Sveitastjórnasmiðja á Akureyri í dag

Sveitastjórnasmiðja Pírata hófst í morgun á Akureyri. Markmið hennar er að gefa Pírötum um allt land tækifæri til að hittast og hefja stefnumótunarvinnu fyrir næstu sveitastjórnarkosningar.

Það er stórkostlegt að sjá hvað það er mikill áhugi meðal félagsmanna af öllu landinu. Þegar við hófum undirbúninginn reiknuðum við með því að hingað kæmu nokkrir fulltrúar úr hverju kjördæmi. Mér kom síðan skemmtilega á óvart að mæta yfir fjörutíu manns í morgun þegar fyrsta sveitastjórnarsmiðja Pírata hófst. Ég vona innilega að þetta setji tóninn fyrir komandi sveitastjórnakosningar um allt land,” segir Halldór Arason, stjórnarmaður Pírata á Norðausturlandi.

Píratar eru þriðji stærsti flokkur landsins samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Gallup. Flokkurinn stækkaði mikið fyrir síðustu Alþingiskosningar og eru Píratar nú með tíu þingmenn í stað þriggja á síðasta kjörtímabili. Píratar eiga einn aðalmann í sveitastjórn á landsvísu, Halldór Auðar Svansson í Reykjavík.

Það var mikið fagnaðarefni þegar eitt helsta baráttumál Pírata í borginni varð að veruleika – bókhald borgarinnar var galopnað. Nú halda Píratar áfram í stefnumótunarvinnu fyrir sveitastjórnarstigið með grunngildi sín að leiðarljósi sem snúast meðal annars um verndun og eflingu borgararéttinda, gagnrýna hugsun, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt borgaranna, beint lýðræði og gagnsæi valdastoða samfélagsins.

Málefnahópar sem unnið er með í dag:
Velferðarmál sveitarfélaga
Skólamál sveitarfélaga
Húsnæðismál
Fjármál sveitarfélaga
Stjórnsýsla
Umhverfismál og samgöngur