Oktavía Hrund Jónsdóttir, varaþingkona Pírata á Íslandi, hefur verið kosin vara-formaður Pírata í Evrópu (PPEU). Auk Oktavíu voru þær Katla Hólm Þórhildardóttir, varaþingkona Pírata á Íslandi og Gamithra Marga, alþjóðafulltrúi Pírata á Íslandi, kosnar í stjórn Pírata í Evrópu. Íslenskir Píratar eiga nú samtals þrjú sæti í stjórn Pírata í Evrópu og hafa íslenskir Píratar aldrei verið fleiri í stjórninni. Mikuláš Peksa, núverandi þingmaður Pírata á Evrópuþinginu, var kosinn formaður Pírata í Evrópu. Markétka Gregorová, Evrópuþingmaður tékkneskra Pírata tekur sæti vara-formanns ásamt Oktavíu Hrund Jónsdóttur. Ítalskir Píratar komust í fyrsta sinn í stjórn ráðsins með kjöri Alessandro Ciofini sem gjaldkera.
Fimmti ársfundur Pírata í Evrópu fór fram á Ítalíu.
Ársfundur Pírata í Evrópu átti sér stað í Mílanó, Ítalíu dagana 2-3 nóvember. Píratar í Evrópu hafa notið mikillar velgengni á árinu. Tékkneskir Píratar fengu þrjá þingmenn kjörna á Evrópuþingið auk þess sem að þýskir Píratar héldu sínum þingmanni. Þá hafa evrópskir Píratar notið velgengni í sveitarstjórnum víða um Evrópu.