Sunna nýr formaður framkvæmdaráðs

Sunna og Elín

Sunna og Elín

Á fundi framkvæmdaráðs í vikunni var staðfest að Sunna Rós Víðisdóttir tekur við formennsku í ráðinu af Elínu Ýr Arnar Hafdísardóttur. Sunna hefur átt sæti í framkvæmdaráði sem aðalmaður frá síðasta sumri. Elín Ýr heldur áfram í ráðinu en kaus að stíga úr sæti formanns vegna hrörnunarsjúkdóms sem hún greindist með fyrir nokkrum mánuðum. Hún er spennt fyrir áframhaldandi starfi með ráðinu en vildi minnka við sig þegar kemur að álagi og ábyrgð.

Sunna er 33ja ára, fædd og uppalin í Reykjavík en hefur til að mynda búið í Bandaríkjunum, Hollandi og Tékklandi. Þegar hún bauð sig fram til setu í framkvæmdaráði í fyrra sagði hún: „Mér finnst gaman að starfa með ólíku fólki enda hef ég sjálf verið allskonar fólk en ég fór snemma út á vinnumarkaðinn að loknum grunnskóla en hef hægt og bítandi verið að sækja mér aukna menntun.” Sunna er með BA-próf í þjóða- og Evrópurétti og er meistaranemi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. „Mannréttindi og  borgararéttindi hafa lengi verið mín ástríða og áhersla Pírata á úrbætur í þessum málaflokkum er ástæða þess að ég er Pírati,” segir Sunna.

Mynd: Sunna og Elín saman á góðri stundu.