Svona skipta þingmenn Pírata nefndum á milli sín

Alþingi Íslendinga var sett í dag í kjörfar þingkosninganna í október. Samhliða þingsetningu fór fram kjör í fastanefndir og alþjóðanefndir þingsins, en samkomulag náðist milli þingflokkanna um niðurröðun í þær.

Þingmenn Pírata eiga sæti í öllum fastanefndum nema umhverfis- og samgöngunefnd, en þar verður Björn Leví Gunnarsson áheyrnarfulltrúi.

Halldóra Mogensen verður formaður velferðarnefndar, en velferðarnefnd fjallar um sjúkra- og lífeyristryggingar, félagsþjónustu, málefni barna, málefni aldraðra og málefni fatlaðra, húsnæðismál, vinnumarkaðsmál og heilbrigðisþjónustu.

Jón Þór Ólafsson verður annar varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en þar er fjallað um stjórnarskrármál, málefni forseta Íslands, Alþingis og stofnana þess, kosningamál, málefni Stjórnarráðsins í heild og önnur mál sem varða æðstu stjórn ríkisins, ásamt skipun rannsóknarnefnda og umfjöllun um skýrslur umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Jón Þór mun einnig eiga sæti í forsætisnefnd og verður 5. varaforseti Alþingis. Jón Þór var áður 3. varaforseti Alþingis og hefur einnig tvisvar áður átt sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Smári McCarthy mun taka sæti sem formaður þingmannanefndar EFTA og EES. Þingmannanefnd EFTA er ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA og fjallar um starfsemi EFTA, gerð fríverslunarsamninga og efnahags- og viðskiptamál almennt. Sama nefnd fjallar um málefni EES og hefur ýmis áhrif á þróun EES-samningsins.

Bæði Halldóra og Smári hafa áður átt sæti í þeim nefndum sem þau munu veita formennsku.

 

Þingmenn Pírata hafa að öðru leyti skipt með sér nefndarmennsku eftirfarandi:

Björn Leví Gunnarsson, fjárlaganefnd, áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, þingmannanefnd um norðurskautsmál

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar

Helgi Hrafn Gunnarsson, efnahags- og viðskiptanefnd

Jón Þór Ólafsson, 2. varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, 5. varaforseti forsætisnefndar

Smári McCarthy, atvinnuveganefnd, utanríkismálanefnd, formaður þingmannanefndar EFTA og EES

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, allsherjar- og menntamálanefnd, Evrópuráðsþingið