Þjóðin er búin að fá nóg. Hristum upp í þessum kerfum og hættum að vera hrædd.

Ræða: Birgittu Jónsdóttur á aðalfundi Pírata nú fyrr í dag.

Kæru Píratar og gestir

Mikið fylgi í skoðanakönnunum hefur verið þungamiðja umræðusamfélags okkar um okkur og mörg ykkar sem hér eruð – eruð nýliðar. Það sem er ánægulegast við allan þennan stuðning útí samfélaginu er að þið hafið ratað til okkar. Félagatalið okkar vex hratt og örugglega og með þessum vexti fylgir aukin ábyrgð félaga sem lengur hafa starfað innan Pírata að miðla grunngildum okkar til hinna. Öllu okkar innra starfi er sinnt afsjálfboðaliðum, Framkvæmdaráð ber hitann og þungan af allri framkvæmd sem yfirleitt starfsmaður sér um hjá öðrum flokkum og er ég þeim óendanlega þakklát fyrir alla þeirra vinnu. Okkar pólitíska miðja snýst um grunnstefnuna okkar og okkar kompás er píratakóðinn. Það er gott að hafa skýran og já rótfastan grunn í hugmyndafræði sem um margt er ólík annarri dæmigerðri stjórnmálahugmyndafræði. Við skilgreinum okkur hvorki til hægri né vinstri. Við skilgreinum okkur fyrst og fremst sem fólk sem vill mannúðlegra samfélag með því að tryggja borgaralegréttindi okkar í lögum sem og í framkvæmd. Margt hefur breyst í samfélagi okkar eftir að heimurinn fékk gefins hið stórkostlegaverkfæri Internetið. Það verkfæri hefur gefið okkur tækifæri til að tengjast öðrum á milli heimsálfa og sveitarfélaga, það hefur gefið okkur tækifæri á að öðlast þekkingu sem áðurvar ekki auðvelt að hafa aðgengi að. Það sem þetta verkefæri hefur þó gefið okkur meira en nokkur annað er að tækifæri til valdeflingar eru miklu fleiri en áður tíðkaðist og fólk getur á auðveldan hátt búið til samfélög í netheimum sem leiða af sér samfélög í raunheimum, eins og ótal dæmi sanna. Það var auðvitað fyrst facebook síða sem lagði til að fólk kæmi með dót úr eldhúsunum sínum á mótmæli í kjölfar hrunsins.

Nú erum við Píratar í þeirri sérkennilegu stöðu að við eigum raunverulegt tækifæri á að breyta þessu samfélagi í grunninn. Engu okkar óraði fyrir þeim mikla meðbyr sem við höfum haft. En hvernig ætlum við að nota þennan meðbyr? Ætlum við að nota hann sem efnivið í róttækar breytingar eða sigla inn í hinn lygna fjörð hefðbundinna stjórnmála? Fyrir mitt leiti þá hef ég engan áhuga á því. Ég er auðvitað fyrst og fremst aðgerðarsinni, manneskja sem trúi á mátt og skildu einstaklinga til að breyta samfélögum sínum ef maður upplifir að í samfélaginu ríki t.d. óréttlæti.

Það er mikil freisting sem felst í því að falla ekki í alla sömu pyttina og aðrir flokkar. Við getum auðveldlega reynt að tala inní þetta fylgi og reynt að aðlaga okkur stemmaranum í þjóðarsálinni á þessari stundu. En það eru ekki þannig stjórnmál sem mig langar að taka þátt í. Við getum auðveldlega lofað allskonar mjög þörfum breytingum með bútasaums aðferðum núverandi stjórnarfars þar sem tekið er á bráðavanda en ekki hugað að orsök hins kerfislæga vanda og mismunar. En það eru ekki þannig stjórnmál sem mig langar að taka þátt í. Það er auðvelt að búa til stefnur, þær líta vel út á blaði og í tali en framkvæmd stefnu og það huga að öllum afleiðingum hennar er síðan allt annar veruleiki og öllu snúnari. Ég er ekki að segja að við getum ekki gert það en það er bara ekki hægt að gera það í núverandi kerfi án þess að eiga á hættu að hiðlagatæknilega vistkerfi landsins fari úr skorðum. Það er nefnilega svo ógurlega flókið, að vel meinandi fólk getur gert illt verra með lagabreytinum. Maður þarf nú ekki að líta lengra en til Tryggingastofnunar og allra þeirra flóknu lagatæknilegu breytinga sem oft gera illt verra. Til þess að laga lífsviðurværi þeirra sem eru í viðkvæmustu hópunum hérlendis þarf meira til en bútasaum. Heildræn breyting verður að eiga sér stað og til þess að hægt sé að framkvæma hana þarf aðgengi að upplýsingum um hvernig þetta kerfi virkar og hverja það á að þjónusta.

Ég ermeð róttæka hugmynd um hvað væri nauðsynlegt, skemmtilegt og já Píratalegt að gera fyrir næstu kosningar og ég ætla að leggja hana fyrir þennan fund í þeirri einlægu von um að afla henni stuðnings. Þessi hugmynd hefur verið í gerjun og mótun síðanég sagði hana fyrst upphátt í viðtali þegar við vorum að skríða rétt yfir 20% í skoðanakönnunum. Síðan þá hef ég fengið lánaða dómgreind og álit frá mörgum félögum innan Pírata og ætla ég nú að fara yfir hana lið fyrir lið með þaðað leiðarljósi að við í sameiningu getum útfært hana á besta mögulega veg saman.

Ef við fáum umboð til að hafa eitthvað vægi fyrir næstu kosningar þá er um nokkra valkosti að ræða. Sá valkostur sem ég er spenntust fyrir og langar til að leggja allt mitt í er eftirfarandi.

Við leggjum til að fyrir næstu kosningar geri þeir sem hafa áhuga á að vinna saman fái þeir umboð bindandi samkomulag FYRIR kosningar. Enginn er útilokaður frá því að gera þetta bindandi samkomulag. Samkomulagið inniber eftirfarandi; á sex mánuðum verða gerðar tvær aðgerðir; nýja stjórnarskráin verður lögfest og boðað verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við ESB. Allt annað sem þarf að gera á þessum sex mánuðum eins og t.d. samþykkt fjárlaga verður gert án breytinga. Á þessu tímabili þarf að eiga sérstað mjög vel og öguð úttekt á allri stjórnsýslunni. Helsta hlutverk ráðherra væri að ráða til sín bestu mögulegu stjórnsýslufræðinga og sérfræðinga í opinni og nýtímalegri stjórnsýslu bæði hérlenda sem erlenda og verkstýra þeim í þessari úttekt. Þá er nauðsynlegt að skoða hvort að núverandi ráðuneytakerfi eru gagnleg en mikið er um það að ráðuneyti séu í opinni samkeppni um fjárlög og heildræn stjórnsýsla þar sem heildarvelferð þjóðar og þjóðarbús er ekki á oddinum heldur smákónga slagir sem oft bitna á þeim sem kerfið á að þjóna. Það eru margir sérfræðingar sem við gætum leitað til sem hafa náð góðum árangri í stjórnsýslunni og það vill svo heppilega til að nokkur okkar innan Pírata höfum haft tækifæritil að kynnast mörgum þeirra. Ef ég ætti að nefna einhverja sem ég hefði áhuga á að leita til þá dettur mér fyrst í hug Finnland en þeir hafa t.d. opnað stjórnsýsluna sína mikið, þar á meðal fjárlög á síðasta ári. Verkefni sem má ráðast í núna í aðdraganda kosninga er að hefja þá vinnu sem þarf til að skoða hvað það er í mismunandi ríkjum sem virkar til valdeflingar og dreifingar. Í heildina ætti þetta stutta kjörtímabil ekki að taka lengri tíma en meðgöngu tíma, 9 mánuði alls, því það þarf að gefa smá tíma í undirbúning að nýjum alþingiskosningum. Annað hvort mun okkur takast vel eða illa og við munum njóta stuðnings í samræmi við það eftir þetta mikilvæga verkefni. Mér finnst þetta vera verkefni sem ég er til í að leggja allt í sölurnar fyrir og það eina sem gæti orðið til þess að ég treysti mér aftur í framboð. Tilhugsunin um hefðbundið stjórnarfar er mér óbærileg. Ég hef séð hvernig þetta virkar þarna inni í kerfinu og þessi hugmynd er það eina sem mér dettur í hug til að nota þá stjórnmálakrísu sem er nú ríkjandi til að laga grunninn til frambúðar í samræmi við það sem kallað var svo afgerandi eftir í kjölfar hrunsins.

Ég er gamall tölvunörd og hef mikinn áhuga á kerfum. Þau kerfi sem viðhöfum núna eru úr sér gengin og ástæða fyrir mikilli óánægju á meðal svo margra sem búa í samfélaginu okkar, vegna þess m.a. að fólk upplifir sig ekki lengur öruggt í kerfinu og allt of margir falla í gegnum risa möskva kerfisgalla. Allt er einhvernveginn að molna að innan. Heilbrigðiskerfið, húsnæðiskerfið,velferðarkerfið og penginakerfið. Allt er þetta hluti af einhverskonar vistkerfi sem allt hefur áhrif á hvert annað og ómögulegt að taka bara einn málaflokk útfyrir sviga og ætla aðlaga hann án þess að það hafi áhrif á allt hitt.

Til þess að við getum t.d. skoðað almennilega kosti og galla borgaralauna þá þurfum við að fá almenningar upplýsingar um hvað það myndi kosta í framkvæmd, kannski væri þannig kerfi t.d. best hrundið af stað með því að tryggja öllum umbjóðendum Tryggingastofnunar borgaralaun og þá væri hægt að leggja gamla kerfið niður í núverandi mynd. En maður leggur ekki niður kerfi fyrr en maður hefur smíðað nýtt til hliðar til að setja á fótum leið og hið gamla er leyst upp.

Ég sé núverandi stjórnarská eins og fyrsta makkann minn sem ég fékk mér 1991. Ég get varla ræst tölvuna og nota hana helst sem stofustáss. Ég get notað floppidiska sem flestir eru týndir og ekki get ég farði á netið eins og það er í dag og gert það sem mig langar eða horft á t.d. netflix eða hlustað á spotify. Nei netscape hefur ekki verið uppfært um langa hríð. Nýja stjórnarskráin er afturámóti eins og nýju macbook pro fartölvunnar, þar er hægt að setja inn öll nýju kerfin án vandkvæða og uppfæra gömul. Það hefur verið reynt að gera heildræna stjórnarskrá í 70 ár og ekki tekist. Eintómur bútasaumur án þess að fólk upplifi að við séum með samfélagssáttmála sem endurspeglar þjóðarviljan. Margir sem segjast unna lýðræðinu eru samt tilbúnir að taka sér það vald að halda áfram með bútasauminn samanber enn eina stjórnarskrárnefndina sem nú er að störfum. Ég verð að viðurkenna að ég á bágt með að treysta núverandi valdhöfum fyrir stjórnarskrárbreytingum er lúta að auðlindarákvæðinu sem og málskostréttinum. Þetta fólk er að breyta gegn því sem var svo afgerandi þjóðarvilji um 20 október 2012.

Hinir valkostirnir eru þekktir og hefðbundir. Píratar fara í stjórnarsamstarf með einhverjum öðrum flokkum og það er myndaður stjórnarsáttmáli til fjögurra ára í reyk og ilmvatnsfylltum bakherbergjum einhverra ráðherra og miðstjórna. Sá sáttmáli yrði alltaf þannig að stefnumálum yrði fórnað og fólk verður áfram reitt og leitar jafnvel í einhverja farvegi eins og hefur gerst í Evrópu.

Við gætum líka fengið að vera í minnihluta og það er kæru vinir mjög erfitt til lengdar, því það eru svo mörg aðkallandi verkefni sem þarf að ráðast í og minnihluti fær aldrei tækifærií að móta eða koma í gegnum nýjum stefnum nema í einstökum kraftaverkamálum sem gerast stundum í mikilli samfélagslegri ólgu.

Í ljósi þess hvaða mál fóru á oddinn á vefnum okkar Betri Aðalfundur til aðálykta og ræða um á þessum fundi þá má segja að stjórnarskráin og lýðræðisefling á mikinn hljómgrunn meðal Pírata en þau mál nutu mesta stuðningsins á meðal þeirra sem tóku þátt í þessu verkefni með okkur en allir félagsmenn áttu kost á að taka þátt. Mér finnst það frábært. Takk öll fyrir að vera með og takaþátt í að móta samfélagið okkar. Við getum breytt þessu staðnaða valdklíkukerfi saman, ég er sannfærð um það. Ef við getum ályktað um það á þessum fundi að við viljum fara í þessa róttæku leið saman þá yrði ég óendanlega bjartsýn áframtíðina okkar. Útfærsluna finnum við saman. Það eru einstök forréttindi að fá tækifæritil að vinna með ykkur og munið; allir Píratar eru Kapteinar.Verum breytingin sem við viljum sjá í samfélaginu okkar. Þjóðin er augljóslega búin að fá nóg. Hristum upp í þessum kerfum,verum óhrædd.

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....