Þó að hrökkvi fiðlustreingur

Þó að brotni þorn í sylgju,
þó að hrökkvi fiðlustreingur,
eg hef sæmt hann einni fylgju:
óskum mínum hvar hann geingur.

Úr ljóði Halldórs Laxness Frændi þegar fiðlan þegir

Við umboðsmenn Pírata sem og þingflokkur okkar viljum koma á framfæri þakklæti til hinna flokkanna sem tóku þátt í fimm flokka stjórnarmyndunarviðræðum. Það var upplifun okkar að allir sem tóku þátt hafi lagt sig fram af fullri einurð en stundum er það svo að þó að fiðlustrengurinn hrökkvi aðeins, þá afstillast allir.

Við fórum í þessar viðræður á jafningja grunni og við öll sem í þessu viðræðum tókum þátt náðum ótrúlega mikilvægum sáttartón í málaflokkum sem skipta miklu máli.

Ber þar helst að nefna; ferill til að taka upp hina nýju stjórnarskrá sem þjóðin samþykkti að yrði lögð til grundvallar heildarendurskoðnu á henni, sátt um að lúta ráðgjafar þjóðarinnar um áframhald aðildarviðræðna, sátt um miklar breytingar á landbúnaðarkerfinu, sátt um að leggja stóraukið fé í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og aðra innviði, sátt um marga liði tekjuöflunar, sátt um auknar heimildir til strandveiða, sátt um að nauðsynlegt væri að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, eina sem þar strandaði á var útfærsla er lýtur að markaðsleið, sem þó var langt komin, sátt um að stofnaður yrði miðhálendisþjóðgarður, sátt um að efla þingið og viðhafa aga, ráðdeild og fagmennsku frá handhöfum ríkisvaldsins.

Sátt um að sauma saman þessa sáttmála með þráðum spunnum úr jafnrétti, mannúð, nátturuvernd, allt umlykjandi gagnsæi og opinni stjórnsýslu.

Því miður varð niðurstaðan í dag sú að ekki náðist að brúa örsmáa brú sem þó var vel fær að okkar mati. Það er því með nokkurri hryggð og trega sem við skiluðum umboðinu til baka á Bessastaði vitandi hve ábyrgðin var mikil í hinu stóra samhengi. Við skiljum ekki alveg hvað gerðist. Nálguðumst þetta af auðmýkt sem einskonar sáttasemjarar og skynjuðum aldrei þannig gjá, að ekki hefði mátt brúa eða hreinlega bíða aðeins með.

Forsetinn gaf þau ráð þegar við fengum umboðið að kannski væri skynsamlegt að leggja eitthvað til hliðar frekar en að láta stranda á of mörgum baráttumálum.

Við spurðum viðmælendur okkar hvort að þau teldu að tilefni væri að segja að við værum komin á endastöð og þetta hafi verið reynt til þrautar. Samkomulag var um að svo væri ekki en engu að síður töldum við sem sátum við borðið í dag rétt að umboðið færi aftur til Bessastaða svo að rými myndi skapast fyrir fleiri til að hefja samræður.

Ljóst er að ekkert stjórnarmynstur myndi framkalla eins miklar umbætur og ef þessir fimm flokkar kæmu sér saman um samstarf. Miklar breytingar eru í heiminum og mikil er ábyrgð okkar að boða von og umbætur. Við erum reiðubúin að taka upp þráðinn aftur. Við þökkum traustið og vonum að það heiðursmanna samkomulag sem rætt var um á hádegisfundinum í dag að búa ekki til blóraböggla verði leiðarljós á næstunni.

Ást og friður

Þingflokkur Pírata