Þingmenn Pírata létu að sér kveða í hinum svokölluðu eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gærkvöldi. Þar fluttu Píratar þrjár þrumuræður; um ægivald hagsmunahópa í íslensku samfélagi, allar fórnirnar á síðasta kjörtímabili, hvers vegna stjórnarsamstarfið var slæm hugmynd og sýndu hvers vegna það er mikilvægt að Píratar komist í ríkisstjórn.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen og Andrés Ingi Jónsson fluttu ræðurnar fyrir hönd Pírata. Ræðurnar þeirra má lesa í heild sinni hér að neðan.
Ræða Þórhildar Sunnu:
Forseti, kæra þjóð.
Þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali í vor að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og að það sé meiriháttar mál að lenda upp á kant við þá, voru mörkuð tímamót.
Með orðum sínum rauf seðlabankastjóri æpandi þögn æðstu ráðamanna þjóðarinnar um yfirgengilega ósvífni ákveðinna hagsmunahópa. Loksins hafði hátt settur embættismaður kjark til að segja það sem almenningur veit mætavel. Að á Íslandi eru stórir og valdamiklir hagsmunahópar sem svífast einskis. Sem reka fólk fyrir að gagnrýna þá og ofsækja þau sem veita þeim aðhald.
Þagnarmúrinn var rofinn og okkur gafst tækifæri til að ræða af alvöru hvort þetta sé samfélagið sem við viljum vera? Samfélag meðvirkni, afkomuótta og samtryggingar? Eða viljum við vera samfélag sem stendur á sínu og með sínum?
En nei, leiðtogar ríkisstjórnarinnar höfðu engan áhuga á því samtali.
Þannig snerust fyrstu viðbrögð forsætisráðherra ekki um það sem seðlabankastjóri sagði, heldur um það að blaðamaðurinn sem tók viðtalið hefði átt að krefja Ásgeir um dæmi. Eins og hún þekkti bara engin dæmi.
Í viðtalinu gagnrýndi Ásgeir einnig kæru Samherja gegn starfsmönnum Seðlabankans og sagði:
„Ég óttast það að mörgu leyti, í svona eftirlitsstofnun eins og Seðlabankinn er, að við lendum í því að við verðum hundelt persónulega eins og farið var á eftir þessu starfsfólki.“
Aftur var opnað á mikilvægt samtal. Þykir okkur sem samfélagi eðlilegt að opinberir starfsmenn í mikilvægum eftirlitsstofnunum eigi á hættu að vera kærðir persónulega af þeim sem eftirlitið beinist að?
Leiðtogar ríkisstjórnarinnar höfðu ekki heldur áhuga á þessu samtali. Inntur eftir viðbrögðum sagði fjármálaráðherra:
„Embættismenn með mikil völd verða auðvitað að vita það að ef þeim er misbeitt að þá geti það haft afleiðingar.“
Þá vitum við það – Fjármálaráðherrann, sem aldrei hefur sætt afleiðingum fyrir að misbeita valdi sínu, sama hversu gróflega hann gerir það, vill að starfsfólk eftirlitsstofnanna óttist afleiðingar eftirlitsstarfa sinna.
Rétt eins og fjölmiðlamenn eiga að óttast afleiðingar afhjúpanna sinna, eins og skáld og fræðimenn eiga að óttast afleiðingar gagnrýni sinnar og jafnvel ráðherrar sem hagsmunahóparnir hafa ekki í vasanum eiga að óttast afleiðingar orða sinna í þessum ræðustól.
Og á meðan horfum við upp á hagsmunaaðila sem svífast einskis. Sem reka skæruliðadeildir sem njósna um og rægja fólk sem þeim mislíkar. Sem beita sér í kosningum og prófkjörum og plotta um að hræða fólk frá því að vitna gegn sér í sakamáli.
Er þetta samfélagið sem við viljum – samfélag meðvirkni, afkomuótta og samtryggingar? Samfélag, þar sem er verra benda á brotin en að fremja þau?
Kæra þjóð,
Þetta er sama gerendameðvirknin og þöggunaraðferðin sem íslenskar konur hafa sagt stríð á hendur. Sömu viðbrögðin og þegar góðu strákarnir brjóta á okkur. Þeir hafa jú gert svo margt gott, ekki eyðileggja framtíð þeirra. Ekki hafa hátt. Alls ekki nefna nöfn.
Meðvirkni með ofríki hagsmunahópanna er af þessum sama meiði. Hún er kerfislæg. Og við sigrumst á henni með sömu verkfærunum – með samtakamætti, með því að hafa hátt og með því að hætta að púkka upp á fólk og flokka sem viðhalda henni.
Framundan eru kosningar, þögnin hefur verið rofin og markmið Pírata eru skýr.
Við viljum að embætti skattrannsóknarstjóra verði tekið upp úr skúffunni sem fráfarandi ríkisstjórn stakk því ofaní. Við viljum að það og aðrar eftirlitsstofnanir hafi bolmagn til að sinna skyldum sínum í þágu almennings, og að starfsmenn þeirra njóti verndar gegn persónulegum ofsóknum hagsmunahópa.
Við viljum tryggja fjölmiðlafrelsi með betri réttarvernd blaðamanna og mótvægisaðgerðum gegn afskiptum sérhagsmunaafla af ritstjórnarstefnu fjölmiðla.
Við viljum allan afla á markað, alvöru hömlur á eignarhald fiskveiðikvóta og alvöru gjald fyrir nýtingarrétt á öllum sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.
Og við viljum lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar sem setur valdhöfum mörk og endurheimtir fiskinn í sjónum úr klóm sægreifanna sem hafa fengið að vaða hér uppi á skítugum skónum allt of lengi.
Eða eins og Hallgrímur Helgason lýsti stöðunni:
„Við höfum ræktað þessa skúrka og leyft þeim að ráða hér öllu. Nú launa þeir okkur með því að sýna heiminum að íslensk spilling er besta spilling í heimi, hrein og tær eins og vatnið okkar og loftið. Svo tær að hún sést ekki á mynd, nema Helgi Seljan tali undir.“
Kæra þjóð,
Við skulum hætta að rækta þessa skúrka. Hætta að leyfa þeim að ráða hér öllu. Það gerum við með því að kjósa flokka sem eru ekki meðvirkir þegar skúrkarnir brjóta af sér og láta ekki undan öllum þeirra kröfum, heldur setja þeim stólinn fyrir dyrnar. Flokka sem leiða ekki varðhunda hagsmunahópanna til valda þvert ofan í fögur fyrirheit um annað. Flokka, sem láta hagsmuni almennings sannarlega ganga fyrir hagsmunum örfárra auðmanna og stórfyrirtækja. Flokka eins og Pírata.
Ræða Halldóru Mogensen
Kæra þjóð.
Ég, eins og mörg ykkar, var vonsvikin veturinn 2017. Eftir snarpa kosningabaráttu í kjölfar tveggja stjórnarslita töldum við Píratar að það væri kominn tími á breytingar. Við þyrftum betri stjórnmál. Stjórnmál sem hlusta á fólk, stjórnmál sem taka upplýstar ákvarðanir út frá gögnum og rökum, en ekki geðþótta og fjölskylduböndum. Stjórnmálamenn sem eru í tengslum við þjóðina, en geyma ekki peninga á hitabeltiseyjum og velja maka vina sinna í dómarastöður. Ríkisstjórn sem myndi segja skilið við stjórnmál fortíðar og skilja stjórnmál framtíðar
Veturinn 2017 gafst okkur tækifærið til að gera þetta að veruleika. Við Píratar settumst niður með flokkum sem við töldum að deildu þessari sýn með okkur, og gætu myndað ríkisstjórn sem myndi fela í sér nýtt upphaf. Ný stjórnmál sem hefði fólk og framtíðina í forgrunni. Sem ættu í beinu samtali við þjóðina, myndu lögfesta nýju stjórnarskrána og myndu ná fram nauðsynlegum breytingum í sjávarútvegi.
En það varð ekki niðurstaðan.
Tveir flokkar gengu frá samningaborðinu og mynduðu ríkisstjórn með flokknum sem stendur gegn þessu öllu. Niðurstaðan var því ríkisstjórn um kyrrstöðu en ekki framfarir. Niðurstaðan var fjögur ár af sömu gömlu stjórnmálunum, sömu gömlu aðferðunum, sömu gömlu lausnunum.
Ég gat samt huggað mig við það að ríkisstjórnin væri þó allavega undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Þingkona með prinsipp sem brann fyrir réttlæti og talaði fyrir framförum hlyti að verða öflugt mótvægi við allt sem á undan var gengið.
En góðir landsmenn, tónninn fyrir þetta stjórnarsamstarf var gefinn strax.
Í fyrstu stefnuræðu sinni, veturinn 2017, sagði forsætisráðherra að málamiðlanir séu í eðli sínu hvorki góðar né slæmar og að stundum þurfi að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Í dag – næstum fjórum árum síðar – hljótum við því að spyrja okkur: Hvaða „minni hagsmunum“ fórnaði Katrín Jakobsdóttir í skiptum fyrir þessa ríkisstjórn?
Voru það „minni hagsmunir“ að fórna nýju stjórnarskránni, en leggja þess í stað fram sitt eigið auðlindaákvæði sem engu breytir um sjávarauðlind þjóðarinnar? Voru það meiri hagsmunir en minni að hunsa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu?
Voru það „minni hagsmunir“ að lyfta lífeyrisþegum úr fátæktargildrum skerðinga og óhóflegrar skattlagningar á allt of lága framfærslu? Það var sem sagt hægt að biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, ólíkt því sem forsætisráðherra sagði sjálf rétt áður en hún tók við nýju embætti.
Voru það „meiri hagsmunir að senda konu úr landi sem var gengin 36 vikur á leið með valdi? Að vísa kasóléttri konu og barnungum syni hennar úr landi, þrátt fyrir að ljósmæður mótmæltu því harðlega. Voru hagsmunir hennar „minni hagsmunir?“
Hvað með Khedr-fjölskylduna? Abdalla, Rewida, Hamza, Dooa, Ibrahim og Mustafa. Fjölskylda sem hefur aðlagast íslensku samfélagi, eignast hér vinnu og vini, en þurfti að fara í felur undan valdstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Voru hagsmunir þeirra „minni hagsmunir“?
Hvernig stóð það vörð um „meiri hagsmuni” að verja fyrrverandi dómsmálaráðherra vantrausti? Dómsmálaráðherra sem upp á sitt einsdæmi gróf undan heilu dómstigi og var síðan dæmd brotleg fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
Hvaða stóru hagsmunir kröfðust þess að sjávarútvegsráðherra sæti áfram í embætti, þrátt fyrir að vera bersýnilega vanhæfur til að taka á stærsta sjávarútvegshneyksli síðari ára?
Og þegar ríkisstjórnin setti íþyngjandi reglur fyrir þjóðina, til þess að vernda hag og heilsu fólks í heimsfaraldri, skipti engu máli þó að ráðherrar brytu sjálfir þessar reglur. Samstaða með ráðherrum felur enda í sér stærri hagsmuni en samstaða með þjóðinni, virðist vera mat forsætisráðherra.
Því stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Við upphaf faraldursins var neyðarástand í heilbrigðismálum – og við lok faraldursins er neyðarástand í heilbrigðismálum, langir biðlistar, krabbameinsskimanir í uppnámi, hjúkrunarheimilin á barmi gjaldþrots, sjálfstætt starfandi læknar loka stofum sínum og Landspítalanum er áfram gert að skera niður. En þetta eru auðvitað minni hagsmunir sem má fórna, rétt eins og samningum við ljósmæður og hjúkrunarfræðinga.
Góðir landsmenn,
Veturinn 2017 var ég vonsvikin en í dag, ég veit það ekki… mér finnst þetta bara svo mikið rugl! Við hefðum getað nýtt síðustu fjögur ár í að byggja upp betri stjórnmál. Stjórnmál sem setja fólk, hugmyndir þess og hagsmuni í forgrunn. Þar sem upplýstar ákvarðanir, gagnsæi og beint lýðræði veita alvöru aðhald þegar ráðamenn villast af leið. Kvik stjórnmál sem geta brugðist hratt við áskorunum framtíðar – Stjórnmál sem Píratar hafa alltaf og munu alltaf berjast fyrir.
Við hefðum geta verið að klára þetta kjörtímabil með því að samþykkja nýju stjórnarskrána!
En þess í stað fengum við fjögur ár af fórnum. Fórnum sem þurfti ekki að færa. Fórnir sem ákveðið var að færa – fyrir valdastóla.
Kæra þjóð, framundan eru kosningar og fjögur mikilvæg ár. Fjögur verðmæt ár. Það skiptir máli hvernig við kjósum. Verður endurreisnin eftir faraldurinn á forsendum framtíðar eða frekari fórna? Okkar er valið.
Ræða Andrésar Inga
Góðir áheyrendur,
Núna þegar líður að kosningum er gott að rifja upp þá erfiðu lexíu sem mörg lærðu eftir síðustu kosningar. Þá sögðum við oft, sem vorum frambjóðendur Vinstri grænna á þeim tíma, að það skiptir máli hver stjórnar. En miklu sjaldnar var talað um hvað það skiptir miklu máli hverjum væri stjórnað með.
Fyrir næstum fjórum árum stóð ég fyrir framan þáverandi félaga mína í flokksráði VG og lýsti því hvers vegna ég gæti ekki stutt þessa ríkisstjórn. Það var hvorki einfalt né auðvelt. Í salnum fyrir framan mig sátu vinir mínir, fólk sem varði með mér löngum og oft lýjandi dögum í kosningabaráttunni. Við höfðum gengið saman í hús, bakað vöfflur og dreift kosningabæklingum í Kringlunni.
En nú stóð ég fyrir framan þessa félaga mína og sagði að mér litist ekki á hvert flokksforystan vildi fara. Sumum þótti stjórnarmyndunin djörf ákvörðun og jafnvel spennandi. Því var ég ósammála. Það væri einfaldlega of langt á milli flokkanna til að ná þeim raunverulegu breytingum sem við kölluðum eftir. Enda kom það á daginn. Meira að segja mál sem áttu að vera vel varin í stjórnarsáttmálanum hafa átt erfitt uppdráttar á kjörtímabilinu – eins og sést t.d. skýrt á hálendisþjóðgarðinum, þar sem andstaðan hefur verið langmest innan stjórnarliðsins sjálfs.
En sá ótti sem ég lýsti fyrir félögum mínum var líka að flokkurinn yrði of samdauna samstarfsflokkunum. Á milli línanna í stjórnarsáttmálanum mátti lesa að flokksforystan vildi fjarlægjast rætur sínar sem málsvarar vinnandi fólks. Og það var nákvæmlega það sem gerðist. Ríkisstjórnin hófst handa við að mylja niður eftirlitsstofnanir, veita skattaívilnanir til fjármagnseigenda – og í dag var byrjað að einkavæða banka í óþökk þjóðarinnar. Þessi hörðu ítök atvinnurekendaarms Sjálfstæðisflokksins hafa verið alltumlykjandi í efnahagslegum viðbrögðum við afleiðingum Covid.
Þetta er nýi takturinn sem flokkurinn fann með nýjum samherjum en við, sem viljum róttækar og réttlátar breytingar á samfélaginu, þurftum að finna okkur annan samastað.
Auðvitað þarf málamiðlanir í stjórnmálum. Auðvitað þarf samtal og sameiginlegar lausnir í stjórnmálum. En málamiðlanir mega aldrei vera á kostnað þeirra grunngilda sem stjórnmálafólk stendur fyrir. Þegar málamiðlanirnar fara að vera markmið í sjálfu sér, því fólki þykir svo spennandi að brúa á milli sem ólíkastra póla, þá er það ekki til að bæta stjórnmálamenninguna – heldur miklu frekar til þess fallið að grugga vatnið.
Í gruggugu vatninu finna stjórnarliðar sig sífellt í þeirri stöðu að segjast ætla að gera betur, en gera það ekki í alvöru. Stæra sig af því að hafa aldrei boðið jafn mörgum kvótaflóttamönnum til landsins eins og á síðasta ári – 100 talsins – þegar raunverulegur fjöldi sem kom á árinu, þegar upp var staðið, var núll.
Stæra sig af stefnu sinni í loftslagsmálum en þegar hún er rýnd í kjölinn sést að hún er hálfgerð ekki-stefna, enda afrakstur endalausra málamiðlana flokka sem eru í grundvallaratriðum ósammála. Helmingur framlags til loftslagsmála fer í að niðurgreiða bíla til tekjuhærri hluta samfélagsins, þannig að stefnan tryggir engan veginn réttlátu umskiptin sem skipta sköpum í loftslagsmálum. Frekar en að auka stöðugt metnað, eins og vísindin kalla á, þá sitjum við föst á sama stað og ríkisstjórnin ákvað 2017 – og í stað þess að blása til sóknar, setja sér sín eigin metnaðarfullu markmið, þá útvistuðu þau frumkvæðinu til Evrópusambandsins.
„Ekki kjósa Framsókn, eða Sjálfstæðisflokkinn, því ef að þú gerir það, þá fer allt til helvítis,“ söng Ragnar Kjartansson fyrir einar kosningarnar. Það sem við höfum lært á þessu kjörtímabili er að þetta var ekki tæmandi upptalning hjá Ragnari.
Framundan eru gríðarmikilvægar kosningar þar sem við þurfum að kjósa flokka sem gera það sama eftir kosningar og þeir segjast ætla að gera fyrir kosningar.
Hefðbundnar pólitískar málamiðlanir ná ekki utan um stærstu áskoranir samtímans. Það hefur þetta kjörtímabil og þessi skringilega kyrrstöðuríkisstjórn kennt okkur. Og hefðbundnar málamiðlanir eru algjörlega úreltar í loftslagsmálum. Þær myndu krefjast þess að ná pólitísku samkomulagi við náttúrulögmálin – og náttúran hlustar ekki á slíkar málamiðlanir. Við þurfum ný vinnubrögð, við þurfum nýja nálgun á stjórnmálin.
Þess vegna gekk ég til liðs við Pírata fyrr á árinu. Því til þess að næsta ríkisstjórn knýji fram raunverulegar og nauðsynlegar breytingar á samfélaginu þarf Pírata þar innanborðs. Ekki vegna þess að okkur þyrsti í völd valdanna vegna, heldur vegna þess að frá fyrsta degi hafa Píratar staðið fyrir annars konar stjórnmál. Stjórnmál sem byggja á heiðarleika og róttækni. Stjórnmál sem standa fyrir eitthvað og vita þess vegna að það er ekki hægt að fara í stjórn með hverjum sem er.