Tilkynning um lagabreytingartillögur


Í samræmi við grein 6.3 í lögum Pírata skulu tillögur að lagabreytingum liggja opinberlega fyrir í tvær vikur áður en kosið er um þær. Eru þær því birtar hér.

Tillaga:

Frambjóðendur til framkvæmdaráðs skulu vera virkir meðlimir Pírata
eins og þeir eru skilgreindir lögum þessum samkvæmt.


Tillaga:

Greiðslur til meðlima framkvæmdaráðs eru einungis heimilar vegna
skýrt afmarkaðra verkefna þar sem tilgangur og upphæðir liggja fyrir.
Slíkar greiðslur eru einungis heimilar með samþykkt meðlima félagsins í
atkvæðagreiðslu.


Tillaga:

Grein 3.2 skal orðast svo:
Félagatal skal teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga og skal meðhöndlun þess vera í samræmi við landslög. Aðildarfélög skulu eiga rétt á afriti af félagatali sínu gegn undirritun lagalega bindandi yfirlýsingar af hálfu stjórnarmanna þess um að það verði einvörðungu notað vegna starfa innan aðildarfélagsins í samræmi við lög þessi og landslög. Framkvæmdaráði er þó rétt og skylt að sjá til þess að listi yfir trúnaðarmenn félagsins og aðildarfélaga sé aðgengilegur almenningi.

Greinargerð:

Persónuverndarlög skilgreina stjórnmálaskoðanir sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Því verður að takmarka mjög bæði aðgang og notkunarheimildir á félagatali.


Tillaga:

Aftast í 3. kafla skal koma ný grein, svohljóðandi:
Eingöngu félagsmenn mega gegna trúnaðarstöðum innan félagsins og aðildarfélaga. Nú hefur félagsmaður sagt sig úr Pírötum og fellur þá umboð hans til að gegna trúnaðarstöðum innan Pírata og aðildarfélaga þess sjálfkrafa úr gildi. Sama gildir ef félagsmaður gegnir á sama tíma, samkvæmt hans samþykki, trúnaðarstöðum hjá öðrum stjórnmálaflokki. Til trúnaðarstaða telst seta í stjórnum, nefndum, ráðum eða aðrar stöður þar sem einstaklingi er treyst, stöðu sinnar vegna, fyrir upplýsingum og/eða ákvarðanatöku sem er ekki í boði fyrir almenna félagsmenn þess sama félags. Framangreind umboð falla ekki sjálfkrafa niður ef félagið er bersýnilega stofnað í þeim tilgangi að gerast aðildarfélag Pírata og tekst það innan fjögurra mánaða frá stofnun þess. Aðildarfélög skulu sjá til þess að framkvæmdaráð sé upplýst um það hvaða trúnaðarstöður eru hjá því og hverjir gegna þeim.

Aftan við grein 10.3 skal koma nýr málsliður, svohljóðandi:
Nú segir félagsmaður sig úr félaginu eða aðildarfélagi og hann gegnir trúnaðarstöðu hjá því og skal framkvæmdaráð þá tilkynna aðildarfélaginu um úrsögnina.

Greinargerð:

Í núgildandi lögum er eingöngu fyrir tvenns konar stöður þar sem skilyrt er að viðkomandi verði að vera skráður félagsmaður, sem eru framkvæmdaráð og að komast á framboðslista. Engin bein skilyrði um aðild að félaginu eru fyrir margar trúnaðarstöður eins og skoðunarmenn reikninga og úrskurðarnefnd. Í stað þess að tiltaka þetta skilyrði á hverjum stað er lagt til að þetta liggi fyrir á einum stað sem almennt skilyrði.

Lögin gera ekki beint ráð fyrir því ef félagsmaður segir sig úr Pírötum og gegnir slíkum stöðum þó það megi álykta út frá almennri venju. Þá geta komið upp aðstæður þar sem viðkomandi starfar í trúnaðarstöðum hjá tveim stjórnmálaflokkum á sama tíma og vill víkja úr hvorugri þeirra. Ekki eru alltaf úrræði til þess að víkja viðkomandi úr trúnaðarstöðu þar sem hann var löglega valinn fulltrúi félagsins. Hagsmunaárekstrarnir eru það miklir að eðlilegt væri að það gerðist sjálfkrafa eins og í þeim tilvikum þar sem tafir á brottvikningu geta skaðað hagsmuni félagsins og þeirra sem treysta á þá vinnu og ákvarðanatöku sem einhver í stöðunni þarf að leysa af hendi.

Upp á að tryggja betri framkvæmd og yfirlit er sett ákvæði sem tryggir að framkvæmdaráð hafi fulla yfirsýn yfir það hverjir gegna trúnaðarstöðum hjá aðildarfélögum. Þá er jafnframt tryggt að aðildarfélög séu ekki óafvitandi með einhverja í trúnaðarstöðum sem uppfylla ekki lengur almennu skilyrðin. Aðildarfélögum er ekki venjulega tilkynnt hverjir hafa skráð sig úr þeim en skulu fá tilkynningar ef einhver í trúnaðarstöðum hjá þeim skráir sig úr Pírötum og/eða aðildarfélaginu.


Tillaga:

Aftan við grein 4.9 skulu bætast við tveir málsliður, svohljóðandi:
Allir félagsmenn skulu hafa möguleika á aðgangi að streymi af fundinum og/eða upptöku af honum. Mættum félagsmönnum skal gert ljóst að upptökur af fundinum verða gerðar opinberar um ókominn tíma.

Greinargerð:

Aðalfundur Pírata er valdamesta fyrirbærið innan félagsins og því við hæfi að gegnsæið sé sem best. Á meðan starfsemi Pírata ætti að vera gegnsæ þarf einnig að vega það gagnvart sjónarmiðum friðhelgis einkalífs, einkum persónuverndarlögum. Farin yrði sú leið að upptaka skal vera gerð opinber en fundargestum leyft, eftir bestu getu, að forðast mögulega uppljóstrun á stjórnmálaskoðunum hans en gera honum jafnframt kleift að taka þátt á fundinum. Ósanngjarnt væri að binda seturéttinn á fundinum við samþykki yfirlýsingar um að birta megi upptöku af viðkomandi. Fólk hefur mismunandi ástæður fyrir því að vilja ekki vera tengt opinberlega við píratahreyfinguna þó það sé ekki á móti því að félagsmenn viti hvert það er.

Huga þarf að ýmsum atriðum að þessu leiti þegar kemur að fundarhaldi, eins og að myndbandsupptökum sé eingöngu beint að ræðupúlti (án þess að vera hreyfð) og að allir mælendur eigi að hafa kost á að tala í hljóðnema úr sal. Fundarstjóri ætti sömuleiðis að forðast að nefna mælendur úr sal á nafn ef hann getur en slíkt ætti augljóslega ekki við ef mælandinn er að fara að flytja framboðsræðu, gegnir formlegu hlutverki í dagskrá fundarins og/eða er þá þegar opinberlega þekktur (frá sjónarhóli almennings) sem Pírati.

Fundarhaldarar ættu að hafa sér svæði, sé aðgreiningar þörf, fyrir fundargesti sem ekki vilja lenda í upptökum af neinu tagi. Þá þarf að gæta þess að engum myndupptökum, hvort sem það eru hreyfimyndir eða kyrrmyndir, sé beint að því svæði á meðan fólk er viðstatt þar þótt það svæði sé einvörðungu í bakgrunni. Skilyrðið ætti einnig að vera sett gagnvart öðrum sem vilja taka upp.

Fundarritarar ættu einnig að taka tillit til þess að skrá ekki nöfn fólks sem talar úr sal í opinbera fundargerð. Þeir gætu, þekki þeir einhvern tiltekinn sem talar úr sal með nafni, að skrá nafn hans hjá sér utan opinberrar fundargerðar og spyrja hann síðar hvort færa megi nafn hans í hana. Sé viðkomandi opinberlega þekktur sem Pírati (frá sjónarhóli almennings), þá stundina sem aðalfundur er haldinn, er óhætt að skrá nafnið beint í opinbera fundargerð. Sé þörf á að streyma ritun fundargerðar væri hægt að gefa hverjum nafnlausa einstaklingi einkvæmt auðkenni og tengja nafn hans við auðkennið utan hennar.


Tillaga:

Í stað orðanna „samþykktar á félagsfundi“ í grein 4.16 kemur:
háðar samþykki samkvæmt kosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata, er skal standa í sjö sólarhringa.

Aftan við grein 4.16 skal bætast við málsliður, svohljóðandi:
Sé engum slíkum reglum að dreifa er hagsmunaskráning yfirlýsing viðkomandi þar sem hann lýsir helstu hagsmunum sínum þá stundina.

Greinargerð:

Núgildandi ákvæði hljóða upp á að framkvæmdaráð útfæri nánari reglur en háðar samþykki félagsfundar. Nú erum við hins vegar komin með rafrænt kerfi og tilvalið að færa ákvarðanatökuna þangað. Einnig er lögð til afar grunn lýsing á hagsmunaskráningum ef engar nánari reglur eru í boði.


Tillaga:

Aftast í 4. kafla skal koma ný grein, svohljóðandi:
Eingöngu viðstaddir félagsmenn skulu vera í slembivölum og teljast þeir vera í því nema þeir komi á framfæri yfirlýsingu um annað. Fjarstaddur félagsmaður skal þó eiga rétt á að vera í slembivali komi hann á framfæri tilkynningu til framkvæmdaráðs eða aðalfundar skýrri og ótvíræðri yfirlýsingu um að vera í því og skal þá réttilega álitið að hann samþykki þær stöður sem hann hlýtur á grundvelli þess. Eingöngu einn einstaklingur skal vera slembivalinn í einu. Nú er einstaklingur slembivalinn í stöðu samkvæmt lögum þessum, hann hefur þegar verið kjörinn eða slembivalinn í stöðuna á þeim fundi, hann afþakkar stöðuna eða uppfyllir ekki skilyrði laga þessara til þess að taka við stöðunni, og skal þá endurtaka slembivalið.

Greinargerð:

Á aðalfundi félagsins árið 2013 var samþykkt undanþága frá lögum um að hver einasta félagsmaður væri í slembivalsmenginu og í staðinn væri það takmarkað við viðstadda félagsmenn. Við hæfi er að setja það í lög og nánari ákvæði um framkvæmd svo það fari ekki milli mála.

Meginreglan verður sú að eingöngu viðstaddir félagsmenn séu í slembivali og geta þeir sagt sig úr því, kjósi þeir svo. Þá geti fjarstaddir félagsmenn skráð sig í slembivalið en þurfa að gera það á skýran og ótvíræðan hátt með tilkynningu til framkvæmdaráðs eða aðalfundar. Yfirlýsingar fjarstaddra félagsmanna verða þá túlkaðar svo að þeir samþykki allar þær stöður sem þeir eru slembivaldir í.

Sé félagsmaður viðstaddur er hann spurður hvort hann vilji stöðuna. Hafni hann stöðunni er slembivalið endurtekið. Hafi félagsmaðurinn þegar verið valinn í sömu stöðuna eða getur ekki uppfyllt lagaskilyrðin til að gegna stöðunni, þá er slembivalið endurtekið án þess að spyrja félagsmanninn. Ef staðan inniheldur þau skilyrði að hann megi ekki gegna henni á sama tíma og öðrum stöðum er eðlilegt að spyrja hann, enda getur hann uppfyllt lagaskilyrðið ef hann svo kýs. Þar að auki hefur viðkomandi ekki formlega tekið við stöðunni þar sem allar stöðubreytingar taka gildi eftir að fundinum lýkur og hefur því tækifæri til að velja.

Sú staða gæti komið upp að fjarstaddur félagsmaður er slembivalinn eða kosinn í stöðu og síðan slembivalinn í stöðu þar sem bannað er að gegna öðrum trúnaðarstöðum. Í þeim tilvikum myndi félagsmaðurinn vera útilokaður sjálfkrafa þar sem hann ekki er gert ráð fyrir að spyrja hann í tæka tíð fyrir lok aðalfundar hvora stöðuna hann vill. Það skilyrði myndi ekki virkjast ef félagsmaðurinn hefur tilgreint það sérstaklega í yfirlýsingunni að hann vilji frekar þá stöðu og myndi þar af leiðandi detta út úr þeim til að taka við þeirri sem hann var slembivalinn í. Hafi hann verið slembivalinn í þær stöður sem hann datt út væri rétt að endurtaka slembivalið fyrir þau sæti sem hann fór úr. Þegar röð skiptir máli varðandi slembival myndu þau sem eru slembivalin í staðinn raðast aftan við aðra slembivalda.


Tillaga:

Aftast í 4. kafla skal koma ný grein, svohljóðandi:
Annað hvert ár skal á aðalfundi slembivelja fimm manna kjörstjórn er tekur til starfa að loknum aðalfundi og þar til næsta kjörstjórn tekur við. Fulltrúinn sem var fyrst slembivalinn telst formaður nema kjörstjórn ákveði annað. Aðilar í kjörstjórn skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstöðum á vegum félagsins eða aðildarfélaga á meðan setu þeirra stendur. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd persónukjöra ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum. Ákvarðanir hennar skulu teknar með óháðum og óhlutdrægum hætti.

Aftast í 10. kafla skal koma ný grein, svohljóðandi:
Aðildarfélögum skal heimilt að kveða á um í lögum sínum að kjörstjórn Pírata hafi yfirumsjón með persónukjöri á vegum aðildarfélagsins. Sé heimildin nýtt skal kjörstjórn Pírata þá taka að sér það hlutverk í samræmi við lög aðildarfélagsins. Nú er kosningarferli innan aðildarfélags í gangi þegar ný kjörstjórn Pírata er valin og skal hún þá taka við framkvæmd þeirra kosninga sem í gangi eru ásamt þeim gögnum er fyrri kjörstjórn höfðu borist.

Í stað orðanna „sitjandi framkvæmdaráðs“ í grein 4.13, skal koma:
kjörstjórnar

Greinargerð:

Ýmsir hagsmunaárekstrar felast í því framkvæmdaráð sjái um móttöku framboðstilkynninga og hagsmunaskráninga og aðra meðhöndlun á persónukjöri, sérstaklega ef fulltrúarnir sjálfir huga að framboði eða eru jafnvel búnir að tilkynna það. Sama gildir um meðhöndlun framboðslista fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar.

Ekki er farin sú leið að skylda aðildarfélögin til þess að nýta kjörstjórnina og látið nægja að veita heimild til þess. Ýmsir hagræðingarkostir geta falist í því að deila kjörstjórn með þessum hætti og lækkar verulega líkurnar á hagsmunaárekstrum. Aðildarfélögin geta einnig veitt kjörstjórninni afmörkuð hlutverk sem hægt er að leysa rafrænt eða póstleiðis og haft annað fyrirkomulag fyrir atburði sem krefst mætingar á tilteknum stað og tíma.


Tillaga:

Grein 7.5 skal orðast svo:
Condorcet sigurvegari kosninganna skal vera formaður, sé hann til. Annars skal efsti fulltrúinn samkvæmt Schulze aðferðinni verða formaður. Nú lætur formaður framkvæmdaráðs af embætti og skal þá efsti starfandi fulltrúinn í röðinni verða formaður. Kjörnir fulltrúar skulu hafa rétt, fram að lokum aðalfundar, til að lækka sig um sæti en þá skulu aðrir fulltrúar hækka um eitt sæti eftir því sem við á.

Grein 7.6 skal orðast svo:
Tveir meðlimir framkvæmdaráðs skulu slembivaldir á aðalfundi, og tveir til vara. Sæti þeirra í framkvæmdaráði ræðst af röð þeirri er þeir voru slembivaldir. Slembivaldir fulltrúar skulu raðast á eftir kjörnum fulltrúum.

Greinargerð:

Sú staða gæti komið upp að formaður framkvæmdaráðs gæti hátt og þá er engin lögleg leið til þess að skilgreina hver tekur við stöðu formanns. Ákvæði laga félagsins um skiptingu verka er óleyfileg þar sem formaður er ákveðinn með hliðsjón af niðurstöðu kosninga. Með því að beita Schulze í stað STV er fenginn raðaður listi og því liggur ljóst fyrir hver arftaki formanns er. Þá veitir slíkur raðaður listi möguleika til þess að skilgreina röð varamanna.

Fyrst kjörnum fulltrúum er raðað eftir röð er rétt að gera slíkt hið sama við slembivalda fulltrúa. Þeir raðist samt á eftir kjörnum fulltrúum í röðinni. Röð slembivalinna fulltrúa væri sú röð sem þeir eru valdir. Þegar kemur að afleysingum varamanna myndu slembivaldir varafulltrúar hafa samt sem áður forgang þegar kemur að forföllum annarra slembivalinna fulltrúa.

Röðin á flokkunum yrði þessi þegar kæmi að því að ákvarða formann (hver flokkur hefur síðan sína eigin innri röð): Condorcet formaður, Kjörnir aðalfulltrúar, kjörnir varafulltrúar, slembivaldir aðalfulltrúar, slembivaldir varafulltrúar.

Ef Condorcet sigurvegarinn er ekki í fyrsta sæti, heldur í öðru sæti eða jafnvel neðar, myndi samt sem áður efsti Schulze fulltrúinn taka við embætti formanns en ekki næsti fyrir neðan formann. Því mætti segja að kjörnir aðalfulltrúar séu fremstir að því leiti en Condorcet sigurvegarinn tekinn út fyrir sviga og settur fremst óháð staðsetningu. Aðferðin útilokar ekki að Condorcet sigurvegurinn verði varafulltrúi samkvæmt Schulze aðferðinni en líkurnar eru svo stjarnfræðilega lágar að ekki borgar sig að setja sérákvæði um það.

Þá er einnig formlega lagt til að frambjóðendur geti lækkað sig um sæti en hafa þá frest til þess þar til aðalfundi lýkur. Sumir hafa áhuga til að bjóða sig fram í framkvæmdaráð en vilja tryggja að þau lendi ekki í því að verða formenn félagsins, enda miklu meiri ábyrgð falin í því en hjá öðrum aðalfulltrúum.


Tillaga:

Grein 7.7 skal orðast svo:
Slembival aðalmanna í framkvæmdaráð skal fara fram á undan kosningu kjörinna fulltrúa og slembival varamanna eftir að henni lýkur.

Greinargerð:

Ýmis tilvik geta komið upp þar sem fólk getur tekið ýmsar óvenjulegar ákvarðanir af ástæðum sem liggja ekki fyrir, en eru samt vel mögulegar. Eitt dæmi væri að kjörinn varafulltrúi í framkvæmdaráði gæti verið slembivalinn sem aðalfulltrúi og frekar viljað þá stöðu. Einnig gæti frambjóðandi í framkvæmdaráð lent í slembivalinu og frekar viljað það. Upp á að lækka líkurnar á slíkum tilfellum er betra að vera búinn að ákvarða slembivalda aðalfulltrúa áður en kosið er. Ef frambjóðandi er slembivalinn mun hann væntanlega draga framboð sitt tilbaka, þó slíkt er lagalega séð ekki skylda.

Tillagan gerir ekki beint ráð fyrir því ef kjörinn aðalfulltrúi er slembivalinn sem varafulltrúi og vill þá stöðu. Aðalfundur gæti þá samþykkt afbrigði og samþykkt að túlka úrslitin svo að neðri fulltrúar færist upp um eitt sæti. Eins ólíklegt og það er, þá er möguleiki að einhver annar komi inn sem þegar hefur verið slembivalinn og getur þá skapast flétta af ákvörðunum sem aðalfundur þarf að leysa. Líkindin eru samt það lág að lögin ættu ekki að gera sérstaklega ráð fyrir því.


Tillaga:

Aftan við grein 7.8 skulu bætast við tveir málsliðir, svohljóðandi:
Fundir framkvæmdaráðs skulu vera opnir félagsmönnum nema undir þeim liðum er fjallað er um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Slík mál skulu afgreidd í upphafi eða lok fundar, eftir því sem kostur er.

Aftan við grein 7.8 skal koma ný grein og skulu númer síðari greina breytast í samræmi, og skal hún hljóða svo:
Halda skal fundargerð fyrir hvern fund framkvæmdaráðs og skal hún birt innan hæfilegs tíma. Nú inniheldur fundargerð upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, eða af öðrum ástæðum má ekki birta samkvæmt landslögum, og skal þá samt sem áður birta fundargerðina í heild að brottföllnum þeim upplýsingum.

Greinargerð:

Almenna reglan ætti að vera að fundir framkvæmdaráðs séu tilkynntir og aðgengilegur almenningi nema sérstök ástæða sé fyrir því að loka þeim eða loka hluta þeirra. Gæta þarf auðvitað meðalhófs að þessu leiti og eingöngu loka þeim hlutum fundarins sem falla undir þær sérstöku ástæður en ekki öðrum liðum hans sem einir og sér geta ekki réttlætt lokun. Þó heill fundur sé lokaður með þessum hætti væri eðlilegt að hann sé tilkynntur en samt nefnt að hann sé lokaður í heild.

Annar liður í gagnsæiskröfunni er sá að fundargerðir framkvæmdaráðs séu gerðar og birtar innan hæfilegs tíma. Svigrúm er til þess að meta hvað teljist hæfilegt að þessu leiti en á því eru auðvitað takmörk. Séu reglur innan framkvæmdaráðs að ákvarðanir teljist ekki formlega teknar fyrr en eftir staðfestingu fundargerðar, þá myndi það teljast eðlilegt að svigrúmið myndi víkka í samræmi við það, að því gefnu að afgreiðsla fundargerðanna fari fram innan tíma sem teldist eðlilegur. Þó rædd séu einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga er krafan samt sem áður að fundargerðin sé gerð með eins mikilli nákvæmni og aðrir fundarliðir þó sá hluti sé ekki opinberlega birtur.


Tillaga:

Aftast í 7. kafla skal koma ný grein, svohljóðandi:
Tillögur lagðar fyrir framkvæmdaráð teljast ekki samþykktar nema meirihluti sitjandi fulltrúa framkvæmdaráðs veiti tillögu brautargengi með samþykkt hennar.

Greinargerð:

Lög Pírata minnast ekki á hlutfall þeirra í framkvæmdaráði sem þurfa að standa að baki ákvörðun en gera má ráð fyrir því að venjur hafi myndast í þeim efnum en þær geta auðvitað breyst við stjórnarskipti. Eðlilegt þykir að fyrirkomulagið hvað þetta varðar sé frekar byggt á lögum en óskráðum venjum.


Tillaga:

Aftast í 7. kafla skal koma ný grein, svohljóðandi:
Boða má fundi til framkvæmdaráðs með minna en viku fyrirvara, þrátt fyrir grein 7.8, en boðun og framkvæmd þarf, að öðru leiti en kemur fram í grein þessari, að vera í samræmi við ákvæði laga þessara um fundi framkvæmdaráðs. Fyrirliggjandi staðreyndir máls verða að styðja að brýnir og mikilsverðir hagsmunir liggi því til stuðnings að afgreiðsla máls fari fram fyrir tímasetningu næsta fundar sem hægt er að halda með hinum venjulega fyrirvara. Þá teljast ákvarðanir teknar á slíkum fundi ekki gildar nema sex sitjandi fulltrúar framkvæmdaráðs veiti þeim brautargengi. Sé ákvörðun samþykkt með þessum hætti tekur hún gildi án tafar en framkvæmdaráð skal þó á næsta fundi þess, boðuðum með venjulegum fyrirvara, taka málið aftur til afgreiðslu, til samþykktar eða synjunar. Við töku ákvarðana á grundvelli þessarar greinar skal gæta meðalhófs.

Greinargerð:

Neyðarrétturinn er langoftast óskráður og kveður hann um að nauðsyn brjóti lög. En til að beita honum þarf að uppfylla ákveðin ströng skilyrði. Sum skilyrðin eru áfram matskennd en með því að setja beinar lagalegar skorður er komin ákveðin formfesta á það hvernig þeir fundir eiga að fara fram og hvaða meginreglur gilda um ákvarðanir sem teknar eru.

Til að tryggja að sú ákvarðanataka sé nokkuð óumdeilanleg og sjálfsögð er eðlilegt að hún njóti aukins fylgis miðað við aðrar ákvarðanir og þyrftu því sex af sjö sitjandi fulltrúum að greiða henni atkvæði. Gert er þá ráð fyrir að varamenn séu einnig boðaðir og njóti atkvæðaréttar í forföllum aðalmanna eins og á öðrum fundum framkvæmdaráðs. Fundarboð til varamanna þurfa auðvitað að vera send á alla varamenn því annars telst fundurinn ekki löglegur, samanber aðra fundi framkvæmdaráðs.

Svo ákvörðun sé tæk til afgreiðslu þurfa brýnir og mikilsverðir hagsmunir að liggja fyrir. Þau hugtök geta verið matskennd og fagleg vinnubrögð myndu kveða á um að rætt sé með gagnrýnum hætti hvort fyrirhuguð teljist uppfylla öll þau skilyrði sem þurfa að liggja fyrir og helsti rökstuðningur með og á móti komi fram í fundargerð. Framkvæmdaráð metur því sjálft, að svo stöddu, hvort skilyrðin séu uppfyllt en gæti þurft að svara fyrir það gagnvart úrskurðarnefnd síðar.


Tillaga:

Á eftir orðinu „boða“ í grein 7.8 skal koma svohljóðandi liður:
alla aðalfulltrúa og varafulltrúa

Aftast í 7. kafla skal koma ný grein, svohljóðandi:
Nú fer einhver varanlega eða tímabundið úr framkvæmdaráði og skal efsti varamaður taka við af honum á meðan fjarveru stendur með þeim réttindum og skyldum sem fylgja. Sé um einstaka fundi að ræða skal efsti viðstaddi varamaður á hverjum fundi fyrir sig hljóta þau réttindi og skyldur á meðan þeim honum stendur. Varamaður valinn með sömu aðferð og fjarstaddi fulltrúinn skal eiga forgang. Varamaður telst eingöngu sem sitjandi fulltrúi í skilningi laga þessara á meðan hann hefur réttindi og skyldur aðalfulltrúa.

Greinargerð:

Mælt er með tveim meginbreytingum á fyrirkomulagi með varafulltrúa í framkvæmdaráði. Fyrst og fremst er verið að tryggja að allir aðalfulltrúar og varafulltrúar séu boðaðir svo allir hafi tækifæri til að taka þátt í starfinu og svo varamenn geti fylgst með og verið fljótari að koma sér inn í málin ef þeir þurfa að stökkva inn í málin með litlum fyrirvara.

Engar fastskráðar reglur eru í gildi innan félagsins um það hvernig fyrirkomulagi varafulltrúa er háttað og er sú framkvæmd of mikið byggð á venjum sem geta auðvitað breyst við stjórnarskipti. Meginreglan er sú að í fyrirsjáanlegum forföllum sem vitað er að standa yfir í einhvern tíma eða þau eru ótímabundin, þá sé efsti varafulltrúinn skráður aðalfulltrúi á meðan slíkum forföllum stendur. Á móti koma forföll á einstaka fundi eða í afar stutt tímabil og þá er miðað við að efsti viðstaddi varafulltrúinn taki við á þeim fundum eingöngu.

Forgangurinn er þannig að ef kjörinn aðalfulltrúi forfallast er það efsti kjörni varafulltrúinn sem hefur forgang og að breyttu breytanda fyrir slembivalda fulltrúa. Forfallist slembivalinn aðalfulltrúi og enginn slembivalinn varafulltrúi tiltækur mun efsti kjörni varafulltrúinn taka það að sér, og öfugt.

Ekki er farin sú leið að eigna varafulltrúum sæti aðalfulltrúans, heldur miðað við fjöldann sem þarf til að fylla í laus sæti. Dæmi um það er að ef fulltrúi A1 forfallast og fulltrúi A2 tekur við af honum. Síðan forfallast fulltrúi B1 og fulltrúi B2 tekur við. Ef fulltrúi A1 kæmi aftur yrði það fulltrúi B2 sem færi og fulltrúi A2 yrði áfram. Þetta myndi gilda um allar tegundir forfalla. Forföll varamanna myndu virka á sama hátt.

Skrásetja þarf auðvitað í fundargerðir framkvæmdaráðs hvaða varamenn eru atkvæðabærir.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....