Þrátt fyrir að alþingiskosningarnar fari ekki fram fyrr en 25. september getur þú engu að síður kosið strax í dag. Það má gera utan kjörfundar hjá sýslumönnum um allt land, bæði á aðalskrifstofum þeirra og útibúum. Að sama skapi geta sýslumenn ákveðið að setja upp sérstaka kjörstaði í umdæmum sínum, en nánari upplýsingar verður hægt að nálgast á vefsvæðinu syslumenn.is.
Auk þess má greiða atkvæði í öllum sendiráðum Íslands erlendis og aðalræðisskrifstofum Íslands í New York, Winnipeg, Nuuk og Þórshöfn í Færeyjum. Jafnframt er hægt að kjósa eftir samkomulagi hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis. Vegna faraldursins gætu þó verið sóttvarnaráðstafanir í gildi á kjörstöðum erlendis og fólk er hvatt til að spyrjast fyrir um þær hjá sendiskrifstofunum.
Þá er rétt að minna á að Píratar eru að safna undirskriftum fyrir framboðslistana sína um allt land. Í ljósi aðstæðna fer undirskriftasöfnun fram með rafrænum hætti – en nánari upplýsingar má nálgast hér.