Framkvæmdaráð Pírata hefur ákveðið að aðalfundur flokksins mun fara fram helgina 11. til 12. júní næstkomandi. Ákveðið var að flýta aðalfundi vegna þess að líkur standa til að Alþingiskosningar verði boðaðar í októbermánuði. Nánari upplýsinga um aðalfund er að vænta innan skamms.
Framkvæmdaráð vill koma á framfæri þökkum til fráfarandi formanns ráðsins, Ernu Ýrar Öldudóttur, sem sagði sig úr ráðinu síðastliðinn fimmtudag. Við þökkum henni kærlega fyrir samstarfið og fyrir góð og vel unnin störf í þágu Pírata.
Í kjölfar afsagnar Ernu Ýrar hefur myndast góð sátt meðal framkvæmdaráðs að tilnefna Olgu Margréti Cilia, núverandi ritara, til þess að taka við af Ernu sem formaður ráðsins. Unnar Örn Ólafsson var tilnefndur til þess að taka við starfi ritara ráðsins. Að öllu óbreyttu verður tilnefning þeirra formlega staðfest á fundi framkvæmdaráðs næstkomandi fimmtudag.
Sara Þórðardóttir Óskarsson tekur nú sæti sem aðalmaður í framkvæmdaráði en hún hlaut kosningu sem fyrsti varamaður framkvæmdaráðs á síðasta aðalfundi flokksins.
Framkvæmdaráð heldur áfram að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem vinna þarf til að mæta þörfum ört stækkandi stjórnmálaflokks. Má þar nefna ráðningu framkvæmdastjóra, forritara og undirbúning aðalfundar flokksins. Einnig er undirbúningur fyrir prófkjör í fullum gangi og unnið er að því að styrkja innviði flokksins til að tryggja lýðræðislega þátttöku allra félagsmanna í þessum mikilvægu kosningum.
Innra starf flokksins hefur eflst til muna í starfstíð ráðsins og vill það koma góðum þökkum til allra flokksmanna fyrir öflugt starf í þágu Pírata. Framkvæmdaráð hlakkar til að skila góðu búi í hendurnar á nýju framkvæmdaráði í júní næstkomandi.