þróunarásum fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna – Borgarlínu.
- Hefja skipulagsvinnu rammaskipulags fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna í sérrými með austur-vestur tengingu frá Lækjartorgi upp á Ártúnshöfða og norður-suður tengingu um Vatnsmýri. Drög verði tilbúin í vor og tillaga verði tilbúin næsta haust.
- Áætlun og eftir atvikum skipulagsvinnu fyrir fjölbreytta húsnæðisuppbyggingu meðfram þróunarásum borgarlínu, sem verði unnin samhliða.
- Tillögur að reitum innan áhrifasvæðis hágæða almenningssamgangna þar sem unnið er sérstaklega með hagkvæmar og nútímalegar lausnir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.
Samþykktina má lesa hér:
Nánari upplýsingar um borgarlínu:
Mynd: Efstu konur á lista Pírata í Reykjavík fyrir kosningar. F.V. Vala Árnadóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Alexandra Briem og Dóra Björt Guðjónsdóttir. Á myndina vantar Rannveigu Ernudóttur sem skipaði 4. sæti á lista Pírata í Reykjavík.