TILKYNNING TIL STARFSALDURSFORSETA OG SKRIFSTOFUSTJÓRA ALÞINGIS
Píratar tilnefna Ragnheiði Ríkharðsdóttur til embættis forseta Alþingis
Starf forseta Alþingis er viðamikið og mjög vandmeðfarið. Forseti ber ábyrgð á rekstri Alþingis og fer með æðsta valdið í stjórnsýslu þess. Hann boðar þingfundi og hefur yfirumsjón með skipulagi þingstarfa. Hann á að hafa samráð við þingflokksformenn um starfsáætlun þingsins og fyrirkomulag umræðna. Forseti stjórnar fundum Alþingis og umræðum. Komi upp ágreiningur um túlkun þingskapa sker forseti úr um hann. Þá hefur forseti formlega umsjón með starfi þingnefnda og getur sett reglur um fundarsköp þeirra. Hann ákveður starfsáætlun fastanefnda og gerir áætlun um afgreiðslu mála úr nefndum í samráði við formenn þeirra.
Að framangreindu má ljóst vera hve viðamikið starf forseta Alþingis er. Afar mikilvægt er að sátt ríki um forseta Alþingis meðal þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa. Forseti Alþingis er forseti alls þingsins en ekki eingöngu stjórnarmeirihlutans eða jafnvel ríkisstjórnarinnar.
Á undanförnum árum hefur traust til Alþingis verið í sögulegum lægðum. Við Píratar teljum að góður forseti geti átt drjúgan hátt í að efla traustið á Alþingi Íslendinga. Góður forseti þarf að hafa til að bera færni og hæfileika til að sáttaumleitana meðal þingflokka og vilja og getu til að taka tillit til sjónarmiða bæði minni- og meirihlutans. Slíkur forseti myndi án efa njóta trausts meðal þingmanna allra.
Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að forseti sé kosinn með auknum meirihluta, í ljósi þess að hann er forseti alls þingsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við markmið um aukna valdreifingu og aukið samráð innan þingsins.
Öllum þingmönnum er frjálst að tilnefna þann þingmann sem þeir telja bestan til forsetaembættisins. Þeim er að sjálfsögðu frjálst að tilnefna þingmann úr röðum hvaða þingflokks sem er. Tilnefning okkar Pírata er, að okkar mati, í anda þeirrar sáttar sem ríkja þarf um embættið samkvæmt því sem að framan greinir. Forystumenn stjórnarflokkanna urðu ásáttir um að forseti Alþingis skuli koma úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Við Píratar virðum samkomulag milli stjórnarflokkana í þessu efni og það er á engan hátt markmið okkar að leggja stein í götu nýrrar ríkisstjórnar með tilnefningunni. Þvert á móti viljum með þessu bjóða fram hugmynd að góðu upphafi á jákvæðu samstarfi á Alþingi.
Þótt venjan sé að einungis ein tilnefning komi fram um forseta, þarf það á engann hátt að valda þingmönnum hugarangri að velja milli tveggja eða fleiri góðra félaga úr röðum þingmanna, Kosning forseta er leynileg og því ekki gert opinskátt hvernig hver og einn þingmaður hefur varið atkvæði sínu við kosninguna.
Við Píratar teljum Ragnheiði Ríkharðsdóttur afar hæfa til að gegna embætti forseta enda hefur reynslan af starfi hennar sem fyrsta varaforseta verið afar góð. Hún hefur leitast við að ná góðri samræðu og sátt meðal þingflokka og sinnt störfum sínum í alla staði afar vel. Því tilnefnum við Ragnheiði Ríkharðsdóttur til að gegna embætti forseta Alþingis. Nái hún kjöri, sýnir það að jafnvel þótt þingmenn úr minnihluta tilnefni geti það allt eins verið góður kostur fyrir meirihlutann.
Birgitta Jónsdóttir
Helgi Hrafn Gunnarsson
Jón Þór Ólafsson