Þingflokkur Pírata í mótun

Þingflokkur Pírata hefur skipað í allar helstu stöður innan þingflokksins eftir kosningar. Birgitta Jónsdóttir var kjörinn þingflokksformaður, Ásta Guðrún Helgadóttir sem varformaður og Einar Brynjólfsson er ritari.

Hlutkesti var varpað um stöðu formanns Pírata og varð Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hlutskörpust. Formennska í Pírötum er eingöngu formlegs eðlis vegna þinglegra reglna og hefur ekki í för með sér nein sérstök valdsvið eða ábyrgð. Samkvæmt lögum Pírata ber að hafna sérstöku 50% launaálagi formanns sem Alþingi greiðir formönnum sem ekki gegna samtímis ráðherraembætti. Píratar telja að slíkar álagsgreiðslur vegna flokksstarfs séu á ábyrgð flokkanna en ekki Alþingis.

Þingflokkurinn hefur ráðið Jón Þórisson tímabundið sem aðstoðarmann þingflokksins. Þar að auki hefur Oktavía Hrund Jónsdóttir verið ráðin tímabundinn ráðgjafi þingflokksins og ber meðal annars ábyrgð á mótun ferla og verklags.

Þingflokkurinn mun í samráði við ráðningarstofu auglýsa stöðu framkvæmdastjóra þingflokks og aðstoðarmanns þingflokks á næstunni.

Þingmenn Pírata eru Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Einar Brynjólfsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar Hrafn Jónsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Þingmennirnir hafa með sanni ekki setið auðum höndum síðan þeim var falin sú mikla ábyrgð að vera fulltrúar kjósenda sinna á Alþingi. Sóttir hafa verið fundir, málstofur, þingsköp rýnd, grunnur að siðareglum settar saman og handbók um faglega lagasetningu krufin. Þá stóð grasrót Pírata fyrir Framtíðarsmiðju nýverið sem var mjög vel sótt af nýliðum, sjálfboðaliðum og nýjum þingmönnum.

Eins og kunnugt er taka Píratar nú þátt í samningum um myndun fimm flokka ríkisstjórnar. Þingmennirnir Birgitta Jónsdóttir, Einar Brynjólfsson og Smári McCarthy eru umboðsmenn Pírata í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Þingflokkur Pírata þakkar stuðningsmönnum traustið og horfa bjartsýnir til framtíðar.